Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Úrgangsmálin í ólestri
Mynd / Hlynur
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á niðurbrjótanlegum úrgangi (lífúrgangi). Umhverfisstofnun, sem er eftirlitsaðili með innleiðingu laganna, hefur litið svo á að árið 2023 hafi verið innleiðingarár fyrir nýju lögin. Stofnunin hefur ekki enn beitt viðurlögum gagnvart þeim rekstraraðilum og sveitarfélögum sem ekki uppfylla skyldur sínar samkvæmt nýju lögunum.

Markmið lagasetningarinnar er að skapa skilyrði fyrir myndun á hringrásarhagkerfi með tvenns konar ávinningi; minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og koma verðmætum efnum inn í hringrásarhagkerfið til endurnýtingar.

Gjörbreyting hjá garðyrkjubændum

Ljóst er að með nýju lögunum verður gjörbreyting á meðferð lífúrgangs hjá garðyrkjubændum. Gert er ráð fyrir að lífúrgangurinn sé jarðgerður á sérstökum móttökustöðvum.

Gas- og jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi, sem er í eigu Sorpu, er stærsti slíki móttökuaðilinn á Íslandi og þangað mun stór hluti af lífúrgangi fara frá höfuðborgarsvæðinu – til að mynda lífrænn heimilisúrgangur – hvar hann umbreytist í moltu og metangas. Molta heitir önnur stór jarðgerðarstöð sem er í Eyjafirði.

Ekki er allur lífrænn úrgangur lífúrgangur

Ekki fellur allur lífrænn úrgangur frá landbúnaði í þann flokk að kallast „niðurbrjótanlegur úrgangur“, til dæmis gerir búfjárskítur og dýraleifar það ekki.
Um búfjárskít gilda aðrar reglur en lífúrgang. Þar er gert ráð fyrir að leitað sé leiða til að koma honum í sem besta nýtingu, til dæmis sem áburður. Þó þannig að ekki sé hætta á að heilsa eða umhverfi verði fyrir skaða. Sérstök lagaákvæði gilda um áhættuúrgang sem kemur frá dýrum sem smithætta er af; sjálfdauð dýr, gæludýr og allur heila- og mænuvefur. Slíkur úrgangur þarf að fara í brennslu eða þrýstisæfingu, sem er sótthreinsun undir þrýstingi. Lagasetningin í byrjun síðasta árs hafði engin áhrif á meðferð dýraleifa og -hræ. Það hefur verið og verður áfram óheimilt að urða þannig úrgang.

Axel Sæland með rósabúnt úr ræktun sinni.

Úrgangur garðyrkjubænda verið urðaður

Lífrænn úrgangur frá garðyrkju er hins vegar dæmigerður lífúrgangur þar sem sú breyting varð með nýju lögunum að nú er óheimilt að urða hann, en mikið fellur til af afskurði og öðru lífrænu efni á garðyrkjustöðvunum bæði í yl- og útiræktun.

Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir að hingað til hafi garðyrkjubændur urðað sinn úrgang á sínu landi eða samið við aðra um að taka við honum og urða.

„Þetta eru plöntuleifar og því hefur okkur fundist sjálfsagt að urða þær, láta þær rotna og verða loks að moltu á náttúrulegan hátt. Fáir bændur hafa reyndar séð kosti í því að nýta þá moltu aftur og enginn hefur lagt í þá vinnu að meta kostnaðinn við að koma úrganginum í virka jarðgerð á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel að flutningskostnaðurinn fyrir ylræktarbændur yrði gríðarlegur,“ segir Axel.

Auk þess er vert að benda á að kostnaður við afhendingu á úrganginum á móttökustað til jarðgerðar getur einnig orðið umtalsverður.

Til þessa hefur Umhverfisstofnun ekki fylgt löggjöfinni eftir með því að beita viðurlögum gegn garðyrkjubændum sem enn urða sinn úrgang, eða sveitarfélögum sem bera ábyrgð á því að farvegur sé til staðar fyrir úrganginn.

Verðmætasköpun úr lífrænum úrgangi

Í tveimur skýrslum, sem gefnar voru út í lok desember, eru lagðar til hugmyndir að leiðum fyrir lífúrgang garðyrkjubænda til aukinnar verðmætasköpunar.

