Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Helga Una Björnsdóttir og Jakob Svavar Sigurðsson festu kaup á Fákshólum í Ásahreppi árið 2016. Milli þeirra er hryssan Hrefna sem er í miklu uppáhaldi.
Helga Una Björnsdóttir og Jakob Svavar Sigurðsson festu kaup á Fákshólum í Ásahreppi árið 2016. Milli þeirra er hryssan Hrefna sem er í miklu uppáhaldi.
Mynd / HF
Fréttir 10. janúar 2023

Góð úrvinnsla lykilatriði

Höfundur: Hulda Finnsdóttir

Í Ásahreppi í Rangárvallasýslu er ræktunarbúið Fákshólar. Ræktendur þar eru Helga Una Björnsdóttir og Jakob Svavar Sigurðsson en þau hafa undanfarin ár verið að stimpla sig inn í hóp okkar fremstu hrossaræktenda.

Farið yfir málin. Jakob, hundarnir Píla og Tumi og Helga Una.

Þau Jakob og Helga Una voru hvort með sína ræktunina áður en þau sameinuðust undir nafni Fákshóla. Helga Una ræktaði hross kennd við Syðri-Reyki í Húnavatnssýslu þar sem hún er fædd og uppalin.

„Hrossaræktin hefur alltaf verið mér hugleikin. Það er ekkert skemmtilegra en að para saman hryssu og stóðhesta, sjá folaldið fæðast og fá síðan að fylgja því eftir. Sjá hvernig pörunin heppnaðist og hvort afkvæmið hafi erft ákveðna eiginleika frá foreldrum sínum,“ segir Helga Una. Fyrsta hrossið sem hún ræktaði er Bikar frá Syðri- Reykjum en það vakti mikla athygli á Stóðhestaveislu árið 2013 og síðar á keppnisbrautinni og áttu þau Helga farsælan feril þar til hún seldi hestinn til Noregs árið 2013.

Jakob Svavar kenndi hrossin sín við Steinsholt í Hvalfjarðarsveit. Jakob bjó þar lengi og starfaði við tamningar og hrossarækt þangað til að hann festi kaup á Fákshólum árið 2016. Frá Steinsholti hafa komið eftirtektarverð hross og má þar kannski fremstan nefna Hálfmána frá Steinsholti en hann og Jakob voru margverðlaunaðir á keppnisbrautinni m.a. Íslandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum árið 2021.

„Ég man nú ekki hvenær ég ræktaði mitt fyrsta hross. Ég eignaðist tvær hryssur frá Ketilsstöðum 1997 en ég hafði verið að vinna þar og hreifst af hryssunum. Það var svo í kringum 2000 sem ég fer að halda þeim fyrst.

Ég var með aðra þeirra sem nemendahest á Hólum, Birnu frá Ketilsstöðum, en hún er mamma Hálfmána. Hin reyndist ekki nógu vel í ræktun og ég á ekkert eftir hana. Kannski hélt ég henni líka undir vitlausa hesta, eins og getur komið fyrir,“ segir Jakob en Birna eignaðist m.a. þrjár fyrstu verðlauna- dætur undan Skýr frá Skálakoti; þær Sif, Töru og Tíbrá. „Við eigum því miður bara eina hryssu útaf henni en ég seldi allar þessar hryssur.

Við ætluðum alltaf að eiga Töru í ræktuninni en stundum þarf maður bara að selja. Við eigum eina hryssu undan Töru og Blakk og það væri mjög gaman að hún yrði nógu góð og við gætum sett hana í ræktunina hjá okkur,“ bætir hann við.

Rækta undan ólíkum hryssum

Jakob og Helga Una eru sammála því að þau leitist ekki eftir einhverjum ákveðnum stofnlínum eins og margir ræktendur gera. Hryssurnar séu allar úr ólíkum áttum og alls konar ættir að baki þeim.

