Erlendar fréttir

30.4.2013 

Alþjóðasamtökin Avaaz – The World in Action hafa að undanförnu vakið athygli á ítrekaðri viðleitni bandaríska líftæknirisans Monsanto til að sölsa undir sig einkaleyfi á matjurtum af ýmsum toga.

 

19.12.2012 
Hollenska þingið samþykkti síðasta fimmtudag lög sem banna minkarækt í landinu. Starfandi minkabú hafa umþóttunartíma til ársins 2024 en þá mun minkarækt verða bönnuð að fullu. Áður,árið 2008, hafði verið samþykkt að banna refarækt og ræktun á chinchillum til skinnaframleiðslu í Hollandi.
29.11.2012 
Friðun rjúpu á afmörkuðum svæðum skilar ekki árangri til að auka stofnstærð. Þetta er mat sænskra vísindamanna, sem og forsvarsfólk norska ríkisskógarins (Statskog). Á nyrstu svæðum Skandinavíu er beitt gjörólíkum aðferðum við veiðar og friðun á rjúpu en þrátt fyrir það er sama mynstur í því hvernig stofnstærðin sveiflast á svæðunum. Þetta kemur fram í frétt norska bændablaðsins Bondebladet.
28.11.2012 
Á síðustu tíu árum hefur bændum í Noregi fækkað um ríflega 17.000. Á síðasta ári fækkaði þeim um hart nær eitt þúsund en 939 bændur brugðu búi á tólf mánað tímabili milli 1. ágúst 2011 og 31. júlí 2012. Það er fækkun sem samsvarar 2,1 prósenti. Norskir bændur voru í lok júlí 44.673 samkvæmt Hagstofu Noregs.
27.11.2012 
Evópskir kúabændur sprautuðu í gær mjólk yfir Evrópuþingið og óeirðalögreglu í Brussel til að mótmæla kjörum sínum. Þeir vilja allt að fjórðungshækkun á mjólkurverði til að mæta auknum kostnaði við framleiðsluna að því er kemur fram á fréttavef BBC.
7.11.2012 
Martin Merrild var í dag kjörinn formaður dönsku bændasamtakanna Landbrug & Fødevarer. Martin er þriðji formaður dönsku bændasamtakanna á tveimur árum en síðustu tveir formenn hafa dregið sig í hlé vegna slysa og veikinda.
23.8.2012 
Í Þýskalandi hefur ræktun á maís til líforkuframleiðslu dregið verulega úr ræktun á hveiti og byggi. Margir bændur í Norður-Þýskalandi hafa tekið akra á leigu í Danmörku, til að rækta maís og það veldur mörgum áhyggjum.
14.3.2012 
Ný fjölónæm bakteríutegund breiðist nú út frá dönskum svínabúum og berst smit í fólk. Bakterían, sem er stafylokokka baktería og ber nafnið CC398, getur valdið lífshættulegum sjúkdómum svo sem lungnabólgu og blóðeitrunum. Þá getur hún valdið ígerðum á stærð við borðtenniskúlur, og bólgum í hjartaokum, beinum og liðum. Engin leið er til að hreinsa dönsk svínabú af bakteríunni nema með því að gefa svínunum meiri sýklalyf en það vilja menn ógjarnan sökum þess að slíkt myndi gera fleiri bakteríutegundir ónæmar fyrir sýklalyfjum. Þetta kemur fram í danska blaðinu Politiken.
5.3.2012 
Á dönsku eyjunni Ærö er geitabóndinn Susanne Larsen með það á stefnuskránni að stofna geitamjólkurbú, þar sem hún hyggst m.a. framleiða geitaís. Susanne er farin að svipast um eftir tækjabúnaði fyrir mjólkurbúið en auk þess að búa til ís ætlar hún að vera með osta- og jógúrtframleiðslu.
2.3.2012 
Japanska fyrirtækið Kubota hefur fengið samþykki samkeppniseftirlits Evrópusambandsins fyrir kaupum fyrirtækisins á norska landbúnaðartækjaframleiðandanum Kverneland. Kubota keypti 78,75 prósent hut í Kverneland um miðjan janúar síðastliðinn. Kubota er gert að greiða kaupverðið innan tíu daga og er jafnframt gert að bjóða í þau hlutabréf í Kverneland sem eftir standa samkvæmt norskri löggjöf um yfirtökuskyldu. Þó getur Kubota ekki krafist þess að fá að kaupa upp hlutabréfin en til þess þarf fyrirtækið að ráð yfir 90 prósenta hlut. Nationen.no greinir frá þessu.
1.3.2012 
Alríkisdómstóll í Bandaríkjunum vísaði á mánudag frá máli félagsskaps lífrænna bænda og seljenda lífrænnar sáðvöru, auk fleiri aðila, á hendur fyrirtækinu Monsanto. Krafa félagskapsins, sem nefnist Organic Seed Growers and Trade Association (OSGATA), með málarekstrinum var að fá úrkurðað að Monsanto væri óheimilt að kæra bændur eða fræsala ef lífrænt korn þeirra yrði fyrir mengun af erfðabreyttu korni Monsanto. Reuters greindi frá.
15.2.2012 
Norskir loðdýrabændur stefna að því að tvöfalda framleiðslu sína á skinnum næsta áratuginn. Markaðsstjóri Sambands norskra loðdýrabænda telur að hátt skinnaverð ætti að vera gulrót til að laða nýja bændur inn í greinina. Þetta kemur fram á vef norska ríkisútvarpsins, nrk.no.
1.2.2012 
Á síðasta ári var nálega 100.000 grísum sem aldir eru í lausagöngu slátrað í Danmörku. Eftirspurnin á heimsmarkaði er hins vegar langtum meiri en framleiðslan. Danskur bóndi sem elur svín með lífrænum hætti telur að minnsta kosti 50.000 grísi vanti til að svara eftirspurninni. Það eru einkum Ástralir sem sækjast eftir dönskum lausagöngugrísum.
1.2.2012 
Danskir svínabændur rækta árlega um 2,5 milljónir sláturgrísa utan Danmerkur. Það samsvarar tíu prósentum af allri framleiðslu svínakjöts í Danmörku. Danskir bændur og fjárfestar hafa byggt upp stórar framleiðslueiningar erlendis sem telja um 100.000 gylltur sem standa undir framleiðslunni. Magnið er svo mikið að það er meira en næststærsta sláturhús Danmerkur, Tican, slátrar ár hvert.
27.1.2012 
Í könnun sem norska mjólkurafurðafyrirtækið TINE lét gera meðal félagsmanna sinna kemur fram að mikill fjöldi kúabænda í Noregi eru óvissir um framtíð sína í greininni. Um þrjátíu prósent þeirra sem svöruðu könnuninni segjast vera í vafa um hvort þeir muni áfram verða við mjólkurbúskap eftir fimm ár. Þetta kemur fram á vef TINE.
25.1.2012 

Danskur dýralæknir, Lene Kattrup, segir að fólk sem vanrækir dýr hirði venjulega hvorki um sig né fjölskyldu sína. Frá þessu er sagt á vefnum landbrugsavisen.dk.

Kattrup, sem er meðlimur siðfræðiráðsins Det Etiske Rad, skrifar í Fyens Stiftstidende að séu dýr vanrækt, er það oft einkenni um að það er miklu meira í ólagi. „Horuð hross, sem eru köld og soltin, eru þannig merki um að það geti eitthvað verið að í fjöldkyldunni eða hjá viðkomandi umsjónarmanni. Það þýðir að viðkomandi er þá ófær um að sjá um hús, garð, börn, konu, vini eða að vera í vinnu,“ útskýrir Kattrup.

