Mynd/umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Fréttir 17. september 2018

Sveinn Runólfsson hlaut Náttúruverndarviðurkenninguna

smh

Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, hlaut í dag Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti og þeim Tómasi Guðbjartssyni og Ólafi Má Björnssyni var veitt fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á viðburði í tengslum við Dag íslenskrar náttúru sem haldinn var hátíðlegur í gær.

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september og afmælisdagur Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns og náttúruverndarsinna, sem ríkisstjórn Íslands ákvað að heiðra með þessum hætti árið 2010 og undirstrika um leið mikilvægi náttúruverndar Íslands.

Sjálfbær nýting lands

Hlýtur Sveinn Náttúruverndarviðurkenninguna fyrir að hafa um áratuga skeið staðið í framvarðarsveit í baráttunni fyrir vernd og endurreisn vistkerfa landsins. Í rökstuðningi ráðherra fyrir viðurkenningunni segir að Sveinn hafi helgað líf sitt þeirri hugsjón sinni að græða landið og tryggja sjálfbæra nýtingu þess. „Ævistarf Sveins við vernd landkosta er afar fjölbreytt. Þegar það hófst var uppblástur og ofbeit í algleymingi og lítill skilningur á áhrifum beitar. Uppgræðslustarfið var erfitt á foksvæðunum og öllu fagnað sem gróið gat. Sveinn hefur verið óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu, jafnt til stjórnvalda sem almennings. Hann hefur stuðlað að rannsóknum, fræðslu, stofnun landgræðslufélaga og fjölbreyttum samstarfsverkefnum með þátttöku bænda og almennings sem aukið hefur bæði landlæsi og afköst í landgræðslustarfinu,“ segir í rökstuðningi ráðherra.

Fossaröð á framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar

Í rökstuðningi dómnefndarinnar vegna fjölmiðlaverðlaunanna segir að þeir félagar hafi heimsótt fjölmarga staði og sótt þangað nýtt efni, bæði ljósmyndir og myndskeið og nýtt sér samfélagsmiðla og aðra fjölmiðla til að koma þessu efni á framfæri. „Tómas og Ólafur Már hafa verið óþreytandi við að halda íslenskri náttúru á lofti í fjölmiðlum, hefðbundnum sem óhefðbundnum, á síðastliðnu ári og er það samdóma álit dómnefndar að með því hafi þeir haft bein áhrif á að lítt þekktar náttúruperlur, svo sem fossaröð á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar, hafa komist í almenna umræðu. Umfjöllun þeirra er enn fremur lýsandi fyrir þær breytingar sem orðið hafa á umhverfi fjölmiðla, þar sem efni kemur í auknum mæli frá almenningi fremur en sérhæfðu fréttafólki eða ljósmyndurum,“ segir í rökstuðningi dómnefndarinnar. Í henni sátu Ragna Sara Jónsdóttir formaður, Jón Kaldal og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.

Verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna nefnist Jarðarberið. Finn Arnar Arnarson hannaði það og er í formi krækibers með örlitlu Íslandi á því, rétt eins og krækiberið sé jörðin.

Skylt efni: Dagur