„Við höfum viðað að okkur góðum hryssum héðan og þaðan en við leggjum áherslu á að góð ætt sé á bakvið þær. Við erum bæði með alhliða- og klárhryssur. Allar hryssurnar sem við erum að nota eru mikið góðar á tölti. Engin sem við erum að rækta undan er ekki með gott tölt. Flestar með 9,0 eða meira. Maður horfir líka til annarra ræktenda og sér hvað þeir eru með og hvað hefur verið að virka hjá þeim. Þó að maður hafi kannski haldið upp á einhverja hryssu og langi að eiga út af henni þá gerist það að afkvæmin eru ekki að gera sig. Þá verður það bara að hafa sig þó maður tapi því út,“ segir Jakob.

Þau Jakob og Helga héldu tíu hryssum í sumar en þau eru vanalega að fá eitthvað á milli sex til tíu folöld á ári. „Við eigum einhverjar hryssur til helminga og þá er talan svolítið misjöfn á milli ára. Við höfum ekki enn fengið svona stóra árganga til tamningar en ég held að tíu sé alveg nóg fyrir okkur. Þetta er næg vinna. Við höfum líka alltaf verið að selja svolítið úr hverjum árgangi,“ segir Helga Una.

Jakob Svavar og Tumi frá Jarðbrú enduðu í öðru sæti í B-flokki gæðinga á Landsmótinu í sumar. Mynd/Kolla Gr.

Vilja einfalda hesta með gott geðslag og tölt

Ræktunarmarkmiðið hjá þeim er að rækta góða hesta en hvað sé góður hestur getur verið afstætt. Misjafnt er hvað fólki finnst og því vilja þau bæði meina að mikilvægt sé að halda í fjölbreytileikann í stofninum.

„Fyrst og fremst erum við að vonast eftir að hrossin sem við fáum séu hestar sem nýtast og það getur verið breiður hópur af hrossum,“ segir Jakob og Helga Una skýtur inn í að þau vilji að hrossin séu einföld, með gott geðslag og gott tölt.

„Við höfum verið að halda undir ólíka hesta og er ég þeirrar skoðunar að fjölbreytileikinn sé af því góða. Það er kannski ekki rétt að úthrópa einhvern hest fyrir einhvern eiginleika sem kannski ekki öllum hugnast. Fjölbreytileikinn er mikilvægur og margir af bestu einstaklingunum hafa roðið til þegar maður blandar mjög ólík hross saman. Stundum er maður heppinn og fær það besta frá báðum foreldrum,“ bætir hann við.

Að velja stóðhest fyrir hryssuna sína getur verið vandaverk enda mikið úrval af góðum stóðhestum á landinu. Þegar Helga og Jakob velja stóðhesta horfa þau í ættirnar og velja hesta sem eru með sömu sterku eiginleika og hryssurnar.

„Ef við erum með frábæra tölthryssu þá viljum við að það sé frábært tölt í stóðhestinum. Ekki bara að horfa á að bæta hitt og bæta þetta heldur líka velja stóðhesta sem styrkja góðu eiginleikana,“ segir Jakob og bætir við að síðan sé þetta bara stórt lottó.

Jakob og Helga nota bæði alhliða og klárhesta, þótt undanfarin ár hafi þau kannski meira verið að horfa á klárhestana. Þau hafa þó lítið notað hesta sem bera CA arfblendna arfgerð og velja klárhesta sem eru AA arfgerð, þ.e.a.s. bera skeiðgenið.

„Við horfum mikið á arfgerðirnar AA og CA. Við höfum ekki verið að nota neina CA hesta og eigum enga hryssu með þá arfgerð. Við höfum alveg hugsað út í það en ekki látið verða af því. Ég notaði mikið Auð frá Lundum á sínum tíma, hann er CA hestur, og það kom vel út hjá mér. Mér persónulega finnst bara mörg af þessum CA hrossum ekki alveg nógu skemmtileg. Þetta er samt klárlega eiginleiki sem við viljum ekki að detti úr stofninum og ég er ekkert endilega að segja að ég ætli aldrei að nota CA hest. En ég held við séum heilt yfir sammála um að fara ekki mikið í þá línu. Mér finnst eins og maður þurfi að vera með heppnina enn þá meira með sér ef maður fer í CA hestana,“ segir hann og Helga Una jánkar því.