Hún segir vanrækslu eiga sér stað á öllum sviðum lífsins, en sé mest áberandi þar sem félagsleg vandamál séu í forgrunni.

29.12.2011 

Á árinu sem er að líða hefur mjólk reynst betri fjárfesting en margt annað – meira að segja betri fjárfestingarkostur en gull! Mjólk var sú hrávara sem hækkaði hvað mest í verði á alþjóðlegum mörkuðum á síðasta ári. Í kauphöllinni í Chicago, þar sem höndlað er með ýmsar hrávörur, hefur mjólkurverð hækkað um 41% á árinu, en kálfakjöt er í öðru sæti með 21% hækkun. Gullverð hefur „aðeins“ hækkað um 15% á árinu samkvæmt frétt Landbrugsavisen.

7.10.2011 
Eftir mikla bjartsýni í danskri svínarækt undanfarin ár og miklar lántökur til stækkunar svínabúa hefur staðan nú snúist við og skuldir bænda og staða viðskiptabanka þeirra er orðin alvarleg.
29.9.2011 
Dönsku bændasamtökin óttast allsherjarhrun í dönskum landbúnaði sökum þess að sífellt erfiðara er fyrir bændur að fá lán í dönskum bönkum. Danskir bankar eiga við verulega erfiðleika að etja vegna stöðu evrunnar og því hafa bændasamtökin áhyggjur að því að bankakerfið standi ekki undir fjármögnun í dönskum landbúnaði mikið lengur. Samtökin vilja koma á fót neyðarsjóði upp á einn milljarð danskra króna sem bændur geti sótt fjármögnun í. Ef það verði ekki gert sé hætta á algjöru hruni í dönskum landbúnaði. Þetta kemur fram á vef viðskiptablaðsins Børsen.

13.5.2011 
„Nei takk“ var svarið sem danskur bóndi á Norður Jótlandi fékk þegar hann leitaði eftir viðskiptum við banka á sínu svæði á dögunum. Í Danmörku er það nú vaxandi vandamál að bændur eru ekki taldir æskilegir viðskiptavinir – þeir þéna ekki nóg og reksturinn er ekki nógu burðugur að mati bankanna. Eins og gefur að skilja gerir þetta bændum afar erfitt fyrir.
31.3.2011 
Formaður dönsku bændasamtakanna, Michael Brockenhuus-Schack, hefur ákveðið að láta af embætti sökum langvarandi veikinda. Eftir baráttu við krabbamein leit út fyrir að Brockenhuus-Schack hefði tekist að sigrast á veikindunum en í janúar síðastliðinn greindist hann með krabbamein á ný og hefur verið í veikindaleyfi síðan þá.
10.1.2011 

Aflétt hefur verið banni við starfsemi og sölu afurða á um 3.000 býlum í Þýskalandi af rúmlega fjögur þúsund sem lokað var eftir að í ljós kom að þar hafði verið brúkað fóður sem innihélt eiturefnið díoxín.

Landbúnaðaryfirvöld í Neðra-Saxlandi afléttu banninu að verulegu leyti í gær og er neytendum ekki talin stafa nein hætta af neyslu kjöts frá þeim.

Áfram nær þó bannið til um 1.470 býla meðan aflað er frekari gagna um útbreiðslu og notkun fóðursins frá fyrirtækinu Harles und Jentzsch, og áhrif þess á dýr og afurðir.

//mbl.is

28.12.2010 
Skyr, samkvæmt íslenskri uppskrift, hefur verið framleitt í Noregi frá haustinu 2009 og hefur sala gengið framar vonum. Norska afurðafyrirtækið Q-meieriene framleiðir m.a. skyr og í byrjun næsta árs er ætlun fyrirtækisins að auka við framleiðsluna.
6.12.2010 
Gosdrykkjarisinn PepsiCo hefur keypt 66 prósenta hlut í rússneska mjólkursamlaginu Wimm-Bill-Dann Foods á 3,8 milljarða dollara eða ríflega 436 milljarða íslenskra króna. Enn á þó eftir að fá samþykki rússneskra yfirvalda á kaupunum. Fyrirtækið stefnir jafnframt á að kaupa upp alla hluti í Wimm-Bill-Dann-Foods þegar frá líður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá PepsiCo.

11.11.2010 
 Þann 4. nóvember kvað hæstiréttur Frakklands upp þann dóm að Alþjóðasamtök búvöruframleiðenda, IFAP (International Federation of Agricultural Producers), skyldu tekin til gjaldþrotameðferðar. Þetta mál mun eiga sér allnokkurn aðdraganda og m.a. tengjast því að hollensk þróunarhjálparstofnun ákvað að hætta framlögum til IFAP sem varið var til ýmissa verkefna í þriðja heiminum. Stjórn IFAP hyggst funda um málið í dag, fimmtudag, í höfuðstöðvunum í París.
20.4.2010 
Evrópusambandið er nú að hefja endurskoðun sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar (Common Agricultural Policy, CAP) en henni á að vera lokið fyrir 2013. Einn liður í því ferli er könnun sem gerð var í öllum aðildarríkjum ESB, 27 talsins, á viðhorfum almennings til landbúnaðar og landbúnaðarstefnu sambandsins. Þar kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti Evrópubúa, eða 90 af hundraði, telja landbúnað og byggðamál mikilvæg fyrir framtíðarþróun í álfunni.

16.3.2010 
2.000 danskir landeigendur hafa frá árinu 2005 fengið landbúnaðarstyrki vegna landnæðis sem ekki var nýtt til landbúnaðar. Meðal landnæðisins sem styrkt var voru vötn, tjarnir og byggingarlóðir sem sannanlega nýtast hvorki til ræktar né sem beitilönd. Frá þessu er sagt á vefritinu Smugunni sem hefur fréttina eftir Jótlandspóstinum.
5.10.2009 

Landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna ætla að hittast í Brussel í dag og ræða ástandið í mjólkurframleiðslu í sambandsríkjunum. Undanfarnar vikur hafa mjólkurbændur hellt niður milljónum lítra mjólkur til að mótmæla kjörum sínum.

Vandamálið sem ráðherrarnir glíma við er, að framboð mjólkur er mun meira en eftirspurnin og verð til bænda hefur lækkað mjög.

Frakkar og Þjóðverjar hafa mælt fyrir því að fallið verði frá áformum um frelsi í mjólkurframleiðslu, en í staðinn verði útflutningsstyrkir auknir og framleiðslukvótar minnkaðir til að draga úr mjólkurframboði.

Þessari leið er breska stjórnin hins vegar andvíg, en ráðherrarnir munu aðeins bera saman bækur sínar í dag; engar ákvarðanir taka.