Matís gaf út skýrsluna Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju, þar sem horft er til möguleika á nýtingu á efnum úr þeim plöntuhlutum sem ekki beinlínis tilheyra uppskerunni og fara því ekki á markað. Á rannsóknastofu Matís var ráðist í efnagreiningar, þar sem innihald ýmissa plöntuhluta var þaulkannað með tilliti til mögulegrar nýtingar; sem fæðubótarefni, íblöndunarefni til matvælaframleiðslu og framleiðslu á heilsubótarvörum.

Viðfangsefni rannsóknanna voru blómkálsblöð, spergilkálsblöð, tómatablöð, gúrkublöð, rósalaufblöð, gulrótakál, gulrófur og kartöflur. Hluti verkefnisins fólst svo til að mynda í tilraunum í vöruþróun á kryddblöndu þar sem unnið var úr afskornum blöðum blóm- og spergilkáls, auk lífvirknimælinga á rósalaufum.

Ytri blöð blóm- og spergilkáls reyndust mjög næringarrík í rannsókn Matís. Mynd / smh

Verðmætin í hliðarafurðum garðyrkju

Leiddu tilraunirnar í ljós að margvísleg verðmæti liggja í þessum hliðarafurðum. Ytri blöð blóm- og spergilkáls reyndust mjög næringarrík, hagstætt hlutfall kalíum og natríum eru í ýmsum plöntuhlutum og einnig hátt trefjainnihald. Almennt voru þessar hliðarafurðir steinefnaríkar, til dæmis af kalíum, kalki og járni – og stundum auðugri en sjálfar afurðirnar sem fóru á markað. Þá var próteininnihald hliðarafurða um 20–30 prósent af þurrefni.

Í vöruþróunarhlutanum voru afurðirnar bragðefni úr blóm- og spergilkálsblöðum, kartöflusterkja og trefjar, gulrófunasl og rósalaufakrem. Tækifæri eru talin vera fyrir aukna kartöflu- og gulrófurækt sem styður við fæðuöryggi – en gulrófan er talin sérstaklega spennandi hráefni í vöruþróun með tilliti til notkunarmöguleika og hollustu.

Hluti af rannsóknum verkefnisins voru efnamælingar á mögulegum skaðlegum efnum í hliðarafurðunum. Er hættugreining talin mikilvæg þegar kemur að vinnslu á hliðarafurðum til manneldis og taka verði tillit til reglna um varnarefni og magn varnarefnaleifa í lokaafurð.

Eva Margrét Jónudóttir.
Margt spennandi víða í gangi

Eva Margrét Jónudóttir, verkefnastjóri hjá Matís, segir að ekki hafi verið farið í ítarlega greiningarvinnu í öðrum löndum um það hvernig staðið sé að þessum málum þar. Þó sé ljóst að margt spennandi sé víða í gangi annars staðar. „Við höfum horft mjög til Hollendinga en þeir hafa lagt mikið kapp á að fjárfesta í lausnum sem styðja við hringrásarhagkerfi.

Bara svona til að nefna einhver dæmi þá hafa þeir verið að hreinsa steinullarmottur af plöntuleifum sem notaðar eru í ylrækt til að nýta áfram sem hráefni í múrsteina og vegagerð. Vökva frá lífmassa er hægt að nota til þess að framleiða lífplast en lífmassa og jarðveg er líka hægt að nota í jarðgerð, gasgerð, brennslu eða einhvers konar gerjun eins og bokashi.“

Þörf á fullnýtingu garðyrkjuafurða

Í inngangi skýrslunnar er fjallað um þörf á umræðu um fullnýtingu garðyrkjuafurða líkt og hefur verið áberandi um langt skeið í tengslum við fiskvinnslu og kjötframleiðslu. Töluverðum árangri hafi verið náð við nýtingu á annars flokks grænmeti gegnum tíðina en eiginlegar hliðarafurðir sem ekki teljast til uppskeru hafi ekki verið í brennidepli, en ljóst sé að þar sé um gríðarlegt magn lífmassa að ræða. Til að rækta hann sé búið að kosta til heilmiklu fjármagni ásamt notkun á aðföngum, orku, auðlindum og vinnuafli.

