Neysla á nautakjöti í Asíu hefur aukist um 69% og svínakjöti um 42%.
Fréttir 12. september 2018

Aukin kjötneysla mun hafa slæm áhrif á umhverfið

Vilmundur Hansen

Ný greining á kjötneyslu í heiminum bendir til að neysla á kjöti muni aukast með auknum fólksfjölda og að aukning í neyslu kjöts muni hafa verulega slæm umhverfisáhrif.

Í grein sem birt var í Science er haft eftir faraldsfræðingi við háskólann í Oxford að kannanir sýna að neysla á kjöti í heiminum sé að aukast og að flest bendi til að hún eigi eftir að aukast enn meira á næstu áratugum vegna aukins mannfjölda. Samkvæmt greininni er ekki nóg með að mikil kjötneysla sé slæm fyrir umhverfið, meðal annars vegna áhrifa kjötframleiðslu til aukinnar hlýnunar jarðar, því mikil kjötneysla, sérstaklega unnar kjötvörur, eykur líkur á ristilkrabbameini og hjartasjúkdómum.

Fram kemur að meðalneysla á kjöti jókst úr 23 kílóum árið 1961 í 43 kíló á mann árið 2014. Aukningin í framleiðslu á kjöti í heiminum frá 1961 til okkar tíma er ríflega fjórföld.

Reyndar hefur dregið úr kjötneyslu í nokkrum löndum heims undanfarin ár. Kjötneysla á Bretlandseyjum hefur til dæmis minnkað um 4,2% og neysla á beikoni um 7% frá 2012. Aðra sögu er að segja frá Kína og mörgum löndum í Austur-Asíu þar sem neysla á kjöti hefur aukist um 76% og er enn að aukast frá aldamótum. Neysla á nautakjöti í Asíu hefur aukist um 69% og svínakjöti um 42% á sama tíma.

Í dag eru íbúar jarðar tæplega 7,7 milljarðar og gera spár ráð fyrir að þeir verði 10 milljarðar árið 2050 ef ekkert alvarlegt gerist til að draga úr fólksfjölda. Í greininni í Science segir að ekki sjái fyrir endann á því hvernig eigi að sjá stórum hluta þess fólks fyrir kjöti án þess að ganga alvarlega á umhverfið og valda gríðarlegum umhverfisspjöllum.