Fréttir 11. desember 2019

Metanfríar rollur

Vilmundur Hansen

Búvísindamenn á Nýja-Sjálandi hafa hafist handa við að kynbæta sauðfé í landinu í átt að því að vera metangaslaust.

Verkefnið, sem kallast Global first, er sagt skref í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði. Samkvæmt tölum um losun gróðurhúsalofttegunda á Nýja-Sjálandi er um 1/3 hennar frá búfjárrækt.

Fyrstu skrefin í þessa átt eru að sögn vísindamanna að finna fé sem framleiðir minna metan en almennt gerist með sauðfé í landinu og vita hvort greina megi erfðamengi eða mengi sem valda metanframleiðslunni.

Metanlosun fjár verður mælt í tvö ár og síðan gripir sem minnst losa teknir til nánari rannsókna og hugsanlega undaneldis.