Þar segir enn fremur að hringrásarhagkerfi, fullnýting, verðmætasköpun og sjálfbærni séu hugtök sem brenni á öllum. Áhugi og eftirspurn eftir náttúrulegum innhaldsefnum til íblöndunar í matvæli, fæðubótarefni og snyrtivörur hafi einnig aukist á undanförnum árum. Í hliðarafurðum megi finna verðmæt lífefni og lífvirk efni sem megi einangra til dæmis með líftæknilegum aðferðum og nota í framleiðslu á hinum ýmsum vörum.

Framleiðslukerfin í garðyrkju séu afar mismunandi eftir tegundum og því verði seint fundin ein leið sem henti þvert á greinina eins vel og jarðgerð, varðandi endurnýtingu hliðarafurða. Það sé þó nauðsynlegt að kanna ýmsa möguleika til að auka virði afurða enn frekar með öðrum aðferðum.

Í eftirmála skýrslunnar er rætt um framtíðarhorfur fyrir niðurstöður verkefnisins. Þar segir að almennt sé mikill áhugi hjá garðyrkjubændum að leggja til hliðarafurðir frá ræktun í áframvinnslu. Því ætti aðgangur að hráefni að vera nokkuð tryggur. Þó þyrfti að skoða hvernig söfnun hráefnis væri best háttað. Nauðsynlegt sé að gera fýsileikagreiningar á vinnslu hliðarafurða, til dæmis frostþurrkun eða vinnslu með aðferðarfræði lífmassavera og setja fram tillögur að vinnsluferlum fyrir lífrænt hráefni sem ekki sé í áhættuflokki.

Lífrænn áburður og lífgas

Í hinni skýrslunni er einmitt um að ræða fýsileikakönnun, fyrir starfsemi áburðar- og lífgasvers í grænum iðngarði í uppsveitum Árnessýslu. Þar er gert ráð fyrir að garðaúrgangi garðyrkjubænda og kúamykju kúabænda sé umbreytt í lífrænan áburð og lífgas; koltvísýring og metangas.

Það er Orkídea, samstarfsverkefni um þróun orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi, sem gefur skýrsluna út og er styrkt af kolefnissjóði garðyrkjunnar og deild garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands.

Starfsfólk Orkídeu. Magnús Yngvi Jósefsson, Helga Gunnlaugsdóttir og Sveinn Aðalsteinsson.

Hráefni safnað úr uppsveitum Árnessýslu

Í forsendum verkefnisins er gert ráð fyrir að hráefni sé safnað úr uppsveitum Árnessýslu. Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu, segir að gerðar hafi verið tvær útgáfur rekstrarmódels. Fyrri útgáfan hafi verið smærri verksmiðja sem var talið að yrði rekstrarhæf, en kom svo í ljós að stóð ekki undir stofnkostnaði. Í uppfærðu rekstrarmódeli væri hins vegar búist við að verksmiðjan stæði undir fjármagnskostnaði, sérstaklega ef stuðningur fengist úr Orkusjóði. Rekstrargrundvöllurinn yrði svo enn betri ef hægt yrði að selja kolefniseiningar frá verksmiðjunni.

Í uppfærða módelinu er gert ráð fyrir að kúamykju sé safnað frá 30 kúabúum í allt að 35 kílómetra radíusi frá Reykholti, alls 46.500 tonnum á ári, og um þrjú þúsund tonna garðyrkjuúrgangs frá garðyrkjustöðvum í Reykholti, á Flúðum og í Laugarási. Til að byrja með er eingöngu gert ráð fyrir úrgangi frá ylrækt.

Vinnsluferlið í áburðar- og lífgasverinu sem áform eru uppi um að reisa í uppsveitum Árnessýslu. Mynd / Orkídea

Fjölþættur ávinningur

Sveinn segir að fýsileikakönnunin sýni fram á fjölþættan ávinning af slíku veri, fyrir garðyrkjubændur, kúabændur, sveitarfélagið og loftslagsmarkmið Íslands.