/mbl.is

16.9.2009 
Á sunnudaginn sl. tilkynnti hin danska Mariann Fischer Boel landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti ESB þá ákvörðun sína að hún sæktist ekki eftir því að verða áfram landbúnaðarráðherra ESB. Ljóst er að Danir fá annað ráðuneyti þegar Fischer Boel hættir, en hún hefur gegnt þessu starfi sl. fimm ár. Nýtt ráðherraráð Evrópusambandsins verður útnefnt í lok nóvember.
10.3.2009 
Í gær bar það til tíðinda á Jótlandi í Danmörku að 10 kg af nýjum kartöflum voru teknar upp á bænum Gartneriet Lundly, norðaustan við Vinderup. Mun ætlunin vera að selja uppskeruna á uppboði í dag en gert er ráð fyrir að kílóverð geti legið nálægt 19.000 íslenskra króna.
Grand Hotel í Struer hefur þegar líst því yfir að það vilji kaupa uppskeruna og mun ætlunin vera að bjóða uppá þær í tengslum við hlaðborð sem hótelið ætlar að bjóða uppá nk. laugardag.
30.1.2009 
Samtök sauðfjárbænda í Bretlandi eru mjög ósátt við nýjar reglur Evrópusambandsins um að skylt verði að merkja sauðfé með rafrænum eyrnamerkjum.  Ástæða þess er fyrst og fremst að bændur telja of mikinn kostnað fylgja upptöku hinna nýju merkja, en skv. reglum ESB ber að merkja allt sauðfé fætt frá og með 1. janúar 2010 með rafrænum merkjum.
19.11.2008 
Francisco Santos Calderon, varaforseti Kólumbíu, skoraði í gær á vel stæða kókaínfíkla í Bretlandi að hætta að neyta þessa fíkniefnis, þó ekki nema vegna þess að framleiðsla þess ylli gríðarlegum umhverfisspjöllum. Kókaínfíklar eru hvergi fleiri í Evrópusambandinu, Guardian segir 810.000 Breta hafa neytt efnisins í fyrra, 14% Breta hafi einhvern tíma notað kókaín.
18.11.2008 
Framkvæmdastjórn ESB vill herða viðurlög gegn ólöglegu skógarhöggi í því skyni að vernda skóga og halda niðri hlýnun andrúmsloftsins. Eyðing skóga er talin eiga verulegan þátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Lagafrumvörp framkvæmdastjórnarinnar ganga út á að fjalla annars vegnar um skógarvernd og hins vegar um að stöðva innflutning á ólöglegu timbri og trjáafurðum sem flutt er til landa ESB.
17.11.2008 
Viðskiptaráðherrar ríkja heims munu koma saman í Genf í næsta mánuði og freista þess að blása lífi í Doha-viðræðurnar um aukið frelsi í viðskiptum milli landa. Þessar viðræður mega teljast helsta niðurstaðan af fundi G20 ríkjanna í Washington á föstudag og laugardag sl. þar sem krafist var að bundinn yrði endi á þráteflið í þessum viðræðum fyrir jól.
13.11.2008 
Massey Ferguson 8690 Dyna VT var í gær útnefnd dráttarvél ársins á landbúnaðarmessunni EIMA á Ítalíu. Nítján landbúnaðarblaðamenn stóðu að valinu en keppnin stóð á milli sjö dráttarvéla. Með sigrinum hefur AGCO, sem er framleiðandi Massey Ferguson 8690, tryggt sér réttinn til að markaðssetja dráttarvélina allt næsta ár sem „Dráttarvél ársins 2009“. Sama dráttarvél bar einnig sigur úr býtum fyrir um viku síðan í atkvæðagreiðslu á vefnum www.traktortech.dk, um nafnbótina „Dráttarvél ársins.“ Er atkvæðagreiðslan á þessum dráttarvélavef raunar samhljóða hinni alþjóðlegu samkeppni varðandi þessar sjö dráttarvélar sem valið stóð um.
12.11.2008 
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur tveggja daga matarbirgðir á Gaza-svæðinu. Stofnunin sér um dreifingu matvæla á svæðinu til um 750.000 íbúa. Formælandi stofnunarinnar segir að matvælin þrjóti á morgun heimili Ísraelsmenn ekki flutninga þangað þegar í stað.
11.11.2008 
Verð á mjólkurkvóta hefur aldrei verið lægra í Danmörku, en á nýafstöðnum kvótamarkaði. Verðið
nú er 1,55 DKK á kg, sem er fjórðungs verðlækkun frá því markaður var síðast haldinn í ágúst.
10.11.2008 

Rannsóknarniðurstöður hafa sýnt að einn kúklingur var smitaður af fuglaflensu á bóndabæ í Sukhothai-héraði Tælands í síðustu viku. Fjölskylda ræktaði þar sautján kjúklinga, sem öllum var slátrað. Yfirvöld lokuðu svæðinu í kringum búið í fimm kílómetra radíus.

Veiran hefur ekki fundist í Tælandi síðan í janúar. Þá voru tilfellin tvö. Kjúklingakjöt hefur ekki verið flutt út frá landinu síðustu fjögur ár, vegna hennar.

Veiran berst ekki auðveldlega í menn.  Fólk hræðast þó að hún geti stökkbreyst og valdið faraldri. Hingað til hafa þeir sem smitast af fuglaflensu komist í beina snertingu við smitaða fugla.

Að minnsta kosti 245 hafa látist víða um heim af vírusnum, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.

/mbl.is

7.11.2008 
Markmið Evrópusambandsins um að koma í veg fyrir að loftslag á jörðinni hlýni meira en um 2°C á næstu árum er að líkindum ekki tæknilega framkvæmanlegt.Sérfræðingar hjá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) segja slíkt markmið erfiðara en ESB haldi fram.

