Fréttir 09. janúar 2020

Innflytjendur bera ábyrgð á að reglum um salmonellu og kampýlobakter sé fullnægt

Vilmundur Hansen

Krafa um frystiskyldu á innfluttu kjöti féll niður um síðustu áramót auk þess sem núna má flytja inn hrá egg. Samkvæmt reglum um innflutning á fersku kjöti sem tóku gildi um áramótin bera innflytjendur ábyrgð á að reglum um salmonellu og kampýlobakter sé fullnægt og að innflutningi fylgi vottun um að svo sé. Vottanirnar sjálfar eru svo á ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila erlendis.

Eftirlitsaðilar, sem eru annað­hvort Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, hafa eftirlit með að reglum um sýnatöku og rannsóknir sýna sé fullnægt.

Íslendingar verða nú að treysta á evrópska eftirlitskerfið

Arnar Árnason, formaður Lands­sambands kúabænda, segir að nú verði Íslendingar að treysta á evrópska eftirlitskerfið en dæmin sýni að það virki ekki alltaf.

Viðbótartryggingin, sem er hluti af regluverkinu sem varðar innflutninginn, er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda og meðal annars ætlað að efla matvælaöryggi og tryggja vernd búfjárstofna í landinu.

„Vissulega er áætlunin til bóta en hún er engan veginn fullnægjandi og því verið að taka talsverða áhættu með innflutningi á kjöti án frystiskyldu,“ segir Arnar.

MAST er ekki lengur með innflutningseftirlit

Dóra S. Gunnarsdóttir, forstöðu­maður Neytendaverndar hjá Matvæla­stofnun, segir að í kjölfar breytinganna séu að eiga sér stað ákveðnar breytingar á reglum um innflutning á kjöti og eggjum.

„MAST er ekki lengur með svo­kallað innflutningseftirlit á vörum eins og kjöti og eggjum þar sem þessar vörur eru nú í frjálsu flæði ef þær koma frá EES-löndum.  Þess í stað fer eftirlitið fram hjá þeim aðila sem flytur inn vörurnar og sá sem ætlar að flytja inn kjöt með viðbótartryggingum gagnvart salmonellu þarf að tryggja að sýni sem tekin eru uppfylli kröfur og staðfesta það með viðeigandi skjölum sem eiga að fylgja sendingum“ 

Fjöldi sýna í sendingu hefur aukist

Í reglugerðinni er kveðið á um hversu mörg sýni eigi að rannsaka með tilliti til salmonellu og er það miðað við fjölda eininga í hverri sendingu.

„Dæmi um þetta er að ef einingarnar af alifuglum í sendingu eru 300 þá þurfa sýnin að vera úr að minnsta kosti 55 einingum.“

Dóra segir að fjöldi sýna nú sé meiri en hann var fyrir breytinguna um áramótin en þá voru færri sýni tekin úr sendingu.

Betra innlent eftirlit en veitir samt ekki 100% öryggi

„Við eru því í dag með betra eftirlit með því að það finnist salmonella í sendingunni en áður, þar sem í dag eru tekin fleiri sýni. Það er þó ekki þar með sagt að það geti ekki verið salmonella í sendingunni þar sem rannsóknir á sýnum tryggja eingöngu að hún hafi ekki verið í þeim einingum sem voru tekin til rannsóknar. Það má því segja að þrátt fyrir að dekkun sendinganna sé góð þá er hún ekki 100% örugg.“

Eins og fyrr segir þá er sýnatakan á ábyrgð framleiðenda/dreifingaraðila kjötsins erlendis en fyrstu fjóra mánuði ársins verður MAST með svokallað aukið eftirlit með innflutningi á kjöti í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

„Tíminn verður einnig notaður til að þjálfa fólk sem á að sinna þessu eftirliti í framtíðinni. Auk þess munum við taka sýni til sannprófunar á að rannsóknarniðurstöður séu að gefa rétta mynd af sendingum sem koma til landsins. Við munum einnig skoða hvort réttum aðferðum sé beitt við sýnatökuna og hvort notaðar séu viðurkenndar rannsóknar­aðferðir.“ 

– Sjá nánar á blaðsíðu 2 og 4 í nýju Bændablaði.