Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Eva sjálf að störfum í Eldstæðinu, tilraunir með súkkulaði.
Eva sjálf að störfum í Eldstæðinu, tilraunir með súkkulaði.
Mynd / smh
Líf og starf 8. október 2021

Mikil gróska í tilraunaeldhúsi matarfrumkvöðla

Höfundur: smh

Um þessar mundir fagnar Eldstæðið eins árs afmæli, en það er tilraunaeldhús í Kópavogi fyrir matarfrumkvöðla. Það er Eva Michelsen sem á og rekur Eldstæðið sem hýsir nú um 30 framleiðendur með mjög mismunandi framleiðslu, með á milli 70–80 vörutegundir. Jöfn kynjaskipting er meðal framleiðenda.

Hún telur að tækifærin á þessu sviði séu margvísleg – ekki síst í vegan-matvælum og hreinum matvælum með litlum eða engum aukaefnum.

„Ég kalla þetta reyndar deilieldhús, því eðli málsins samkvæmt deila framleiðendur aðstöðunni hér – og líka reynslu sinni sem er ekki síður mikilvægt,“ segir Eva. Um fullvottað eldhús er að ræða með öllum helstu tækjum og tólum til matvælaframleiðslu; kæli- og þurrlager, skrifstofu- og fundaraðstöðu. Þá býður hún upp á námskeið fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref og jafnvel aðeins komnir með hugmyndina. „Á námskeiðunum þarf að nálgast hvern og einn á þeirra sérstöku forsendum því þarfirnar og kröfurnar eru mjög breytilegar eftir því hvað á að fara að framleiða,“ segir hún, en alls hafa um 60 manns sótt námskeið til hennar.


Smökkun hjá Ketó eldhúsinu.

Eigin konfektgerð

Eva ól með sér draum um að reka slíkt eldhús eftir að hún kynntist slíkum fyrirbærum í Bandaríkjunum þegar hún var sjálf með hugmyndir að framleiðslu. Hún hafði stofnað Michelsen Konfekt árið 2015 en rekið sig á vandamál varðandi aðstöðuleysi. Hún rekur eigin konfektframleiðslu í dag, sem hún segir að byggi á Kökudagbókinni – bloggi sem hún hélt úti í um tíu ár.

Varðandi áhugaverðar vörur sem eru í þróun hjá henni núna nefnir hún pylsugerð undir vörumerkinu Sæhrímnir Sausages. „Hann heitir Sam sem er í þeirri vöruþróun og starfar sem kokkur í borginni. Hann gerir alvöru breskar pylsur, því hann skynjaði fljótt í samfélagi Breta á Íslandi að knýjandi þörf var á slíkri vöru á íslenskum markaði.“ Hún nefnir einnig Ketó eldhúsið með tilbúnu réttina sína, sem þegar hafa öðlast sinn sess í stórmörkuðum. Þar sé stöðug vöruþróun í gangi.

Aðrir framleiðendur sem hafa nýtt sér aðstöðu Eldstæðisins eru Krúttís ísgerð, Birna sem framleiðir ís með lágu nikkelinnihaldi fyrir þá sem eru með nikkelofnæmi, Álfagrýtan með Lumpia sem eru filippeyskar vorrúllur, Hilex frostpinnagerð úr hreinum ávöxtum,  Silfurhraun með chili-olíu, sinnep úr íslenskum bjór og jurtum og viský frá Sólakri ehf., Hlynur kokkur með veisluþjónustu og margt fleira.


Eldstæðið er rúmgott og vel tækjum búið; getur hýst þrjá matarfrumkvöðla í einu, svo fremi sem hráefnið sem unnið er með henti saman í vinnslurýminu.

Starfsemin gengið vel  

„Deilieldhúsið Eldstæðið er sprottið úr Facebook-hópnum Eldstæðið, sem ég stofnaði snemma árs 2018 sem áhugahóp fyrir matarfrumkvöðla. Þá var ég strax farin að viðra hugmyndir um að opna svona eldhús og fékk í raun strax fólk á biðlista hjá mér. Þetta fyrsta rekstrarár hefur í raun gengið mjög vel. Það hefur auðvitað ekki verið fullbókað alltaf, enda höfum við langan opnunartíma; frá fimm á morgnana til miðnættis alla daga vikunnar. Það eru því margir klukkutímar í boði.

Reynslan af þessu ári sýnir hins vegar að þörfin er til staðar og við þurfum líklega að fara að huga alvarlega að því að stækka kæli- og geymslupláss. Til að ráðast í slíkar breytingar þyrfti að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á húsnæðinu,“ segir Eva.

Hún vill koma því á framfæri að til standi að halda sérstaka Eldstæðisdaga í Fjarðarkaupum 1.–6. nóvember. „Á sérstöku svæði merktu okkur verða eingöngu vörur sem má rekja hingað til okkar. Samhliða er stefnan á að opna sér­staka vefverslun með vörunum sem eru þróaðar hér.“

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...