Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Víða í Danmörku eru nú komnar myndarlegar vinnslustöðvar fyrir hauggasframleiðslu þar sem mykja frá kúabúum er m.a. mikilvæg fyrir virkni stöðvanna.
Víða í Danmörku eru nú komnar myndarlegar vinnslustöðvar fyrir hauggasframleiðslu þar sem mykja frá kúabúum er m.a. mikilvæg fyrir virkni stöðvanna.
Á faglegum nótum 27. mars 2024

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2024 – Fyrsti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Kvægkongres 2024, árlegt og einkar áhugavert fagþing hinnar dönsku nautgriparæktar, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarin ár voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hver erindi við íslenska bændur og annað fagfólk í nautgriparækt.

Snorri Sigurðsson

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 13 málstofur með tugum erinda.

Í þessari grein verður gripið niður í nokkur erindi sem voru flutt í málstofunum um hagfræði og bústjórn og holdabúskap.

1. Hagfræði og bústjórn

Þetta var önnur af tveimur stærstu málstofunum, enda rekstrarvandamál kúabúa mikið í umræðunni eins og gefur að skilja.

Alls voru flutt 10 fróðleg erindi í þessari málstofu og af þeim voru allnokkur sem eiga jafnt erindi við íslenska kúabændur sem danska eins og t.d. erindi Bruno Lyskjær Due og Rina Oldager Miehs, sem eru ráðunautar hjá tveimur sjálfstæðum ráðgjafarfyrirtækjum en vinna saman í gengum samstarfsvettvanginn Ko-Viden.

Í erindi þeirra fóru þau yfir það hve mikið bændur geta sparað með því að skoða betur þörf búa sinna fyrir kjarnfóður, steinefni, vítamín og önnur fóðurbætandi efni. En víkjum fyrst að samstarfsvettvanginum Ko-Viden.

Ko-Viden

Ko-Viden er nýtt og náið samstarf allra stóru aðilanna í danskri nautgriparækt og er ætlað að bæta nautgriparáðgjöf í landinu.

Þessir aðilar eru sjálfstætt starfandi ráðgjafarfyrirtæki í landbúnaði, dönsku Bændasamtökin, SEGES, kynbótafyrirtækið Viking- Genetics og fleiri mætti nefna. Allir þessir aðilar hafa ákveðið að starfa náið saman og með því tryggja að ný þekking komist hraðar en áður til nautgripabænda landsins.

Megintilgangurinn er að hraða framþróun danskrar nautgriparæktar með því að aðlaga nýja þekkingu enn hraðar en áður var gert.

Auk þess mun Ko-Viden samstarfið hraða þróun markvissra lausna fyrir búgreinina auk þess að sjá til þess að ráðgjafar séu vel endurmenntaðir og faglega með nýjustu þekkinguna á hverjum tíma. Þessir aðilar skuldbinda sig til að leggja sitt af mörkum bæði með þekkingu, mannauði og fjármálum, til dæmis í tengslum við þróunarverkefni og sérfræðingahópa.

Þessir sérfræðihópar taka upp nýjustu þekkingu bæði heima og erlendis og sjá til þess að ráðgjafarnir hafi hana þegar þeir fara í heimsóknir á búin. Jafnframt ber sérfræðingahópunum að tryggja að málefni líðandi stundar sé beint inn í rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Þessir sérfræðingahópar Ko-Viden eru þegar starfandi og þetta erindi Bruno og Rina er afsprengi hagfræðihóps Ko-Viden svo dæmi sé tekið. Í erindinu komu þau inn á að allt of margir bændur kaupi inn á röngum eða gömlum forsendum. Því hefur verið sett upp kerfi þar sem nautgripabændur geta látið reikna fyrir sig hver raunveruleg, og nákvæm, þörf er á búum sínum fyrir fóðurefni og aðstoðar sérfræðihópurinn bændurna við að fá tilboð söluaðila í ætluð árleg kaup búanna. Þjónustan sem bændurnir fá svo, auk sérhæfðrar fóðuráætlunar, er að farið er yfir tilboðin byggt á verði, gæðum og efnainnihaldi og fær bóndinn í hendur fullbúna ráðgjöf um hvar sé hagstæðast að kaupa inn og hvernig nota eigi best fóðurefnin sem keypt eru.

