Hampur, kannabis,
Fréttir 19. september 2017

Stærsta löglega kannabisbýli í heimi er í Bretlandi

Vilmundur Hansen

Í Kent skammt frá Kantaraborg á Bretlandseyjum er að finna stærstu löglegu kannabisræktun í heimi. Miðað við götuverð kannabis á Bretlandseyjum er ræktunin metin á um milljarð íslenskra króna.

Í tveimur stórum gróðurhúsum, sem eru vel falin í kyrrlátri breskri sveit, eru ríflega 80.000 kannabisplöntur ræktaðar undir ströngu eftirliti öryggisvarða og öryggismyndavéla. Tólf garðyrkju- og grasafræðingar í hvítum sloppum sjá um plönturnar, vökva og mæla, á vöktum allan sólarhringinn. árleg framleiðsla í gróðurhúsunum er um 20 tonn á ári.

Ræktunin, sem er á ábyrgð breska lyfjafyrirtækisins GW Pharmaceuticals, er þrisvar sinnum umfangsmeiri en stærsta ólöglega ræktun sem komist hefur upp á Bretlandseyjum.

Ræktun lyfjafyrirtækisins hófst árið 1998 og síðan þá hafa um tvær milljónir kannabisplantna verið ræktaðar í gróðurhúsunum. Plönturnar eru notaðar til rannsókna á lyfjum. Lyfið sem kallast Sativex er þegar komið á markað og ætlað til að líkna fólki sem þjáist af MS og banvænu krabbameini. Unnið er að rannsóknum á nýju lyfi gegn flogaveiki, geðklofa og sykursýki.