„Viðskiptamódelið gerir ráð fyrir að fersk mykja verði sótt til bænda nokkrum sinnum í viku og bændur fái til baka jafnmikið af næringarefnum í formi áburðar, bæði í fljótandi og föstu formi. Sá áburður er auðleysanlegri en mykjan og bændur geta geymt hann og borið á þegar hentar best upp á sprettu. Það bæði sparar bændum hauggeymslupláss og bætir nýtingu næringarefna úr mykjunni í ræktun. Við eigum eftir að ræða þessi mál betur við bændur, fyrst er að tryggja betur rekstrargrundvöll versins. En þau viðbrögð sem við höfum fengið eru jákvæð.“

Garðyrkjubændur njóta góðs af því að geta losnað við hliðarafurðir ræktunarinnar og fá að einhverju leyti áburð á vökvaformi sem þeir geta nýtt. En umfram allt leysir þetta úrgangsvandamál þeirra. Þá verður metan ein af afurðum versins sem hægt er að nota á ýmsan hátt, til dæmis á flutningabíla til flutnings á vörum á markað eða á vinnuvélar. Sú tækni er til og þrautreynd í Evrópu. Jafnvel hægt að nýta metan til hitunar á vatni þegar kuldakast ríður yfir.

Lífgasverið mun einnig framleiða koltvísýring sem garðyrkjubændum stæði til boða á hagstæðu verði til nota í sínum gróðurhúsum – og sem væri einn aðalávinningur þeirra,“ segir Sveinn.

Áburðurinn án endurgjalds

Að sögn Sveins fá kúabændur það sem þeir setja inn í verið af næringarefnum gjaldfrjálst til baka í formi áburðar. „Það verður væntanlega einhver umframáburður til vegna garðyrkjuúrgangs og það verður selt þar sem garðyrkjubændur geta væntanlega ekki notað þann áburð. Lífgasið verður allt selt, aðskilið í formi metans og koltvísýrings.“

Hann bætir við að mögulegt sé að selja vottaðar kolefniseiningar frá verinu, þegar það fyrirkomulag verður komið á, en ekki sé gert ráð fyrir því í tekjumódeli enn þá.

Viðræður í gangi við ráðuneytið

Loks myndi minni kolefnislosun vera ávinningur fyrir loftslagsmarkmið landbúnaðarins og Íslands auk þess sem ímynd landbúnaðarins yrði
enn betri í uppsveitunum og fyrir sveitarfélagið.

Spurður um hvort sóst verði eftir opinberum stuðningi til að koma verkefninu af stað, segir Sveinn að væntanlega verði sótt í Orkusjóð vegna minni kolefnislosunar sem hlytist af verkefninu. „Viðræður eru í gangi við ráðuneytið um aðra styrkjamöguleika, til dæmis niðurgreiðslu á afurðum frá verinu. Ekkert er í hendi enn þá. Næstu skref verða að kanna betur þessa þætti og möguleikana á því að selja vottaðar kolefniseiningar.“

Lífgasverið Groenewoud Gas í Hollandi sem starfsfólk Orkídeu heimsótti. Mynd / Orkídea

Tilefni til að skoða málin

Axel Sæland segir að úrgangsmálin hafi komið upp öðru hvoru síðastliðin ár, en vantað hafi farveginn fyrir hann. Skýrslurnar gefi svo sannarlega tilefni til að skoða þessi mál frekar, þar sem ljóst þyki að stjórnvöld vilji finna annan farveg fyrir úrganginn og því nauðsynlegt að skoða alla möguleika. „Í skýrslu Matís kemur margt áhugavert fram og mikið af upplýsingum. Það er greinilegt að möguleikarnir eru til staðar og margt sem þarf að skoða frekar. Næstum allir garðyrkjubændur geta fundið efni í skýrslunni um sína framleiðslu og metið hvort það höfði til þeirra að skoða frekar.“

Spurður sérstaklega um niður­ stöðurnar um heilnæmi rósablaðanna, segir Axel að þær hafi vissulega vakið sérstaka athygli hans sem vert væri að skoða frekar. „Það væri áhugavert ef snyrtivöruframleiðandi myndi sýna þessu áhuga og taka á næsta stig,“ segir blómabóndinn Axel sem ræktar einmitt rósir á garðyrkjustöð sinni Espiflöt í Reykholti.