Þó svo pólitískur vilji sé fyrir hendi þá ráða menn ekki yfir nægilega fullkominn tækni svo hægt sé að skipta út mengandi orkugjöfum í náinni framtíð.
6.11.2008 
Því var haldið fram í sænska blaðinu Dagens Näringsliv fyrir nokkrum árum að norskir bændur ógnuðu lífi fátækra bænda í Afríku með öllum þeim opinberu styrkjum sem þeir nytu. Þessu er ekki unnt að svara á annan hátt en þann að sýna fram á að bændur um allan heim eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Um leið verður ekki lokað augunum fyrir því að á samningafundum innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, WTO, í Genf í júlí á þessu ári, um nýja alþjóðlasamninga um búvöruviðskipti, skorti á að fulltrúar nokkurra ríkra landa kæmu auga á þessa sameiginlegu hagsmuni.
5.11.2008 
Samningagerð um breytingar á landbúnaðarstefnu Evrópu­sam­bandsins, í daglegu tali oft kölluð „læknisskoðun“, nálgast nú lokaafgreiðslu, þar sem taka þarf erfiðustu og umdeildustu ákvarðanirnar. Fulltrúar aðildarlanda sambandsins koma saman á næst­unni til að semja um tillögur til að leggja fyrir framkvæmdastjórnina síðar í haust..
4.11.2008 
Nú á að vera unnt að koma í veg fyrir að kjöt sé selt í verslunum ef kælingu þess er ábóta­vant. Merkimiði með innbyggð­um hitamæli á kjötumbúðunum er nýtt vopn gegn slælegri meðferð á kjöti í kæliborðinu. Hitamælirinn, sem komið er fyrir í strikamerkinu, eyðir því ef hitastigið er of hátt. Þar með er ekki unnt að skanna það við afgreiðsluborðið og það kemur í veg fyrir að verslunin geti selt gallað kjöt.
3.11.2008 
Útflutningur Brasilíu á sojabaunum getur átt eftir að dragast mikið saman næsta áratuginn vegna breytinga á veðurfari, að áliti vísindamanna við Unicamp-háskólann í Sao Paulo, sem og opinberu rannsóknastofnunina Embrapa. Verðmæti framleiðslu Brasilíu á hrísgrjónum, kaffi, tapioka (mjöl unnið úr rótarhnýðum manioka-plöntunnar), maís og sojabaunum getur dregist saman um meira en fjórðung ef meðalhitinn í Brasilíu hækkar um eina til tvær gráður á Celsíus fram til ársins 2020. Samanburðartímabilið er hitinn á ýmsum stöðum í Brasilíu á árabilinu 1960-1991.
27.10.2008 
Síðastliðinn laugardag greindu yfirvöld í Hong Kong frá því að óhóflegt magn melamíns hefði fundist í innfluttum kínverskum eggjum. Kína er sem kunnugt er flækt í hneykslismál þar sem yfir 3600 börn hafa veikst og fjögur dáið í kjölfar þess að hafa neytt mjólkurvara sem innihéldu efnið melamín. Að þessu sinni hefur melamín fundist í kínverskum eggjum og er leitt að því líkum að efnið komi í gegnum fóður sem alifuglum hefur verið gefið.
Munu yfirvöld matvæla- og heilbrigðis í Hong Kong nú vera í viðbragðsstöðu og er ætlunin að taka innflutt kínverskt kjöt næst til skoðunar.
23.10.2008 
Á kvótaárinu 2007-8 sem lauk þann 31. mars sl. náðu 20 af 27 ríkjum Evrópusambandsins ekki að framleiða upp í þann mjólkurkvóta sem þau hafa. Alls var framleiðslan 2,6 milljónum tonna mjólkur undir kvótanum, eða 1,9%. Þau aðildarlönd sem mest vantaði uppá að kvótinn væri fylltur voru Rúmenía (-30%), Búlgaría og Litháen (-15%), Svíþjóð (-12%), Ungverjaland (-11%), Grikkland og Lettland (-8%), Eistland (-7%), Slóvakía og Finnland (-6%) og Slóvenía og Bretland (-5%). Athygli vekur hve mörg af löndum Austur-Evrópu ná ekki að fylla uppí landskvótann, þar sem aðstæður til mjólkurframleiðslu eru þar um margt mjög góðar. Svíþjóð og Bretland hafa hins vegar lengi verið í þessum sporum.
21.10.2008 
Veðurfarsbreytingar eru jurtum erfiðari en öðrum lífverum. Jurtirnar geta ekki brugðist við þeim með því að taka sig bara upp og setjast að á nýjum stöðum. Breytingar á vaxtarsvæðum þeirra þurfa að gerast hægt og sígandi.
Sjá má fram á að ýmsar tegundir jurta muni flytja sig norður á bóginn og hærra yfir sjó vegna breytinga á veðurfari og það mun reyna á aðlögunarhæfni þeirra.
Ef meðalhiti í norðanverðri Skandinavíu hækkar um 4°C á næstu 100 árum, eins og spáð er, mun það breyta mikið útbreiðslu jurta. Einstakar tegundir munu bregðast á ólíka vegu við nýjum vaxtarskilyrðum. Sagan sýnir að fjöldi tegunda jurta hefur horfið, oftast vegna breytinga í umhverfinu. Sumar tegundir hafa getað lagað sig að nýju umhverfi og þar með lifað af breytingarnar en aðrar hafa flutt sig til hagstæðari vaxtarsvæða.
20.10.2008 
Bóndi framtíðarinnar í Dan­mörku er kona. Því spáir Jörgen P. Jensen, formaður Sambands búnaðarskóla í Danmörku. Hann telur að eftir tíu ár verði konur í meirihluta meðal danskra bænda, að sögn vefsíðunnar www.landbrug.dk.

Eftir því sem vélar og vélmenni létta fólki meira erfið störf í gripahúsunum snúast störfin sífellt meir um að hlúa að gripunum og láta þeim líða vel. „Bændur segja okkur, að konum sem vinni bústörf sé betur lagið að fást við smá­grísi en karlmönnum,“ segir Jensen. Þetta álit hans fær stuðning frá könnun sem sýndi að kýr, sem konur sinntu, mjólkuðu betur en aðrar kýr.

Sífellt fleiri stúlkur sækja búnaðarskóla af því að þær vilja gjarnan stunda búfjárhirðingu.
Um þessar mundir er verið að endurskipuleggja skólakerfið í Danmörku, m.a. í því skyni að þar verði auðveldara að skipta um námsbraut og leggja fyrir sig búnaðarnám.
16.10.2008 
Í dag, 16. október, er Alþjóðlegur dagur fæðunnar. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna var stofnuð þann16. október árið 1945 og er þessi dagur haldinn hátíðlegur ár hvert af því tilefni. Markmiðin með deginum eru eftirfarandi samkvæmt vef Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna:
15.10.2008 
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska fyrirtækið Dole og þýska fyrirtækið Weichert fyrir verðsamráð við innflutning á banönum. Dole er gert að greiða 45,6 milljónir evra en Weichert og fyrirtækið Del Monte 14.7 milljónir evra.
Del Monte var gert að greiða hluta sektarinnar vegna hludeildar fyrirtækisins í Weichert á þeim tíma sem brotin áttu sér stað. Forsvarsmenn Dole ætla að áfrýja þessari niðurstöðu og vísa því á bug að þeir hafi brotið evrópsk samkeppnislög.
14.10.2008 
Á undanförnum misserum hefur salmonellu-faraldur geysað í Danmörku sem kunnugt er,  lagt yfir 1000 Dani í rúmið og valdið sex dauðsföllum. Salmonella hefur nú fundist í svínakjöti í sláturhúsi í bænum Horsens á Jótlandi. Heilbrigðisyfirvöld segja að þetta sé mikilvægt til að hægt verði að rekja hvar rót faraldursins liggur.
10.10.2008 
Nýtt bætiefni sem heitir Stressless er komið fram, en því er ætlað að hjálpa alifuglum yfir þau tímabil þegar fuglarnir eru hvað verst haldnir af taugveiklun. Fram kemur á fwi.uk.com að bætiefnið, sem ætlað er fyrir allar tegundir alifugla og er í vökvaformi, sé þróað af leiðandi breskum dýralækni, David Spackman. Það inniheldur marvísleg íblöndunarefni sem miða að því að sefa taugaveiklaðan fiðurfénaðinn.
9.10.2008 
Staða matvælaframleiðslu Bretlands verður könnuð til hlítar af nýstofnuðu ráði sérfræðinga, sem ætlað matvælaöryggi þjóðarinnar. Frá þessu greindi Hilary Benn umhverfisráðherra á ráðstefnu um matvælaöryggi heimsins á 21. öldinni í gær.
7.10.2008 
ESB hefur innleitt samræmdar reglur um leyfileg gildi á leifum varnarefna í matvælaframleiðslu. Nýju reglurnar eiga að tryggja það að matvæli, sem framleidd eru í hverju landi ESB, séu örugg til neyslu í þeim öllum. Umhverfissamtök efast um að reglurnar dugi til þess.
Framkvæmdastjórn ESB telur að nýju reglurnar auki matvælaöryggi í öllum löndum sambandsins. Neytendur í Norður-Evrópu eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að jarðarber frá Suður-Evrópu beri með sér hættulegar lyfjaleifar. Fram að þessu hefur hvert aðildarland ákveðið sjálft leyfileg mörk lyfjaleifa hjá sér. Nýju, samræmdu reglurnar auðvelda hins vegar viðskipti, svo sem með ávexti og grænmeti, milli landa. Þær fjalla um u.þ.b. 1100 tegundir varnarefna, sem notuð eru eða hafa verið notuð í eða utan ESB og sýna hæstu leyfilegu gildi leifa fyrir 315 afurðir matvæla. Hið sama gildir um unnar afurðir.
6.10.2008 
ESB hefur innleitt samræmdar reglur um leyfileg gildi á leifum varnarefna í matvælaframleiðslu. Nýju reglurnar eiga að tryggja það að matvæli, sem framleidd eru í hverju landi ESB, séu örugg til neyslu í þeim öllum. Umhverfissamtök efast um að reglurnar dugi til þess.
Framkvæmdastjórn ESB telur að nýju reglurnar auki matvælaöryggi í öllum löndum sambandsins. Neytendur í Norður-Evrópu eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að jarðarber frá Suður-Evrópu beri með sér hættulegar lyfjaleifar. Fram að þessu hefur hvert aðildarland ákveðið sjálft leyfileg mörk lyfjaleifa hjá sér. Nýju, samræmdu reglurnar auðvelda hins vegar viðskipti, svo sem með ávexti og grænmeti, milli landa. Þær fjalla um u.þ.b. 1100 tegundir varnarefna, sem notuð eru eða hafa verið notuð í eða utan ESB og sýna hæstu leyfilegu gildi leifa fyrir 315 afurðir matvæla. Hið sama gildir um unnar afurðir.
2.10.2008 
Kínversk stjórnvöld leyndu upplýsingum um eitraðar mjólkurvörur í marga mánuði. Þetta var gert til að hneykslið varpaði ekki skugga á Ólympíuleikana í Peking. Upplýst var um eitrið melamín í mjólkurdufti í september eftir að leikunum lauk. Þá höfðu margir kínverskir blaðamenn verið kúgaðir til að þegja yfir upplýsingum um að kornabörn hefðu veikst eftir að hafa verið gefin melamínblandaða þurrmjólk til að prótín mældist hærra í mjólkinni.
1.10.2008 
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gert áhættumat vegna melamíns í mjólkurvörum frá Kína. Samkvæmt áhættumatinu er hugsanlegt að samsett matvæli frá Kína innihaldi mengað mjólkurduft. Í áhættumatinu eru tilgreindar nokkrar tegundir matvæla sem börnum getur stafað hætta af ef vörurnar innihalda efnið melamín. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gert áhættumat vegna melamíns í mjólkurvörum frá Kína. Samkvæmt áhættumatinu er hugsanlegt að samsett matvæli frá Kína innihaldi mengað mjólkurduft.
29.9.2008 