Hrefna frá Fákshólum, fædd 2017 en hún er undan Hraunari frá Hrosshaga og Gloríu frá Skúfslæk sem Jakob varð heimsmeistari á í tölti 2017. Hrefna hlaut 8,24 í aðaleinkunn, 8,28 fyrir sköpulag og 8,22 fyrir hæfileika. Hún fékk 9,0 fyrir háls, herðar og bóga, tölt, brokk, greitt stökk, samstarfsvilja, fegurð í reið og hægt tölt. Mynd/Linaimages

Uppeldið og úrvinnslan mikilvæg

Fjölmargir þættir spila inn í farsælt ræktunarbú. Ekki er nóg að eiga góðar hryssur og nota á þær væna stóðhesta heldur þarf líka að vera með vandað uppeldi og faglega úrvinnslu.

„Gott atlæti er mikilvægt fyrir hrossin alla tíð,“ segir Helga Una og Jakob bætir við:

„Ég held að það sé einn stærsti þátturinn að það sé góð úrvinnsla úr hrossunum. Víða eru góð hross sem fá aldrei tækifæri og ná ekki að sýna hvað í þeim býr. Úrvinnslan má heldur ekki taka of mikinn tíma. Við viljum að hross búi að eðlisgæðum.“

Jakob og Helga Una reka stóra tamningastöð á Fákshólum en ásamt því að vera með hross frá sér sjálfum temja þau, þjálfa og sýna hross fyrir aðra hesteigendur. Þau hafa í gegnum tíðina fengið að kynnast mörgum ólíkum hrossum, bæði stóðhestum og hryssum, og þau þekkja því oft stóðhestana vel sem þau nota sem gefur þeim ákveðið forskot á aðra ræktendur.

„Við erum heppin með það að við fáum mikið af góðum hestum í þjálfun og við notum mjög mikið hesta sem við höfum sjálf þjálfað, einfaldlega því við höfum meiri upplýsingar um þá hesta. Það gefur okkur, og þeim sem eru að lifa og hrærast í hrossarækt, sýningum og keppnum, meiri innsýn en kannski fyrir hinn almenna leikmann,“ segir Jakob.

Mörg spennandi hross á járnum

Það er margt spennandi á járnunum hjá þeim Jakobi og Helga Unu í vetur. Fram undan er Meistaradeildin í hestaíþróttum þar sem þau keppa fyrir lið Hjarðartúns. Næstkomandi sumar er svo Heimsmeistaramót en þau eiga bæði sæti í landsliði Íslands.

„Ég er mjög spennt fyrir að halda áfram með fimm vetra hrossin úr okkar ræktun, þau Hrefnu, Hryðju, Hildi, Hrönn og Augastein en þau voru öll sýnd nú í sumar og verða áfram í þjálfun,“ segir Helga Una.

„Árgangurinn sem er að fara á fimmta vetur er mjög lítill. Við eigum tvær hryssur úr þeim hópi, önnur undan Kveik frá Stangarlæk og hin Adrían frá Garðshorni. Það verður gaman að fylgjast með því hvernig þær þróast. Við eigum auk þess mjög flottan árgang fæddan 2019, þau eru ekki mörg en mjög væn. Tvö undan Konsert frá Hofi, hryssa undan Álfrúnu frá Egilsstaðakoti og stóðhestur undan Spá frá Steinsholti. Við bindum miklar vonir við hann, það er fallegur hestur,“ bætir hann við.

Loksins Landsmót

Landsmót hestamanna var haldið hátíðlegt síðastliðið sumar. Þau Helga Una og Jakob höfðu í mörg horn að líta en saman voru þau með 22 hross á kynbótavellinum og 8 hross í keppni. Hross úr þeirra ræktun, Hildur frá Fákshólum, stóð efst í flokki 5 vetra hryssna en Helga Una sýndi hana. Hún sýndi einnig efstu sex vetra hryssuna á mótinu, Sögn frá Skipaskaga og var með annan hæst dæmda 7 vetra og eldri stóðhestinn, Viðar frá Skör, sem hafði fyrr um vorið hlotið hæsta dóm íslenskra hrossa frá upphafi. Þessi afrek tryggðu henni nafnbótina kynbótaknapi ársins 2022.