„Tengingin milli garðyrkjubænda, Bændasamtaka Íslands og Matís er að eflast og því afar mikilvægt að nýta það og byggja upp sem mesta þekkingu,“ bætir Axel við um skýrslu Matís.

Ávinningur garðyrkjubænda

Um ástæður þess að ráðist var í fýsileikakönnunina fyrir áburðar­ og lífgasverið, segir Axel að lögin um bann við urðun á þessum úrgangi hafi knúið á um að leitað yrði leiða. „Við viljum fara eins langt og við getum með þetta verkefni enda teljum við raunhæfast að reisa slíka verksmiðju í uppsveitum Árnessýslu þar sem flestar garðyrkjustöðvar eru og mörg kúabú,“ segir hann og áætlar að rúmlega helmingur ylræktar í landinu fari fram á því svæði.

„Ávinningurinn fyrir okkur garðyrkjubændur fælist helst í því að koma úrganginum í rétta ferla, án mikils kostnaðar. Hliðarafurð úr verksmiðjunni er svo koltvísýringur sem við gætum fengið til baka eða keypt og nýtt í okkar garðyrkjustöðvar.“

Kristín Helga Schiöth.
Líforkuver á Dysnesi

Fyrirhugað er að reisa líforkuver á Dysnesi í Eyjafirði, þar sem í fyrsta fasa verður eingöngu horft til förgunar á áhættuúrgangi, dýrahræja sem ekki á sér annan góðan farveg á Íslandi í dag. Í þann flokk (CAT 1) falla meðal annars hræ af jórturdýrum eldri en 12 mánaða.

Talsvert magn dýraleifa og meirihluti allra dýrahræja er enn urðað á Íslandi og hafa eftirlitsaðilar horft í gegnum fingur sér með þá staðreynd að það er ólöglegt vegna þess að innviði hefur skort til að taka við þessum úrgangi og meðhöndla hann lögum samkvæmt. Um síðustu áramót færðist eftirlitið með þessum tiltekna úrgangi frá Umhverfisstofnun til Matvælastofnunar.

Kristín Helga Schiöth er framkvæmdastjóri Líforkuvers, sem er félagið sem stendur að undirbúningi verkefnisins á Dysnesi. Í stjórn þess eiga sæti fulltrúi Umhverfis­ orku og loftslagsráðuneytisins, fulltrúi Akureyrarbæjar, fulltrúi Hörgársveitar, fulltrúi SSNE og fulltrúi afurðastöðva.

Samræmd söfnun á dýraleifum

Kristín segir að það ríði á að koma á fót samræmdri söfnun á dýraleifum, móttöku og vinnslu á efninu sem uppfyllir bæði skilyrði um öryggi manna og dýra – sem og skilyrði um innleiðingu hringrásarhagkerfis.

„Horft er til þess hvernig Finnar og Norðmenn hafa leyst dýraleifavandann, þar sem hræjum er safnað með skipulögðum hætti heima á bæjum og úr þeim unnin fita sem nýtist áfram í lífdísilframleiðslu og kjötmjöl sem nýtist til brennslu, sem orkugjafi.

Mikilvægt er að halda því til haga að afurðir úr CAT 1 vinnslu skulu ekki eiga sér farveg aftur inn í fæðukeðjuna, svo sem í formi jarðvegsbætis eða fóðurs, heldur til brennslu sem orkugjafa. Með þessu er hægt að nýta efnið til verðmætasköpunar, í stað þess að eyða orku með því að brenna það í hefðbundinni brennslu.

Það er mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað að til staðar sé úrvinnsla á áhættuúrgangi, bæði vegna þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir með EES-samningnum og vegna hreinleika og heilbrigðis manna og dýra. Sótt hefur verið um lóð á Dysnesi undir fyrirhugaða starfsemi, en þar er skipulagt svæði til athafna og græns iðnaðar,“ útskýrir Kristín. Vonir eru bundnar við að í kjölfar uppbyggingar á fyrsta fasa geti þarna byggst upp innviðir sem taki ekki eingöngu við áhættuefni, heldur öðrum lífrænum úrgangi til verðmætasköpunar og loftslagsávinnings.

Ef allar væntingar ganga eftir er gert ráð fyrir að hægt verði að fara af stað með fyrstu vinnslueiningarnar á Dysnesi innan þriggja ára.