Að minnsta kosti sex eru látnir af völdum salmonellufaraldurs í Danmörku en samkvæmt heimildum heilbrigðisyfirvalda þar í landi hafa 840 tilfelli verið skráð í landinu. Sá yngsti sem látist hefur af völdum sýkingarinnar var 33 ára. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.Aðrir sem látið hafa lífið voru 58 , 70, 74 og 85 ára. Verið er að rannsaka dauða þeirra og kanna hvort aðrir sjúkdómar hafi stuðlað að því hversu illa sýkingin lagðist í þá.


25.9.2008 
Furuskógum í Evrópu stafar nú bráð hætta af meindýri sem áður hefur valdið miklum skemmdum á furutegundum í Austur-Asíu. Nú þegar hafa hundruð þúsunda trjáa í Portúgal drepist af völdum meindýrsins. Það eru aðallega tvær evrópskar furutegundir sem gætu átt undir högg að sækja ef meindýrið breiðist út, þ.e. miðjarðarhafsstrandfuran (Pinus pinaster) sem vex í Suður-Evrópu og skógarfuran (Pinus sylvestris) en hin síðarnefnda er útbreiddasta furutegund í Evrópu.
22.9.2008 
Nærri því 53 þúsund kínversk ungbörn hafa veikst í kjölfar þess að hafa drukkið melamín-mengaða þurrmjólk. Samkvæmt kínverskum yfirvöldum hafa flest þeirra náð sér á strik en 12.892  þeirra dvelja enn á sjúkrahúsum.
19.9.2008 
Sveitarstjórnarmenn í Valle sveitarfélaginu sem staðsett er í fylkinu Austur-Ögðum í Noregi eru með á teikniborðinu að byggja 3.000 kinda fjárhús í sveitarfélaginu til að sporna við fækkun sauðfjárbænda á svæðinu.
17.9.2008 
Þrjú börn hafa dáið og á sjöunda þúsund veikst í Kína eftir að hafa drukkið barnamjólk sem gerð var úr mengaðri þurrmjólk. Að auki þjást 158 börn af nýrnabilun. Í 22 tegundum mjólkurdufts hefur fundist efnið melamín, en það er talið vera orsakavaldurinn að þessum hörmungum. Það verður til við framleiðslu á plasti og tilbúnum áburði. Við það eykst köfnunarefnisinnihald mjólkurduftsins og við mælingar kemur fram hátt próteininnihald.
10.9.2008 
Landbúnaðarstjóri ESB, Mari­ann Fischer Boel, stendur við fyrri ákvörðun sína um að fella niður reglur sambandsins um viðskipti með bognar gúrkur sem og ávexti og grænmeti með aðra útlitsgalla.
Meirihluti aðildarlanda sambandsins vill halda núverandi regl­um óbreyttum, en framkvæmda­stjórnin styður Fischer Boel. Hún lagði nýlega fram tillögu um að afnema óþörf afskipti af viðskiptum með ávexti og grænmeti en henni til furðu kom í ljós fjöldi landa innan ESB vildi óbreytt kerfi.
9.9.2008 
Vegna mikils vatnsveðurs um síðustu helgi hafa heilu kornræktarlöndin á Bretlandseyjum lagst flöt undan rigningunni. Hefur þetta orðið til þess að nú er reynt á örvæntingafullan hátt að bjarga því sem bjargað verður.
Ummæli kornbænda víðsvegar um Bretland eru öll á eina lund; það er um neyðarástand að ræða. „Það sem eitt sinn stóð er fallið í jörð og það sem er fallið i jörð er farið að spíra,“ er haft eftir bónda nálægt Worcester. Þar hafði korn vaxið ágætlega en eftir rigningarnar að undanförnu þá hefur kornið tapað gæðum þannig að erfitt er að mala það.
8.9.2008 
Samkvæmt nýrri skýrslu frá ESB mun mjólkurframleiðsla í heiminum fara vaxandi og verðið lækka. Skýrslan byggir á upplýsingum frá OECD, FAO, FAPRI (Food and Agricultural Policy Research Institute) og bandaríska landbúnaðarráðuneytinu.
Í skýrslunni segir að verð á mjólkurvörum muni lækka frá metverði síðustu missera, mjólkurduft um 30%, ostar um 13% og smjör um 13-22%. Hins vegar verði meðalverð næstu tíu ára mun hærra en síðustu tíu ára.
28.8.2008 
Ólíkt því sem gerist í kornræktinni á Íslandi veldur vætutíð á Bretlandseyjum enn og aftur vandamálum og er svo komið að óvissa er um uppskeru á hveitikorni þetta haustið í ákveðnum landshlutum. Þá er óttast að verð muni rjúka upp á því korni sem þó verður þreskjað.  Kaupmenn hafa þó ekki gefið upp alla von.
Ræktarlönd í vesturhluta Bretlands, í mið-vesturhlutanum og í Skotlandi hafa orðið verst úti, en þau sem liggja sunnan til í landinu og í austurhlutanum ættu að hafa sloppið ágætlega, að því er fram kemur í Farmers Weekly  Interactive - vefritinu breska.
18.8.2008 
Spár um afkomu danskra kúabænda fyrir yfirstandandi og næsta ár lofa góðu. Væntanlega eru danskir kúabændur í miðju ári, sem sagan mun dæma sem afburða gott. Mjólkurverðið hefur verið hátt og þrátt fyrir að fóður og önnur aðföng hafi hækkað í verði, lítur út fyrir að rekstrarniðurstaðan verði sú besta nokkru sinni. Hún er þó nokkuð viðkvæm fyrir þróun eignaverðs, en hluti þess í heildarniðurstöðunni er þó mun minni en á sl. ári.
15.8.2008 
Danir hafa farið fram á það við Evrópusambandið að reglur um innflutning á kjöti og eggjum sem borið geta salmonellusmit verði hertar. Vísa Danir til þess að vel hafi gengið að útrýma salmonellu úr framleiðslu kjúklinga- og hænsnakjöts og eggja þar í landi. Þess vegna vilja þeir fá leyfi til að endursenda innflutt kjöt sem ekki tekst að sýna fram á að sé laust við smit.
14.8.2008 
Ef eitthvað er að marka skoðanakönnun sem gerð var á www.landsbrugsavisen.dk hefur um einn af hverjum sjö bændum í hefðbundnum búskap í Danmörku íhugað skipti yfir í lífrænan landbúnað, en um 300 manns gáfu atkvæði sitt í könnuninni.
13.8.2008 
Blaðamenn frá allri Evrópu leggja nú mat á sjö dráttarvélar sem keppa um titilinn besta dráttarvélin árið 2009 og spanna þær bilið frá 145 til 370 hestafla. Í fyrra sigraði New Holland T7060 og mætir aftur til leiks að þessu sinni – en núna keppir hún ekki við neinar venjulegar dráttarvélar.
12.8.2008 
Bandaríska fyrirtækið Monsanto, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði erfðatækni, vill nú selja þann hluta félagsins sem nefnist „Posilac“ og sér um framleiðslu á mjólkurmyndunarhormóninu rBST (Bovine Somatotropin). Vill félagið nú einbeita sér að kjarnastarfsemi þess, sem er framleiðsla á erfðabreyttu sáðkorni ýmis konar, aðallega maís og sojabauna. Þetta kemur fram á vef Landssambands kúabænda.
11.8.2008 
Svínum hefur fækkað um níu prósent á milli ára í Danmörku. Þetta kom í ljós þegar talning fór fram 1. júlí síðastliðinn. Er fjöldi dýra áætlaður samkvæmt stikkprufum sem gerðar voru á 3500 búgörðum.
8.8.2008 
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur gefið frá sér vísindaálit um einræktun dýra. Í álitinu kemur meðal annars fram að einræktun geti haft alvarleg eða banvæn áhrif á heilsu klóna en að ekkert bendi til að kjöt- og mjólkurafurðir unnar úr heilbrigðum einræktuðum dýrum og afkvæmum þeirra hafi neikvæð áhrif á heilsu manna eða umhverfi.
6.8.2008 
Ríkisútvarpið greindi í gær frá skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var fyrir skemmstu á alnæmisráðstefnunni í Mexíkóborg. Þar kemur fram að líklegt er talið að vændi aukist meðal fátækra kvenna í kjölfar ört hækkandi matvælaverðs í heiminum. Af þeim sökum er talið að alnæmistilfellum fjölgi á ný.
29.7.2008 
Doha-viðræðunum svokölluðu, sem miða að auknu heimsviðskiptafrelsi, var slitið á fjórða tímanum í dag án þess að niðurstaða fengist. Samkvæmt nýjustu fréttum fóru viðræðurnar út um þúfur þar sem sendifulltrúar Indlands og Bandaríkjanna gátu ekki komið sér saman um til hvaða ráðstafana skyldi grípa til að vernda bændur í þróunarríkjunum gegn samkeppni við innfluttar vörur frá iðnríkjunum.