Jakob náði góðum árangri með Tuma frá Jarðbrú en hann reið honum upp úr B-úrslitum í annað sætið í A-úrslitum í B-flokki gæðinga. Einnig kepptu þau bæði í íþróttakeppni, Jakob með Kopar frá Fákshólum og Helga Una með Hnokka frá Eylandi. Þau eru sammála um það að það hafi verið góð hugmynd að bæta við íþróttakeppni á Landsmótið en veðrið á mótinu hafi sett strik í reikninginn.

„Það var mjög blautt og kalt á þessu móti. Það svona situr fastast í mér,“ segir Helga Una og brosir. „Dagskráin var öll í hnút sem gerði þetta allt svolítið erfitt. Klárlega voru vallaraðstæður kynbótamegin alls ekki nógu góðar og ég held að þær hafi haft áhrif á útkomuna, sem var ekki alveg eins og margir ætluðu sér,“ segir Jakob.

Enda bar nokkuð á óánægju meðal sýnenda og sumra áhorfenda með kynbótasýningu Landsmótsins. Sú umræða hefur verið uppi eftir mótið að breyta þurfi tilhögun sýningarinnar á mótinu, t.d. með því að hafa sama fyrirkomulag eins og á Landssýningu þar sem hross eru ekki dæmd upp á nýtt.

„Mér finnst sú hugmynd glötuð, sérstaklega á það við um stóðhestana. Mannlangaraðfáaðsjáþáíreiðogfá samanburðinn. Þótt kynbótadómar eigi að vera staðlað kerfi þá er ósamræmi á milli sýninga. Þó að aðstæður séu ekki nógu góðar, eins og raunin var á Landsmóti, þá eru þetta svipaðar aðstæður fyrir öll hrossin og sömu dómararnir. Einhver hestur skarar alltaf fram úr á Landsmótum. Mér finnst við ekki mega missa það. Það getur mikið breyst á þessum vikum fram að móti,“ segir Jakob og Helga Una bætir við að hún hafi alltaf verið sömu skoðunar og hann. „Fyrir mér voru kynbótasýningar á Landsmóti hápunktur mótsins. Ég hugsaði samt í sumar; til hvers er maður að standa í þessu? Kannski bara af því það fór ekki allt alveg eins og ég ætlaði mér. Ég er samt sammála því að mér finnst mikilvægt að sjá stóðhestana og að fá að sjá þá í samanburði.“

Hildur frá Fákshólum, en hún stóð efst í flokki 5 vetra hryssna á Landsmótinu.
Hún er undan Ölni frá Akranesi og Gnýpu frá Leirulæk. Mynd / Óðinn Örn

Minna um unga alhliðahesta

Talið berst að kynbótastarfinu í ár og eru þau sammála um að mikið sé til af gæðahrossum, fjölbreytt úr mörgum áttum og að gaman sé að sjá hversu margir leggja mikinn metnað í ræktunarstarfið.

„Við höfum alveg rætt það hér heima fyrir að okkur fannst kannski vanta meira af ungum alvöru alhliðastóðhestum. Við höfum mikið verið að nota klárhesta með gott tölt en okkur langar alveg að halda meira undir góða alhliðahesta. Við höfum notað Spuna frá Vesturkoti, Ský frá Skálakoti, Hrannar frá Flugumýri og Álfaklett frá Syðri-Gegnishólum svo einhverjir séu nefndir og okkur finnst aðeins vanta meira af ungum alhliða hestum,“ bætir Jakob við og leggur áherslu á að hann er að tala um fjögurra og fimm vetra stóðhesta.