Samtal er hafið um mögulegt samstarf á milli verkefnanna í Reykholti og á Dysnesi.

Framleiðsla lífkola

Auk hugmynda um líforku- og lífgasver, hafa möguleikar á framleiðslu lífkola verið til skoðunar úr lífrænum úrgangi og fengu Bændasamtök Íslands til að mynda styrk í nóvember á síðasta ári úr Loftslagssjóði til fýsileikagreiningar á slíku verkefni. Í lýsingu á verkefninu kemur fram að markmið verkefnisins verði að skoða hvort fýsilegt sé að hagnýta nýja tækni hér á landi til framleiðslu á lífkolum. Tilgangurinn yrði að koma lífrænum úrgangi eins og dýrahræjum og sláturúrgangi í umhverfisvænan farveg og binda auk þess kolefni í orkusjálfbæru ferli sem valdi engri losun gróðurhúsalofttegunda.

Horft er til aðferða sem hafa verið hagnýttar á meginlandi Evrópu. Þær felast í brennslu á lífrænu efni í sérhæfðum brennsluofni í loftfirrtum bruna. Engin losun er úr þessu ferli, en afurðirnar eru lífkol, sem hægt er að nota sem jarðvegs- eða fóðurbætir eða jafnvel íblöndunarefni í byggingariðnaði.

Umhverfisstofnun:

Innleiðingin á banninu og eftirfylgnin

Jóhannes Bjarki Urbancic.

Innleiðing á lögunum um bann við urðun á lífúrgangi hefur sem fyrr segir staðið yfir á undanförnu ári. Merki þess hefur helst mátt sjá hjá sumum sveitarfélögum sem hafa tekið upp markvissa flokkun á lífræna heimilisúrganginum.

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun á sviði loftslags og hringrásarhagkerfis, segir að ákveðið hafi verið að líta á síðasta ár sem innleiðingaár til að auðvelda sveitarfélögum að innleiða ákvæði laganna í sína úrgangsstjórnun og það sé langt komið í flestum sveitarfélögum.

„Það hefur verið lögð áhersla á að veita heimilum fræðslu. Við sjáum að þau eru að standa sig vel. Þótt mörg fyrirtæki séu að gera vel þá hafa önnur því miður setið eftir. Fyrirtækjum ber auðvitað sama lagalega skylda og heimilum til að flokka sinn úrgang. Mér finnst þess vegna eðlilegt að kastljósið beinist að þeim til að auðvelda þeim að gera betur og að þau fyrirtæki sem gera vel fái verðskuldaða athygli. Að gera vel í úrgangsmálum getur sparað bæði fyrirtækjunum sjálfum og sveitarfélaginu peninga, auk þess sem það er einfaldlega hluti af þeirra samfélagslega hlutverki. Við erum auðvitað öll í þessu saman.“

Ekki enn þurft að beita viðurlögum

Spurður um möguleg viðurlög ef ekki sé farið að lögum, í hverju þau geti falist, segir Jóhannes að slíku hafi ekki enn þurft að beita vegna innleiðingar hringrásarlaganna. „En í 13. kafla laga um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um hvaða viðurlögum og þvingunarúrræðum stofnuninni og heilbrigðiseftirlitum er heimilt að beita.

Ég býst við því að sveitarfélög og rekstraraðilar sjái sér almennt hag í því að fylgja ákvæðum laganna og ekki gerist þörf á þvingunarúrræðum en ef sú staða kemur upp að þeirra verði þörf ímynda ég mér að þeim verði beitt.

Það er ekki leyfilegt að urða lífrænan úrgang með þessum hætti og það er á ábyrgð rekstraraðila að flokka hann rétt og á ábyrgð sveitarstjórnar að hafa til staðar farveg fyrir hann, en það getur verið farvegur utan sveitarfélagsins, til dæmis GAJA.“

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs

„Útfærsla söfnunarinnar getur hins vegar ekki verið hvernig sem er, hún þarf að styðja við markmið stjórnvalda um að koma úrgangi í sem besta nýtingu og að lágmarka urðun. Sveitarstjórnir útfæra sitt hlutverk í svokallaðri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs,“ heldur Jóhannes áfram.

