Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Samkeppni eða hagkvæmni?
Af vettvangi Bændasamtakana 24. október 2025

Samkeppni eða hagkvæmni?

Höfundur: Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda.

Samkeppni og samvinna eru öfl og hugtök sem hafa talsvert verið í umræðunni upp á síðkastið. Það hefur heldur ekki verið laust við að þau hafa verið undirrituðum hugleikin. Bæði þessi öfl hafa skipað stóran sess í sögu og þróun Íslands, verið stoðir og drifkraftar félagslegrar og efnahagslegrar velsældar sem hefur vaxið hér á ævintýralegum hraða síðustu öldina eða svo. Það er þó ekki svo gott eða einfalt að þessi öfl vinni í öllum tilfellum vel saman sem veldur áskorunum.

Í íslensku samfélagi má auðveldlega líta á landbúnað sem einn af lykil innviðum þjóðarinnar sem hefur áhrif á daglegt líf allra íbúa enda erum við öll neytendur. Því snertir það okkur öll hvernig þær vörur sem landbúnaðurinn framleiðir verða til, hvernig virðiskeðja þeirra er, á hvaða verði vörurnar bjóðast og af hvaða gæðum þær eru. Samkeppni er þannig ætlað að tryggja að eftirspurn og þörfum neytenda sé mætt með sem bestum hætti eftir settum leikreglum. Upplýsingagjöf er nauðsynleg svo samkeppni sé eðlileg og sanngjörn. Þar má velta upp hvort þar megi og þurfi að gera betur; vilji neytendur taka ákvarðanir um viðskipti sín út frá uppruna, gildum, aðbúnaði vinnuafls og dýra og sýklalyfjanotkun svo dæmi séu tekin.

Þegar litið er til landbúnaðarins í samhengi við aðra innviði í okkar dreifbýla landi verður að horfa með raunsæi til aðstæðna. Til að mynda hvernig byggð og atvinnulíf dreifist hringinn um landið, milli fjalls og fjöru, á drjúg langri strandlengju sem telur um fimm þúsund kílómetra. Til að landbúnaður geti þrifist um land allt, eins og opinber landbúnaðarstefna segir til um, þarf að búa vel um hnútana, tryggja jafnræði býla og hámarka hagkvæmni eins og kostur er. Í þeirri öflugu byggðafestu felast ómæld verðmæti, bein og óbein, fyrir land og þjóð.

Þar kemur samvinna sér einkar vel eins og dæmin sýna, svo sem í mjólkuriðnaði. Þar hafa samvinnufélög haft brautargöngu um skilvirka söfnun og vinnslu mjólkurafurða, með sterkari innviðum en áður. Slíku fyrirkomulagi var og er þörf á í framleiðslu á kjötafurðum til að bæta hag bænda og neytenda. Mikilvægt er að nýir aðilar og fyrirtæki hafi þó tækifæri og ráðrúm til að koma inn á markaðinn, eins og svo sannarlega er gert í núverandi fyrirkomulagi í mjólkuriðnaðinum.

Samkeppni á litlum markaði eins og Íslandi er vandkvæðum bundin. Hún getur birst okkur í hálftómum sláturbílum sem keyra framhjá sláturhúsum, lengri leið en ella. Mjólkurbílum sem keyra á eftir hvor öðrum, sömu holóttu malarvegina, nokkrum sinnum í viku. Allt í nafni samkeppninnar því Ísland byggist jú milli fjöru og fjalla. Hvorugt er birtingarmynd um nýsköpun né hagkvæmni. Í þessum málum sem og mörgum öðrum spyr fólk sig því hvernig samkeppni virkar og hefur áhrif á líf og starf í dreifbýli. Í huga margra snúast aðgerðir opinberra aðila og stofnana of oft upp í andhverfu sína, þrátt fyrir að þær séu gerðar af heilum hug.

Íslenskar landbúnaðarafurðir eru og munu alltaf verða í öflugri samkeppni við innfluttar vörur. Tryggjum að þeirri byggðafestu sem af öflugum landbúnaði leiðir, arðbærni hans og samkeppnishæfni verði ekki ógnað með misráðnum breytingum á starfsumhverfi landbúnaðarins. Í dag og til framtíðar er til mikils að vinna og miklu að tapa fyrir okkur öll.

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga
Lesendarýni 22. desember 2025

Fæðuöryggi sem innviður norðurslóðasamfélaga

Áhersla á fæðuöryggi , viðnámsþrótt og öryggi grunninnviða samfélagsins hefur á ...

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna
Lesendarýni 9. desember 2025

Frá 75 ára afmæli norsku búvörusamninganna

Þann 17. nóvember var 75 ára afmæli Hovedavtalen for jordbruket haldið hátíðlega...

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...