Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Veik málsvörn Þórarins Lárussonar
Mynd / Bbl
Lesendarýni 20. apríl 2021

Veik málsvörn Þórarins Lárussonar

Höfundur: Þröstur Ólafsson

Þegar vitnað er í skrif annarra við réttlætingu á eigin skrifum þarf að vanda sig. Sé það ekki gert eiga menn á hættu að detta í díki sem stundum getur þvælst fyrir og valdið óþægindum. Breytir þá engu þótt hroðvirknin sé lofuð af álíka vandvirkum viðhlæjendum, sem halda hálfsannleik í heiðri. Í grein sem Þórarinn Lárusson ritar í Bændablaðið 25. mars sl. vitnar hann tvívegis í skrif annarra sér til halds og trausts. Í fyrra skiptið grípur hann til skrifa tveggja kennara við LbhÍ, þeirra Þorsteins Guðmundssonar og Guðna Þorvaldssonar. Hvorugur þessara herramanna hefur, að sögn samstarfsmanna, stundað kolefnisrannsóknir af neinni alvöru. Landbúnaðarháskólinn gerði viðhorf þeirra ekki að sinni skoðun.

Bæði dr. Ólafur Arnalds og Jón Guðmundsson, prófessorar við sama háskóla, hafa stundað rannsóknir á votlendi, og hröktu nánast hvert einasta atriði greina þeirra lið fyrir lið á sínum tíma (3. tölubl. Bbl. 8. feb., 2018). Eftir þá grein stóð fátt bitastætt eftir af málflutningi þeirra Þorsteins og Guðna og því óþarfi að ræða það frekar. Það ber óneitanlega ekki vott um traustan málstað að geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér með haldbærari rökum.

Sandlækjarmýrisrannsóknin

Hin tilvitnun Þórarins varðar rannsóknarniðurstöður Brynhildar Bjarnadóttur. Þau skrif eru af öðrum og merkilegri toga. Þar er á ferð almennt viðurkenndur vísindamaður. Við nákvæmari lestur greinar Brynhildar kemur í ljós að hún er full af fyrirvörum höfundar sem mikilvægt er að gefa gaum. Rannsóknin fer fram á þeim tíma þegar öspin er í mestum og mjög örum vexti (ca 30 ára) og jarðvegurinn haugblautur, sem jafngildir því eins og um óframræsta mýri sé að ræða. Aðstæðurnar eru algjörlega óeðlilegar og litast niðurstaðan mjög af því. Sjálf segir Brynhildur:

„En blautt svæði og há vatnsstaða gefur til kynna að niðurbrotið á lífræna efninu í jarðveginum sem verður vegna framræslunnar er sennilega frekar hægt eða tiltölulega bælt.“

Mér vitanlega hefur enginn dregið í efa að aspir binda mikið koldíoxíð/kolefni m.v. aðrar trjátegundir. Þórarinn gefur sterklega í skyn að öll skógrækt á framræstu votlendi bindi meira kolefni en landið losi og lesandinn á að trúa því að aðrar trjátegundir bindi jafn mikið kolefni og aspir á hverjum hektara. Því fer víðs fjarri eins og allir vita sem fjallað hafa um þessi mál af þekkingu. En dæmið sem hér er um rætt er afar ýkt. Aspirnar í Sandlækjarmýri voru auk þess gróðursettar afar þétt (upphaflega ætlaðar til notkunar við álframleiðslu), aðferð sem enginn myndi nota á okkar tímum. Það eykur bindingu á hektara. Þrátt fyrir mjög óeðlilegar aðstæður nær CO2 binding aspanna ekki að loka fyrir losunina frá jarðveginum. Höldum svo áfram. Aspirnar eldast og bindingin minnkar. Svo deyja þær. Bolirnir annaðhvort rotna á jörðinni eða nýtast sem eldiviður. Í bæði skiptin hefst þá full losun/framleiðsla CO2 að nýju, því bolirnir hafa mikið af kolefni í sér sem mynda CO2 við rotnun. Í framhjáhlaupi en þó ekki ómerkilegt má minnast á að lauffall aspa á haustin er mikið. Það fýkur saman og myndar nýjan massa sem losar CO2 – að nýju. Hvað er þá orðið okkar starf? Eina varanlega binding koldíoxíðs er að koma því ofan í jörðina að nýju og geyma það þar.

Sameiginleg vörn

Þórarinn viðurkennir þó réttilega undir lokin að versta staðan sé að láta framræsta landið standa óhreyft, en bætir við að „mikilvægt er (...) að finna metnaðarfyllri og búmannlegri leiðir til að hemja allt skurðayfirklór.“ (Leturdekking mín). Þetta er síðasta hendingin í útfararversinu, sem hann söng svo glatt í fyrri grein sinni. Gleymum því ekki að við akuryrkju á einærum korntegundum sem Þórarinn mælir svo mikið með, verður mikil losun koldíoxíðs við jarðvinnsluna. Það yrði því þvert á stefnu stjórnvalda sem vilja leggja allt kapp á að draga úr losun koldíoxíðs, stöðva losun þess úr framræstu votlendi og binda í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt.

Þannig rekst málflutningur hans sífellt á sjálfan sig, spunnin er upp málsvörn sem engin er, því haldbær rök vantar. Óskhyggjan ein ræður. Draumsýnir Þórarins um framtíð íslensks landbúnaðar verða ekki gerðar frekar að umræðuefni hér. Það verður að bíða betri tíma og annars tilefnis. Þegar við verðum komin út úr afneitunarfasanum og hættum að láta glapskyggni og óskhyggju stýra gerðum og hug, þá þarf að ræða af alvöru við bændur og aðra landeigendur um annars konar nýja landnýtingu í þágu mannkyns og framtíðar jarðar og sjávar. Við í Votlendissjóði verðum að hlusta á óskir þeirra sem ráða yfir framræstum landsvæðum og finna leið til að koma á móts við þær, með einum eða öðrum hætti. Þetta eins og svo margt annað vinnst ekki nema í samvinnu og samstarfi. Það er hvorki niðurlæging né uppgjöf fólgin í því að heimila að ónotað framræst land verði aftur gert að mýri. Það er þvert á móti nauðsynlegt framlag við baráttuna gegn loftslagsvánni sem ógnar öllum þeim lífsmáta sem við teljum eftirsóknarlegan og mun gera stóra hluta jarðarinnar óbyggilega, verði ekkert raunhæft aðhafst.

Þröstur Ólafsson,
formaður Votlendissjóðs

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f