„Sveitarfélög geta svo kveðið nánar á um skyldur rekstraraðila til að flokka sinn úrgang og koma honum til viðeigandi meðhöndlunar í samþykktum sveitarfélagsins. Til að starfrækja urðunarstað þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, samanber lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um meðhöndlun úrgangs. Ef urðunarstaðir eru starfræktir án starfsleyfis varðar það stjórnvaldssekt samkvæmt lögunum.“

Matvælastofnun:

Skortur á innviðum og því erfitt að fylgja eftir frávikum

Þorvaldur H. Þórðarson.

Sumarið 2022 féll dómur EFTA-dómstólsins, þar sem fram kemur að fyrirkomulag varðandi frágang dýraleifa og -hræja á Íslandi sé ekki í samræmi við reglugerðir sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og Ísland hefur innleitt.

Matvælastofnun hefur frá síðustu áramótum tekið við eftirlitshlutverkinu af Umhverfisstofnun með því að rekstraraðilar fylgi settum reglum. Þorvaldur H. Þórðarson, starfandi yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að stofnunin sé meðvituð um niðurstöður EFTA-dómstólsins og vinni markvisst að breytingum til samræmis við löggjöfina. Hann bendir á að það sé á ábyrgð stofnunarinnar að hafa eftirlit með því hversu vel rekstraraðilar uppfylli skyldur sínar, en meðferðin sjálf á aukaafurðunum og innviðirnir til slíkrar meðferðar séu ekki á ábyrgð stofnunarinnar.

Tvær verksmiðjur í aðlögunarferli

„Í dag er staðan sú að einungis Kalka á Reykjanesi hefur möguleika til móttöku og brennslu á dýrahræjum í áhættuflokki 1 og mikil uppbygging innviða þarf að eiga sér stað á Íslandi svo hægt verði að uppfylla kröfur löggjafarinnar. Sú uppbygging er ekki á höndum Matvælastofnunar en fjölmargir aðilar þurfa að koma þar að, til dæmis félagasamtök bænda, Samtök fyrirtækja í landbúnaði, stjórnvöld og jafnvel fleiri,“ segir Þorvaldur. „Líta verður til þess að núverandi afkastageta í Kölku er takmörkuð og getur vart uppfyllt þörfina á landsvísu. Tvær verksmiðjur sem framleiða jarðgas og jarðgerðarefni eru að aðlaga ferla sinnar starfsemi til að taka á móti dýrahræjum,“ bætir Þorvaldur við.

Talsvert vantar upp á að markmiðum sé náð

Þorvaldur segir að Matvælastofnun forgangsraði eftirlitsþáttum tengdum aukaafurðum dýra og sé að byggja betur upp eftirlitskerfi utan um málaflokkinn. Talsvert vanti upp á að markmiðum í málaflokknum sé náð á landsvísu með tilliti til löggjafarinnar. „Stofnunin er þátttakandi með matvælaráðuneytinu í vinnu við að skoða leiðir til að innviðir landsins séu nægir til að koma málinu í betri farveg og í samskiptum við aðila sem tengjast starfsemi af þessu tagi. Í nokkrum sveitarfélögum hefur verið komið á skipulagðri söfnun dýrahræja sem til falla í búskap. Eins og staðan er nú eru dýrahræin flutt á tilgreinda urðunarstaði. Vissulega þyrftu úrræði að vera til staðar svo hægt verði að vinna aukaafurðirnar frekar. Það þyrfti að vera mögulegt að nýta þær þar sem það á við og til að koma hræjunum í það form að ekki stafi smithætta af afurðunum.“

Innviði skortir

Að sögn Þorvaldar er eftirlit með aukaafurðum dýra til staðar en það þyrfti að auka. Ástæða þess að Matvælastofnun hafi átt erfitt með að fylgja eftir frávikum – og þannig að beita viðurlögum – sé einfaldlega sú að innviði fyrir móttöku aukaafurða skortir.

Þegar innviðauppbygginu hefur verið komið í lag geti Matvælastofnun innleitt viðbrögð ef rekstraraðilar verða uppvísir af því að meðhöndla aukaafurðir dýra á óheimilan hátt.

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...