/ruv.is
23.7.2008 
Fulltrúar 30 ríkja funda nú í Genf á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) og reyna að leiða til lykta samkomulag um viðskiptafrelsi, þ.á.m. með landbúnaðarvörur. Reynt verður til þrautar að ná samkomulagi milli þróunarlanda og iðnríkja um niðurfellingu á tollum.
2.7.2008 
Hátt í fjögur þúsund manns eru sýktir af salmonellu í Danmörku. Ekki hefur tekist að finna orsakavaldinn en líklegt er talið að sýkt kjöt eigi þar þátt í máli.
Á síðustu vikum hefur Dönum sem þjást af niðurgangi, hita og magaverkjum fjölgað gríðarlega. „Við þurfum að fara aftur til ársins 1993 til að finna annan eins farald af þessu tagi,“ er haft eftir yfirlækni á Statens Serum-stofnuninni
30.6.2008 
Athygli fjölmiðla beinist nú æ meir að því, að framleiðsla lífeldsneytis hafi átt veigamikinn þátt í hækkun á matvælaverði í heiminum að undanförnu. Svasíland í Afríku er dæmigert fyrir stöðu þessara mála. Um 40% þjóðarinnar búa við matarskort en á sama tíma hafa þarlend stjórnvöld ákveðið að hefja framleiðslu og útflutning á lífeldsneyti, sem verði framleitt úr mikilvægustu fæðu íbúanna, jurtinni kassava. Í því skyni hafa þúsundir hektara ræktunarlands verið lagðir undir etanólframleiðslu.
27.6.2008 
Framkvæmdastjórn Evrópusam¬bandsins hefur samþykkt reglugerð til að innleiða tilskipanir ráðsins nr. 90/426/EEC og nr. 90/427/EEC um útgáfu vegabréfa og örmerkingu hrossa og annara hófdýra. Í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórnin sendi frá sér þann 9. júní sl. kemur fram að markmiðið sé að bæta heilbrigði hrossa og annarra hófdýra. Samkvæmt þessari nýju reglugerð verður hestavegabréfið tengt við örmerkingu hrossins og skrá skal í gagnagrunn að vegabréfið hafi verið útgefið með einkvæmu einstaklingsnúmeri fyrir hrossið, sem skal haldast óbreytt alla ævi þess. Einstaklingsnúmerin eru ekki aðeins nauðsynleg vegna reglna um heilbrigði dýra heldur einnig til að uppfylla kröfur um heilsuvernd almennings þar sem hrossum er slátrað til manneldis. Reglugerðin kveður á um að öll hross verði nú að hafa útgefið hestavegabréf innan sex mánaða frá fæðingu. Á sama tíma og hestavegabréfið er gefið út skal hrossið hafa verið örmerkt. Þessar reglur eiga að „nútímavæða“ einstaklingsmerkingakerfi hrossa, sem áður byggði á handgerðri útlitsteikningu af hrossinu.
26.6.2008 
Það er víðar en hér á landi að samþjöppun hefur orðið á matvörumarkaðnum. Fyrr á þessu ári ályktaði Evrópuþingið um að verslanakeðjur í löndum ESB misnotuðu aðstöðu sína. Meirihluti þingsins, þvert á alla stjórnmálaflokka, 439 þingmenn af 785, samþykktu yfirlýsingu þess efnis að innkaupsverði verslana á búvörum væri þrýst óeðlilega mikið niður í ríkjum sambandsins.

