Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Georg Ottósson, eigandi Flúðasveppa og Flúðajörfa, átti í samningaviðræðum um sölu á sínum rekstri í vor. Aðilar náðu ekki saman að lokum, sem Georg segir alltaf geta gerst í viðskiptum.
Georg Ottósson, eigandi Flúðasveppa og Flúðajörfa, átti í samningaviðræðum um sölu á sínum rekstri í vor. Aðilar náðu ekki saman að lokum, sem Georg segir alltaf geta gerst í viðskiptum.
Mynd / Aðsend
Fréttir 27. júní 2025

Flúðasveppir ekki seldir

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Georg Ottósson hafði til skoðunar að selja allan sinn rekstur í vor, en eftir miklar viðræður náðu samningsaðilar ekki saman. Hann er eigandi Flúðasveppa, sem er stærsti svepparæktandi landsins, og Flúðajörfa, sem stundar ylrækt og útirækt á grænmeti.

Enn fremur rekur Georg veitingastaðinn Farmers Bistro á Flúðum. Hann segist bundinn trúnaði um hverjir ætluðu að kaupa reksturinn, en hann getur gefið upp að þetta voru innlendir aðilar í grænmetisrækt.

„Kannski var þetta of stór biti fyrir þessa aðila og það munaði of miklu í lokin að við næðum saman,“ segir Georg inntur eftir ástæðu þess að salan gekk ekki eftir. „Ég var ákveðinn í að halda mig við tiltekið verð, en svo náðist það ekki. Þetta er eins og getur gerst í viðskiptum og það er engin reiði eða neitt slíkt í loftinu.“

Heldur ótrauður áfram

Georg, sem verður 74 ára í haust, segist því ætla að halda ótrauður áfram í sínum rekstri, en hann er eini hluthafinn í áðurnefndum fyrirtækjum. „Maður er kominn að síðasta kaflanum í lífinu, en heilsan er góð og ég er bjartsýnn á framtíðina.“ Hann segist ekki óþreyjufullur að hætta, enda var hann búinn að ljá máls á því í samningaviðræðunum að hann gæti verið viðriðinn reksturinn með nýjum aðilum í tvö ár.

„Á næstu árum verða einhverjar breytingar á rekstrinum, ég get fullyrt það. Hvort sem ég muni selja alla þessa heild eða brjóta þetta upp verður að koma í ljós. Fyrirtækin standa vel, en bæði Flúðajörfi og Flúðasveppir hafa verið vottuð sem fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri síðustu árin og veitingastaðurinn er skuldlaus. Eftir þessar viðræður bý ég að því að hafa farið í gegnum áreiðanleikakönnun með mín fyrirtæki og það kom allt vel út.“

Stefnir í góða uppskeru

Georg nefnir að sumarið 2024 hafi verið erfitt fyrir íslenskan landbúnað og það hafi áhrif á hans rekstur. „Við notum hálm og ræktum mikinn strandreyr sem við nýtum í rotmassagerð í Flúðasveppum. Við erum sjálfum okkur nóg með 70 prósent, en erum háð öðrum bændum sem eru í kornrækt með það sem vantar upp á. Þar sem minna hefur fengist af hveiti- og bygghálmi erum við ekki í fullri framleiðslu á sveppunum,“ segir hann. Að jafnaði sé ársframleiðslan yfir 600 tonnum.

Sumarið í ár fer vel af stað og segir Georg allt stefna í góða uppskeru á bæði grænmeti og hálmi. „Korn og hveiti er komið á fulla ferð og ég tel að grænmetið komi á markað fyrr en venjulega. Þegar svona viðrar líður okkur bændum betur,“ segir hann.

Skylt efni: Flúðasveppir

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...