Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Riða
Leiðari 9. júní 2023

Riða

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Í þessu tölublaði Bændablaðsins eru heimsóttir bændur á fjórum bæjum, sem urðu fyrir því áfalli að skera þurfti niður lífsviðurværi þeirra vegna riðu. Frásögn þeirra er sláandi og því eiga orð bændanna þennan dálk:

Guðrún Hulda Pálsdóttir

„Maður upplifir svo mikið varnarleysi, þú hefur ekkert val þegar þú lendir í riðuniðurskurði, þú verður bara að fara að lögum og sitja hljóð hjá þegar bústofninn þinn er sóttur og drepinn – allt það sem þú hefur byggt upp. Þetta er alveg ofboðslegt tilfinningalegt tjón og hrikalegt að lenda í! [...] við vorum öll afar beygð daginn sem bústofninn var sóttur og keyrður burt í síðasta sinn enda áttu allir sínar uppáhaldskindur. Þarna voru í hópnum m.a. Blíða gamla, Flekka, Eik, Bolla & Dísa – bara bless, og við sjáum ykkur ekki aftur. Síðan taka við þessi ár þegar enginn sauðburður er og svo fyrstu göngurnar þegar við eigum enga kind í fjöllunum, það var mjög erfitt. Auðvitað er sauðfjárrækt búin að vera stór þáttur í lífi okkar og lífsstíll,“ segir Fjóla Viktorsdóttir á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, en búfjárstofn hennar og eiginmannsins, Elvars Einarssonar, var skorinm niður árið 2021. Hann segir: „Okkur sýnist að allir lendi í því sama, bændur hafa í raun ekkert val og skulu gjöra svo vel að undirgangast ákvæði reglugerðarinnar eins og lög gera ráð fyrir [...] Það var lítið hægt að bæta við eða breyta því sem stendur í reglugerðinni. Þannig að við skrifuðum bara undir og héldum lífinu áfram.“

Gunnar Sigurðsson á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði, sem, ásamt Svanhildi Pálsdóttur, missti allan sinn bústofn vegna riðu árið 2020, segir: „Eins og ljóst má vera af nýlegum málum, til dæmis í Miðfirði, þá er staðreyndin sú að maður getur ekki byrjað á sama stað og maður var á þegar niðurskurðurinn varð. Þú þarft alltaf að borga dálítið mikið með þér. [...] Áfallið hjá mér var fyrst og fremst samfélagslegt, því við vorum á hreinu svæði þar sem hægt var að eiga í viðskiptum með gripi, samgangur var opinn, það voru hrútasýningar og heilmikill félagsskapur í kringum sauðféð. Nú skall allt í lás og ég sá fyrir mér að þetta yrði mikið áfall – sem auðvitað kom á daginn. Ég upplifði þetta þannig að við bændur hættum bara að tala saman.“

Elín Anna Skúladóttir á Bergsstöðum í Miðfirði segir: „Það var hræðilega erfitt að sjá á eftir kindunum sínum sem áttu nokkrar vikur í burð, hlaupa upp á sláturbílinn. Flestar þeirra voru einstakir karakterar og miklir vinir okkar og maður sá í augum þeirra hvað þær voru óttaslegnar á þessari ringulreið.“

Ari G. Guðmundsson, Bergstöðum: „Auðvitað hefur þetta ferli allt verið mjög erfitt, en þó var líðanin verst þessa páskadaga sem við þurftum að gefa fénu sem eftir var – vitandi að það væri að fara. Fyrri hópurinn fór á föstudaginn langa og sá síðari annan í páskum. Og enn verra var reyndar að horfa á eftir fénu frá nágrönnum okkar á Urriðaá.“

Dagbjört Diljá Einþórsdóttir á Urriðaá lýsir upplifun sinni: „Við urðum vitni að því, þegar allt varð stopp með urðunarstaði og hræin voru búin að vera um sólarhring við sláturhúsið á Hvammstanga, að allt í einu sjáum við að það er verið að flytja rollurnar okkar í gámum að flugvellinum á Króksstöðum í Miðfirði. Sá bær blasir við okkur út um stofugluggann. Þá hafði verið ákveðið í skyndi að urða hræin þar án þess að skoða aðstæður almennilega.“

Ólafur Rúnar Ólafsson á Urriðaá segir: „Við náðum einhvern veginn aldrei að syrgja rollurnar fyrr en nokkru seinna. [...] Við vorum svo á kafi í þessu ræktunarstarfi að það er erfitt að útskýra hvað það hafði mikil áhrif á okkur að lenda í þessu – höfðum legið yfir skýrsluhaldinu í Fjárvís til að móta okkar eigin línur í ræktuninni sem hefur tekið allan okkar tíma hér þótt stuttur sé.“

„Það er heldur vonlítið fyrir okkur núna að standa í einhverju stríði um að fá sómasamlegan samning um réttlátar greiðslur fyrir okkar bústofn,“ segir Dagbjört.

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...

Mikill vöxtur í landeldi
Leiðari 20. nóvember 2025

Mikill vöxtur í landeldi

Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í íslensku landeldi á næstu árum, eins og fram ...

Vannýtt tækifæri
Leiðari 6. nóvember 2025

Vannýtt tækifæri

Hlutfall innlendrar búvöruframleiðslu á íslenskum matvörumarkaði hefur dregist s...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. október 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Varla hefur farið fram hjá mörgum að mikill þrýstingur á auknar virkjanaframkvæm...

Út í óvissuna
Leiðari 23. október 2025

Út í óvissuna

Ljóst er að það markmið frumvarps atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögu...

Kraftapólitík og undanbrögð
Leiðari 14. október 2025

Kraftapólitík og undanbrögð

Búvörulög mynda grundvöllinn að starfsskilyrðum bænda í landinu ásamt búvörusamn...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f