Í ályktuninni er framkvæmdastjórn ESB hvött til að rannsaka málið og grípa til aðgerða til að koma böndum á hinn sívaxandi yfirgang verslanakeðjanna gagnvart bændum og öðrum birgjum.
25.6.2008 
Ásamt hækkandi olíuverði og hlýnun andrúmsloftsins er hækkun á verði matvæla og matvæla­skortur hvað mest áberandi í opinberri umræðu í heiminum um þessar mundir. Ráðstefna FAO, landbúnaðarstofnunar SÞ, í Rómaborg snemma í júní sl. er til marks um það.
23.6.2008 
Laxgengd í norskum ám hefur verið á undanhaldi síðustu ár. Talið er að laxastofnar í 45 ám séu þar horfnir og um 400 stofnum, sem eftir eru, er annað hvort ógnað eða þeir á undanhaldi. Laxveiðar á sl. ári voru hinar lélegustu í Noregi í meira en 100 ár og spáð er áframhaldandi hnignun veiðanna.
16.6.2008 
Sú ákvörðun Frakka að banna ræktun á erfðabreytta maísafbrigðinu MON 810 hefur víða vakið mikil viðbrögð. Um 300 vísindamenn og umhverfissinnar á Spáni hafa undirritað áskorun til ríkisstjórnar Spánar, þar sem þeir krefjast þess að Spánverjar fylgi fordæmi Frakka. Á hinn bóginn er Susan Schwab, aðalsamningamaður Bandaríkjanna í WTO-viðræðunum, mjög áhyggjufull yfir ákvörðun Frakklands.
12.6.2008 
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, skrifar í nýjasta tölublað Bændablaðsins um skýrslu OECD og FAO. Þar kemur fram að verð á matvælum sé nú í sögulegu hámarki og komi til með að lækka eitthvað á ný. Verðhækkunin sé samt sem áður varanleg. Grein Ernu fer hér á eftir í heild sinni.
10.6.2008 
Framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að því að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Stefnt er að því að skera niður útgjaldaliði, en það gildir þó ekki um alla málaflokka. Þannig verða auknar fjárveitingar til að tryggja aðgang að orku sem mengar ekki og til umhverfismála. Þá á að hækka framlög til landbúnaðar sem eru þó mikil fyrir.
9.6.2008 
Í nýju tölublaði Bændablaðsins skrifar Þröstur Haraldsson ritstjóri eftirfarandi hugleiðingu um matvælakreppuna í heiminum, sem þjóðarleitogar ræddu á fundum í síðustu viku.

Í liðinni viku hófst mikil fundahrina þjóðarleiðtoga þar sem umræður um matvælaástand heimsins verða í brennidepli. Sameinuðu þjóðirnar riðu á vaðið þegar Matvælastofnun samtakanna, FAO, kallaði til fundar í Rómarborg. Eftir rúma viku hefst fundur Evrópuráðsins, leiðtogafundur ESB, þar sem málið verður á dagskrá; í lok júní verður ráðherrafundur á vegum WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar; snemma í júlí verður leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims, G8; og í haust verður málið á dagskrá allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York.
4.6.2008 
Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Róm um matarkreppuna í heiminum vinnur nú að drögum að neyðaráætlun um niðurfellingu tollamúra, fjárfestingar í landbúnaði í fátækari ríkjum og um neyðaraðstoð. Áætlunin miðar að því að draga úr hungursneyð sem ógnar lífi nærri milljarðs manna.
30.5.2008 
Næstum því helmingur eða 46% sláturhúsa í Frakklandi stenst ekki kröfur ESB hvað hreinlæti varðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá ESB. Í skýrslunni kemur fram að af þeim sláturhúsum sem slátra kjúklingum og kanínum standist 46% ekki lágmarkskröfur hvað hreinlæti varðar og af svína- og nautgripasláturhúsunum er samsvarandi tala 42%. Það eru einkum og sér í lagi minni sláturhúsin sem virðast eiga erfitt með að uppfylla kröfurnar.
Fjórðungur þess kjöts sem fer á markað í Frakklandi eða 1,2 milljónir tonna stenst ekki kröfur og í 9% sláturhúsanna er staðan það slæm að þau eiga á hættu að missa sláturleyfið.
28.5.2008 
Matarskorturinn, sem gerir nú vart við sig í fátækum löndum heims, hefur orðið vatn á myllu þeirra sem vilja útbreiða ræktun erfðabreyttra jurta. Í stórri, nýútkominni skýrslu er talið að slík ræktun leysi ekki málin.
Hungurvandamál í heiminum eru afleiðing aukinnar eftirspurnar eftir matvælum í stórum löndum, m.a. Kína og Indlandi, og notkunar ræktunarlands til framleiðslu á bílaeldsneyti. Þetta hefur valdið stórhækkun á verði matvæla, sem að áliti Alþjóðabankans veldur hættu á átökum í 33 fátækum löndum.
27.5.2008 
Nú er sá árstími þegar menn eru að vinna í áburðargeymslum, haughúsum og vorheysturnum. Í þeim stöðum geta safnast saman gufur sem reynst geta viðsjárverðar. Ein innöndun getur verið banvæn. Banvænn skammtur af brennisteinsvetni, H2S, lamar lyktarskynið.
Það er sem fyrr full ástæða til að vara alla, sem koma nálægt áburðargeymslum og votheysturnum, við hættunni sem af þeim stafar. Þessi hætta hefur ekkert breyst. Farðu yfir alla vinnuferla og gerðu allar hugsanlegar ráðstafanir til að þú og þínir, sem og gripir þínir, verði ekki fyrir skaða.
26.5.2008 
Hvers þarf með til að farsæld ríki í sveitum? Svarið er, að konurnar njóti sín þar. Þetta er boðskapur landbúnaðarstjóra ESB, Mariann Fischer Boel, en hún flutti erindi á málþingi í Wales í lok apríl sl. þar sem hún fjallaði um stöðu kvenna í sveitum.
Konur ráku 25% bújarða í löndum ESB, sem eru 27 að tölu, árið 2005. Á hinn bóginn voru konur 43% af vinnuafli í landbúnaði í þessum löndum, sagði Boel. Þó að hlutfall kvenna, sem reka bú, hafi hækkað nokkuð er það enn hlutfallslega lágt, bætti hún við og lét í ljós áhyggjur af því að konur, einkum hinar yngri, yfirgæfu víða sveitirnar.
20.5.2008 
Í nýlegri frétt LandbrugsAvisen kemur fram að innflutt lífrænt ræktuð epli í Danmörku, sem voru til rannsóknar hjá Árósarháskólanum, var búið að úða með kopar upplausn sem er óæskilegt umhverfinu.
Segir í niðurstöðum um rannsóknina að það sé umhverfisvænna að kaupa hefðbundið danskt epli sem hafi verið úðað 24 sinnum með hefðbundnum efnum en hið koparúðaða innflutta epli. Kemur fram í fréttinni að jafnvel þótt koparúðun sé ekki heimil í Danmörku fá innfluttu lífrænu eplin samt sem áður danska Ø-stimpilinn sem lífræn vara.
16.5.2008 
Samkvæmt nýrri umfangsmikilli könnun á hugmyndum breskra neytenda um lífræna ávexti og grænmeti, ættu framleiðendur lífrænna afurða fremur að einbeita sér að því að ávinna sér hollustu neytenda en að skera niður kostnað við framleiðsluna.