Banki með landbúnaðar- og matvælasvið

Annað áhugavert erindi í málstofunni var erindi Morten Riget, sem er yfirmaður landbúnaðar- og matvælasviðs danska stórbankans Nordea. Þetta sérhæfða svið bankans var sett sérstaklega á fót til að efla enn frekar danskan landbúnað og þarlenda matvælaframleiðslu með því að safna saman sérfræðingum á þessu sviði til bankans. Forsvarsmenn Nordea ætla þessu sviði stóra hluti í framtíðinni og að fagsviðið verði kraftmikill valkostur fyrir bændur og aðra matvælaframleiðendur.

Í erindinu fór hann m.a. yfir stöðu þeirra dönsku kúabúa sem eru í viðskiptum við Nordea en bankinn tekur saman upplýsingar um sína eigin viðskiptavini. Fram kom að meðalbúið er með 377 kýr, þ.e. mun fleiri kýr en hefðbundið danskt kúabú sem er í kringum 230 kýr. Eftir afar gott gengi árið 2022 dró heldur af árið 2023 en þó voru flest búin rekin með ásættanlegum hagnaði.

Sagði hann að útlitið fyrir 2024 væri þó heldur dekkra vegna verðhækkana á aðföngum en á sama tíma væntinga um stöðugt afurðaverð. Þó mætti búast við því að flest hefðbundin kúabú landsins myndu standa sig vel á árinu en að aðeins myndi blása á móti fyrir þá sem eru í lífrænni framleiðslu en þau bú ættu þó einnig að jafnaði að skila hagnaði þó lítill yrði.

Bústjórnarráð

Nordea hefur á undanförnum árum, fyrir tilstuðlan Landbúnaðar- og matvælasviðsins, hvatt bændur til þess að koma sér upp svokölluðum bústjórnarráðum en þetta eru fagleg ráð hvers bús þar sem bóndinn hefur fengið fulltrúa viðskiptabankans síns, ráðgjafarfyrirtækis og oft fleiri aðila eins og tæknifyrirtækis eða sjálfstæðra ráðgjafa, til að aðstoða við að bæta reksturinn.

Í erindi Morten kom fram að þeir bændur sem hafa prófað þetta eru betur settir en aðrir og skila búin betri arðsemi, að líkindum vegna meiri faglegrar nálgunar við rekstrarákvarðanir. Einkar áhugavert framtak bankans!

Leiga á mykju

Framleiðsla á hauggasi er ört vaxandi víða um heim og er Danmörk þar engin undantekning, en gasið er langoftast notað til framleiðslu á rafmagni og vatni til húshitunar.

Um leið lækkar sótspor búanna sem senda búfjáráburð sinn í svona vinnsluferli. Um þetta fjallaði erindi þeirra Anders Andersen og Karl Jørgen Nielsen en báðir starfa þeir í ráðgjöf fyrir hauggasframleiðslu. Að afgasa búfjáráburð, þ.e. senda hann til hauggasframleiðslu, er orðið gríðarlega algengt nú orðið í Danmörku og er talið að um 27% af öllum búfjáráburði sem fellur til í landinu fari til hauggasframleiðslu.

Uppsetning þessara orkuvera er afar mismunandi en í raun má líta á þau öll sem einhvers konar leigutaka á búfjáráburði, þ.e. bændurnir senda frá sér búfjáráburð sem fer til afgösunar og svo fá bændurnir sama magn til baka af búfjáráburði, sem þá hefur verið notaður við framleiðslu á hauggasi. Fyrir þessi afnot fá bændurnir greitt frá orkuverinu.

Eignarhald orkuveranna er afar mismunandi. Áður fyrr voru bændur mikið að standa í þessu sjálfir en nú orðið er það mun óalgengara. Algengasta formið á þessum rekstri er annars vegar samvinnufélagarekstur eða hlutafélagarekstur.

Bændurnir geta þá annaðhvort verið eigendur í gegnum leigu á búfjáráburðinum, þ.e. bændurnir „leggja inn“ búfjáráburð og eru þar með með svipað eignarhald og oft er á afurðastöðvum í mjólk. Hins vegar er um hlutafélög að ræða sem þá gera langtímasamninga við bændur um afhendingu á búfjáráburði.

