Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Áætla 909 milljarða til samgangna á 15 árum
Mynd / Job Savelsberg
Fréttir 26. júní 2023

Áætla 909 milljarða til samgangna á 15 árum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti á dögunum tillögu að samgönguáætlun til áranna 2024–2038.

Þar er lögð áhersla á að auka öryggi í samgöngum, fjárfestingu í flugvöllum og forgangsröðun jarðganga. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar til og með 31. júlí. Mælt verður fyrir samgönguáætlun á Alþingi næsta haust.

Í áætluninni er lagt til að 80 kílómetrar af stofnvegum verði breikkaðir og akstursstefnur aðskildar. Á Hringveginum verði uppbygging um Suðurfirði og Lagarfljót, um Lón og við Skaftafell. Enn fremur skuli hefjast uppbygging á Skógarstrandavegi, Vestfjarðavegi, Vatnsnesvegi, Norðausturvegi um Brekknaheiði og Skjálfandafljót og á Bárðardalsvegi.

Fyrir árið 2038 verði lagt bundið slitlag á 619 kílómetra af vegum sem í dag eru malarvegir. Á þjóðvegum landsins er 651 einbreið brú og mun þeim fækka um 79, gangi áætlunin eftir. Þar af er stefnt á að allar einbreiðar brýr á Hringveginum verði orðnar tvöfaldar í lok tímabilsins, en þær eru 29 í dag. 68 milljörðum króna verður varið til viðhalds vega á tímabilinu 2024– 2028. Í áætluninni kemur fram að Vegagerðin áætli um uppsöfnuð viðhaldsþörf á þjóðvegakerfinu sé á bilinu sjötíu til áttatíu milljarðar kr.

Allt að 14 jarðgöng

Í áætluninni kemur fram tillaga að forgangsröðun tíu jarðganga til næstu 30 ára, sem má sjá á meðfylgjandi töflu. Jafnframt muni eftirfarandi fjórir kostir vera teknir til síðari skoðunar: Reynisfjall; Lónsheiði; Hellisheiði eystri; ásamt Berufjarðargöngum og Breiðdalsheiðargöngum.

Stefnt verði að lagningu bundins slitlags á Kjalvegi, frá Gullfossi að Kerlingarfjallavegi.

Jafnframt verði unnið að greiningu á kostum varðandi þróun samgöngukerfisins á miðhálendinu, með tilliti til hvaða vegir þjóna samgöngum og hverjir séu mikilvægir fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu. Í áætluninni er lögð til áframhaldandi uppbygging á göngu-, hjólreiða- og reiðstígum. Hvað síðastnefnda atriðið varðar, skulu reiðvegir fá hundrað milljón króna framlag árlega. Jafnframt er lagt til að sextíu milljónum króna verði varið í viðhald girðinga meðfram vegum á ári hverju.

Meðalhraðaeftirliti verði komið upp á þremur köflum: Í Hvalfjarðargöngum, Dýrafjarðargöngum og á Hringvegi í grennd við Kúðafljót.

Unnið verði að endurskoðun tekjuöflunarkerfis ríkisins af ökutækjum, í ljósi þess að tekjur hafa dregist saman vegna orkuskipta. Í áætluninni er gert ráð fyrir að innheimta veggjalda muni standa undir fjármögnun nokkurra fram- kvæmda, að hluta eða í heild.

Þar má nefna nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót, nýja brú yfir Ölfusá og jarðgöng samkvæmt jarðgangaáætlun.

Aukin framlög til flugvalla

Varaflugvellir á Akureyri, Egilsstöðum og Reykjavík verði styrktir. Á Egilsstöðum verði uppbygging á flughlaði og akbraut. Á Akureyri verði flugstöðin stækkuð og stefnt er að byggingu nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli, á sama reit og núverandi flugstöð.

Framlög til viðhalds flugvalla muni aukast ásamt því sem innleitt verði nýtt varaflugvallagjald. Hvergi er minnst á framlög til endurbóta vegna slitlagsskemmda á Þingeyrar- flugvelli.

Hafnir og Sundabraut

Alls á að verja 7,7 milljörðum kr. til uppbygginga hafna fyrir árið 2028. Þar má nefna framkvæmdir í Njarðvík, á Sauðárkróki, í Þorláks- höfn og á Ísafirði. Lagt er til að umhverfisvænni orkugjafar verði notaðir til að knýja ferjur ríkisins.

Stefnt skuli að því að framkvæmdir við Sundabraut hefjist árið 2026 og opnað verði fyrir umferð árið 2031. Framkvæmdir brautarinnar verði fjármagnaðar í samvinnu ríkis og einkaaðila.

Skylt efni: Samgöngumál

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...

Steypan í Þverárrétt rannsökuð
Fréttir 13. maí 2024

Steypan í Þverárrétt rannsökuð

Úlfheiður Embla Ásgeirsdóttir framkvæmdi rannsókn á gæðum steypunnar sem notuð v...

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...