Mynd/TB
Fréttir 28. nóvember 2017

Ljótu kartöflurnar hlutu Matarsprotann 2017

Fyrirtækið Ljótu kartöflurnar fengu Matarsprotann 2017 en verðlaunin, sem frumkvöðlar í matvælaframleiðslu hljóta ár hvert, veita Sjávarklasinn og Landbúnaðarklasinn. Kartöfluflögur Ljótu kartaflanna eru framleiddar úr kartöflum sem eru stórar eða öðruvísi í laginu og ekki hentugar til sölu vegna útlits. Ljótu kartöflurnar sporna þannig við matarsóun en framleiðandinn leitar leiða við að nýta innlend aðföng í sinni framleiðslu sem stuðlar að sjálfbærni.

Hingað til hafa kartöfluflögur, og annað kartöflusnakk, ekki verið framleiddar úr innlendu hráefni í stórum stíl segir á vef Ljótu kartaflanna. „Við leitumst alltaf við að nota innlent hráefni sé það mögulegt. Kartöflurnar okkar koma frá Seljavöllum í Hornafirði sem hafa áratuga reynslu af kartöflurækt og við notum íslenskt sjávarsalt með öllum bragðtegundunum okkar.“


Viðar Reynisson er stofnandi Ljótu kartaflanna.