Að ýmsu er að huga þegar kemur að þessum málum og þar sem þessi „búgrein“ er enn frekar ný af nálinni eru enn margar ólíkar lausnir og leiðir sem eru farnar. Það væri þó mikilvægt að vernda vel hagsmuni bænda og mælti Anders t.d. með því að bændur stofnuðu afurðafélag sérstaklega fyrir þessi mál, svo hámarka mætti arðsemi framleiðslunnar og hag búanna sem leigja búfjáráburð frá sér til orkuveranna.

Greiðsla fyrir búfjáráburð fer eftir þurrefnisinnihaldinu og ef hann er of vatnsríkur þá er raunar ekki greitt fyrir hann yfirhöfuð. Bændurnir fá þá bara til baka búfjáráburð sem hefur verið afgasaður en fá ekki greitt fyrir. Þurrefnið þarf að vera hærra en 6,5% til þess að greiðsla komi fyrir búfjáráburðinn en sé þurrefnið 8% er hægt að framleiða um 13–15 rúmmetra af gasi úr tonni af mykju.

Tekið var dæmi frá einu hauggasveri en þar fá bændurnir greiddar 6 danskar krónur fyrir tonnið af búfjáráburðinum, um 120 íslenskar krónur, sé þurrefni búfjáráburðarins 8%. Eins og áður segir skiptir miklu máli að vera með hátt þurrefni og snarhækka greiðslurnar eftir auknu þurrefnisinnihaldi.Þannig fá bændur t.d. borgaðar 14 danskar krónur, um 280 íslenskar krónur, á tonnið sé þurrefni búfjáráburðarins 10% og sé það 12% eru greiddar 22 danskar krónur fyrir tonnið, eða um 440 íslenskar krónur.

Á vegum hauggasvinnslustöðvanna sjá stærðarinnar tankbílar um að keyra mykju að þeim og fara með afgasaða mykju til baka.

2. Holdabúskapur

Þessi málstofa var smá í sniðum í ár með einungis 3 erindi og þar af var eitt þeirra tengt ársfundi nautgripabænda með holdagripi.

Annað hinna tveggja fjallaði um sótspor kjötframleiðslu og hve afvegaleidd/röng umræðan er oftast. Í raun sé um hringrás kolefnis að ræða og því ekki um beina losun umfram upptöku gripanna að ræða.

Bóndinn ákveður með sérstöku forriti hvar nautgripirnir mega vera á beit hverju sinni og sér kerfið svo um að vakta alla gripi innan svæðisins.

Ósýnilegar girðingar

Hitt erindið fjallaði svo um hina nýstárlegu aðferð við að halda nautgripi í hagagöngu án þess að nota hefðbundnar girðingar!

Þetta er kerfi, frá norska fyrirtækinu Nofence, sem byggir á sérstakri örgjörvatækni þar sem nautgripirnir eru með sérhannaðar hálsólar sem skynja staðsetningu gripanna. Bóndinn ákveður hvar „girðingin“ á að vera, með þar til gerðu forriti, og þegar nautgripirnir nálgast þann stað byrjar hálsólin að gefa frá sér viðvörunarhljóð. Hljóðið er til þess að kenna nautgripunum að forðast þessa staði en fari þeir enn lengra og nær þeim stað sem bóndinn hefur ákveðið að ekki megi fara, hækkar hljóðið og ef nautgripurinn lætur ekki segjast gefur hálsólin frá sér straumboð.

Þessi tegund „girðingar“ er ekki leyfð í öllum löndum en fleiri og fleiri lönd leyfa nú orðið þessa aðferð enda hefur verið sýnt fram á í mörgum tilraunum að nautgripirnir læra fljótt á þetta og að kerfið auðveldar verulega allt eftirlit með gripum. Þá sparar kerfið mikið magn girðinga og vinnu bænda. Á móti kemur að kerfið kostar sitt, en hver hálsól, sem inniheldur sólarknúna rafhleðslu, GPS staðsetningarbúnað og fleira, kostar um 40.000 íslenskar krónur en þess má vænta að kostnaðurinn lækki þegar frá líður enda um nýjung að ræða. Þá þarf bóndinn að borga áskriftargjald að þessu kerfi norska fyrirtækisins.

Í næsta tölublaði Bændablaðsins verður haldið áfram með umfjöllun um danska fagþingið. Fyrir áhugasama má benda á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: https://www.kvaegkongres.dk/praesentationer/

Nautgripirnir læra fljótt á kerfið og hvar þeir geta verið á beit hverju sinni.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...