Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Flýtimeðferð fyrir djúpborunarverkefni
Fréttir 23. október 2025

Flýtimeðferð fyrir djúpborunarverkefni

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, hefur undirritað samstarfsyfirlýsingu við þrjú íslensk orkufyrirtæki um að flýta þróun næstu kynslóðar jarðvarmakerfa og djúpborunarverkefna, sem hluta af langtímastefnu Íslands.

Skrifað var undir yfirlýsinguna á málstofunni „Superhot Summit“ sem var hluti af nýloknu Hringborði norðurslóðanna. Aðrir aðilar að yfirlýsingunni eru Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka.

Í ræðu ráðherra á málstofunni kom fram að samstarfsyfirlýsingin væri vegna verkefnisins Iceland Deep Drilling Project-3 (IDDP-3), sem gengi út á að bora dýpra ofan í jarðhitakerfi á háhitasvæðum en áður hefur verið gert. Þar með er virkjuð varmaorka í dýpri lögum og jarðhitakerfið stækkað niður á við. IDDP-3 er þriðja hluti IDDP-verkefnisins og miðast við boranir á Hengilssvæðinu. IDDP-1 var fyrsta verkefnið við Kröflu og IDDP-2 var á Reykjanesi en verkefnið allt hefur verið í þróun síðustu 25 ár.

Sagði ráðherra að Orkuveita Reykjavíkur og samstarfsaðilar verkefnisins myndu hefja boranir strax á næsta ári í Henglinum.

Framsækin jarðhitaáætlun

Jafnframt kynnti ráðherra upphaf vinnu við gerð heildstæðrar jarðhitaáætlunar fyrir Ísland til ársins 2050. Hún verði fyrsta slíkrar tegundar fyrir Ísland og framsækin, því íslensk stjórnvöld hafi of lengi verið óvirkur þátttakandi og tekið jarðhita sem sjálfsögðum hlut. Það verði ekki lengur þannig og ætli stjórnvöld strax að grípa til afgerandi aðgerða til að styrkja samkeppnishæfni jarðhitanýtingar og knýja áfram nýsköpun.

Sagði hann að áætlunin muni setja skýr markmið um leit, rannsóknir, tækni og sjálfbæra nýtingu; allt frá háhitaorku til lághitaveitu, frá staðbundnum notum til alþjóðlegrar nýsköpunar. Hún muni einnig styrkja alþjóðlegt samstarf, svo að reynsla Íslands geti nýst alþjóðlega jarðhitasamfélaginu.

Í tengslum við áætlunina ætli stjórnvöld að tvöfalda fjárfestingu í jarðhitaverkefnum, með því að bæta í styrkjakerfið í gegnum Loftslags- og orkusjóð, með sérstakri áherslu á nýsköpun og tækniframfarir í nýtingu jarðhita.

Sagði ráðherra að í áratugi hefði jarðhiti knúið heimili, iðnað og ímyndunarafl Íslendinga. Hann hefði haldið hita á landsmönnum í vetrarveðrum, tryggt orkuöryggi í gegnum erfiða tíma og hjálpað til við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda – löngu áður en kolefnishlutleysi hafi orðið að alþjóðlegu markmiði.

En núna þegar horft sé fram á miðja öld í stefnumótun, sé tími til kominn að ganga lengra og taka næsta skref sem jarðhitaþjóð.

Með nýtingu á ofurhita, orku sem finnst á djúpum svæðum þar sem berg bráðnar, opnist gríðarlegir möguleikar á nýtingu orku sem sé endurnýjanleg, samþjöppuð og stöðug. Ef hægt verði að nýta svæði þar sem hitinn fer yfir 400 gráður sé hægt að endurskilgreina hagkvæmni hreinnar og áreiðanlegrar orku.

Á dögunum var kynnt uppfært jarðvarmamat fyrir Ísland sem Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) unnu fyrir ráðuneytið í samstarfi við Umhverfisog orkustofnun. Þar kom fram að í raun séu engin svæði á Íslandi lengur skilgreind sem köld þegar kemur að nýtingu á jarðhita.

Uppfært jarðvarmamat gefur heildarniðurstöðu fyrir Ísland sem er um 18% hærra en eldra mat og skiptir þar mestu hærra mat fyrir gosbeltin.

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...

Hugmyndir um hringlaga fjárhús
Fréttir 8. desember 2025

Hugmyndir um hringlaga fjárhús

Gunnar Gunnlaugsson, húsasmíðameistari frá Höfn í Hornafirði, hefur undanfarið u...

Verndar landbúnaðararfleifð heimsins
Fréttir 8. desember 2025

Verndar landbúnaðararfleifð heimsins

FAO hefur um árabil unnið að verkefninu Globally Important Agricultural Heritage...

Fæðuöryggi byggir á alþjóðaviðskiptum
Fréttir 5. desember 2025

Fæðuöryggi byggir á alþjóðaviðskiptum

Torfi Jóhannesson, ráðgjafi hjá Nordic Insights, er höfundur skýrslu um neyðarbi...