Vilja sjá breytingu á mati á hægu stökki

Ákveðnar breytingar hafa orðið á kynbótadómskerfinu síðustu árin og hafa verið misjafnar skoðanir á því. Vægisbreytingar voru gerðar á sköpulagi og hæfileikum og ákveðnum eiginleikum og telja þau að þessar breytingar hafi verið til hins góða.

„Ég held samt að þessi línulegi kvarði sem dómararnir eru að nota og merkja inn sé ekki að virka eins og það átti að virka. Hugmyndin var að dómarnir yrðu staðlaðri og minni skekkja á milli sýninga en ég held að það hafi ekki enn tekist. Við erum öll sammála um að vilja sjá meira samræmi milli dóma en það er enn þá of mikill munur. Ég hef á tilfinningunni að það sé það sé sama í gangi og er með eldveggina í íþróttakeppninni. Þetta kerfi ver dómarana. Dómarar sem eru ekki alveg öruggir eða eru neikvæðir ná að skýla sér á bakvið þetta,“ segir Jakob og bendir á að mikilvægt sé að halda í fjölbreytnina.

„Við viljum ekki að allir hestar verði til dæmis skrefastórir og það sé endalaust verið að einblína á að rækta skrefastærð. Það endar með því að við fáum ekkert nema bara einhverja klunna,“ bætir Helga Una við.

Þau eru sammála um það að löngu hafi verið tímabært að setja vægi á hæga stökkið en vilja þó sjá breytingu á því hvernig það er dæmt.

„Enginn alhliðahestur fær neitt fyrir hægt stökk af því hann er kannski örlítið gengur að aftan. Hann samt lyftir sér mikið upp að framan og er með gott jafnvægi á hægu stökki. Alveg ljómandi fínt hægt stökk en fær samt bara 8,0,“ segir Helga Una og Jakob bætir við að það þurfi að fara að meta stökkið öðruvísi.

„Við erum aðeins enn þá að einblína á að hestar lyfti sér upp að aftan. Mér hefur fundist þetta hafa verið að breytast í íþróttakeppni. Það eru alltaf skiptar skoðanir á því hvernig hægt stökk við viljum sjá. Við viljum sjá að hesturinn lyfti sér upp að framan og rúlli á stökki. Ekki endilega bara að hann lyfti sér hátt upp að aftan. Það er alla vega umhugsunarefni af hverju alhliðahestar fái þessar einkunnir fyrir hægt stökk.“ Þau bæta síðan við að kannski séu vægisbreytingarnar ástæðan fyrir því að minna sé um alvöru unga alhliðahesta – þær hafi haft áhrif á mætingu þeirra til dóms.

Tilnefnd sem ræktunarbú ársins

Fákshólar hafa undanfarin tvö ár hlotið tilnefningu sem ræktunarbú ársins. Í ár voru sýnd átta hross frá búinu, meðalaldur þeirra var 5,4 ár og meðaltal aðaleinkunnar 8,29 sem er meðal þeirra hæstu í ár.

„Þessi tilnefning skiptir okkur klárlega máli, það var mikill heiður. Ekki síst vegna þess að mörg bú voru með frábæran árangur sem sýnir okkur að ræktunarstarfið á Íslandi er á góðri leið,“ segir Jakob. Fram undan í hrossaræktinni er að halda áfram að reyna að rækta úrvals hross, temja trippin og halda áfram með úrvinnslu annarra hrossa.„Draumurinn er að eiga öll þessi hross áfram, halda áfram að þróa þau og geta keppt á þeim og fylgja þeim enn þá lengra eftir. Það væri ótrúlega gaman,“ segir Helga Una og Jakob bætir við: „Það er skemmtilegra að vera á hesti ræktuðum af sér og vinna með hann en sambærilegan hest frá einhverjum öðrum. Manni finnst maður eiga meira í þeim, sem maður auðvitað gerir. Þjálfari á alltaf eitthvað í hverjum hesti og margir af okkar uppáhaldshestum eru hross sem við höfum ekki átt né ræktað.

Þegar þú ert allur pakkinn, ræktandinn, eigandi og þjálfarinn þá er þetta þreföld ánægja.“

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...