Í könnuninni, sem var gerð af Kent Business School´s Dunnhumby Academy of Consumer Research, kemur fram að fáir framleiðendur lífrænna afurða grænmetis og ávaxta gerðu sér grein fyrir ástæðum þess að fólk kaupir lífrænar afurðir.
8.5.2008 
Fyrir nokkru voru birtar niðurstöður skýrsluhaldsins í Noregi fyrir árið 2007. Þar kemur fram að heilsársbú þar í landi voru á síðasta ári 12.740, sem er fækkun um 864 bú frá árinu áður eða 6,4%. 96,7% mjólkurframleiðenda eru þátttakendur í skýrsluhaldinu og í fylkjunum Vestfold, Telemark og Austur-Agðir eru þátttakan 100%. Á þeim svæðum þar sem þátttakan er minnst er hún um 90%. Meðalbúið í Noregi var á síðasta ári um 18,7 árskýr sem er um helmingi minna en hér á landi. Til samanburðar er meðalbúið í Svíþjóð 54,6 árskýr og 116 árskýr í Danmörku. Stækkunin í Noregi nam á síðasta ári 1 árskú.
5.5.2008 
Að mati nýsjálenska mjólkurrisans Fonterra, verður mjólkurframleiðslan þar syðra 3,5% minni á þessu framleiðsluári sem lýkur 31. maí n.k. Minnkunin nemur um 80 þúsund tonnum verðefna. Mikil úrkoma núna í aprílmánuði kom of seint til að bjarga málunum á Norðureyjunni, sem hefur orðið verst út í þurrkum síðustu mánaða en þar er að finna um 70-80% af mjólkurframleiðslu Nýsjálendinga.
2.5.2008 
George Bush bandaríkjaforseti hefur hvatt þingið til þess að samþykkja áætlun hans um aukna matvælaaðstoð til þriðja heimsins. Um er að ræða 770 milljónir bandaríkjadala eða tæpa 58 milljarða íslenskra króna.
Hækkandi matvælaverð í heiminum hefur vakið mikla reiði almennings í fátækustu ríkjunum og víða hafa brotist út óeirðir. Með þessari aukafjárveitingu segist Bush vilja senda þau skilaboð til umheimsins að Bandaríkin muni leiða baráttuna gegn hungri í heiminum um ófyrirsjáanlega framtíð.
28.4.2008 

Jack Wilkinson, forseti Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda (IFAP), skrifar grein í nýjasta tölublað Bændablaðsins þar sem að fram kemur að staðan á matvælabirgðum heimsins hafi ekki verið verri síðan 1974. Hann segir að ríkisstjórnir og bændur hafi það í hendi sér að geta leyst matvælavandann innan eins eða tveggja ára. Það sem þurfi til sé að samstilla krafta og þróa samhæfða landbúnaðarstefnu sem miða eigi að því að auka verulega matvælaframleiðslu í þróunarlöndunum á næstu fimm árum. Einungis með þeim hætti verði hægt að snúa við þróun í verði á eldsneyti og aðföngum.

Hér að neðan er grein Wilkinson í Bændablaðinu:

21.4.2008 

Evrópusambandið heldur fast við áætlun sína um að lífrænt eldsneyti skuli vera 10 prósent af eldsneyti á bíla árið 2020.
Sambandi gerir þetta þrátt fyrir vaxandi gagnrýni á að lífrænt eldsneyti ýti upp verði á matvælum og dragi úr framleiðslu þeirra.
17.4.2008 

Kanadískir nautakjötsframleiðendur í fjárhagskröggum selja nú hjarðir sínar í umvörpum með það að markmiði að hefja hveitirækt á landsvæðum sínum – og færa sér í nyt miklar verðhækkanir á korni.
16.4.2008 
 
Í yfirlýsingu sem Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa sent frá sér kemur fram að nauðsynlegt sé að breyta nútíma búskaparháttum - og reglugerðum þar að lútandi – til að sporna við hækkandi matvælaverði. Segir þar jafnframt að stighækkandi matvælaverð muni jafnt og þétt leiða til þess að milljónum manna verði fljótlega þröngvað til sárrar fátæktar – verði ekkert að gert.
Í rannsókn sem UNESCO í París stóð fyrir segir að þessi breyting verði að eiga sér stað með aukinni meðvitund um verndun náttúruauðlinda. Þar segir enn fremur að nota verði í meira mæli náttúrulega og vistvæna búskaparhætti. Í því felist t.d. að minnka bilið sem er á milli framleiðslustigsins og neyslustigsins – fækka beri milliliðum.
14.4.2008 
Samkvæmt könnun sem Statistics Canada hefur gert og birti nú fyrir skemmstu þá eiga kanadískir bændur sem framleiða lífrænar afurðir erfitt með að anna eftirspurn. Lífrænt ræktað grænmeti og ávextir eru þannig meðal eftirsóttustu afurðanna í hillum matvöruverslanna.
8.4.2008 
Samkvæmt nýrri könnun meðal danskra neytenda er svínakjöt ekki kynörvandi matur.
4.4.2008 

Ný matvæla- og heilbrigðisreglugerð Evrópusambandsins gerir ráð fyrir að kjöthakk sé fullunnið innan sex daga frá slátrun.

Reglugerðinni virðist m.a. ætlað að vernda neytendur gagnvart hráu kjöthakki, svo sem í formi hins víðfræga „steak tartare“.
28.2.2008 
Finnskir og bandarískir vísindamenn hafa uppgötvað genasamband plantna sem orðið gæti til þess að uppskerur gætu þolað mikla þurrka.

Vísindamennirnir segjast hafa uppgötvað genið sem stjórnar því hversu mikinn koltvísýring plöntur taka til sín. Þetta sama gen stjórnar því einnig hversu mikinn raka þær gefa frá sér.

Plöntur eiga stóran þátt í því að viðhalda jafnvægi í andrúmsloftinu með því að taka til sín koltvísýring úr loftinu. Í miklum þurrkum geta plöntur misst allt að 95 prósent af rakamagni sínu.

Vísindamenn hafa nú fundið það genasamband sem stjórnar þessari útgufun. Þeir vonast til þess að geta breytt plöntum þannig að þær haldi áfram að taka til sín koltvísýring án þess að missa of mikinn raka. Þannig gætu plöntur lifað á mjög þurrum svæðum. Vísir.is segir frá þessu.
22.2.2008 

Umtalsverðar hækkanir voru á áburðarverði í Danmörku í janúar sl. Sem dæmi hækkuðu N-áburðartegundir eins og kalksaltpétur og kalammonsaltpétur um 9-10% frá því í desember. NPK 23-3-10  með Mg, S, B, hækkaði um 10,7% og NP 18-20 um 22,9%. Tvær tegundir lækkuðu milli mánaða, NPK 14-3-15 með Mg, S, B, Cu, um 6,9% og NPK 23-3-7 með Mg, S, B, Cu um 0,9%. Meðfylgjandi tafla sýnir verð á nokkrum tegundum í janúar 2008 og verðbreytingar frá desember 2007, janúar 2007 til janúar 2008 og janúar 2006 – janúar 2008. /EB

DKR/100 kg

Breyting í %

jan.08

des 07-jan 08

jan 07 - jan 08

jan 06 - jan 08

Kalksaltpétur m/u bor

303

3,4%

31,7%

47,1%

Nitro Star

236

9,3%

41,3%

30,0%

Kalkammonsaltpétur 27 m. Mg

225

9,8%

25,0%

32,0%

N-34

285

9,6%

65,7%

69,6%

Þvagefni 46

379

9,9%

36,8%

44,1%

NS 24-7

275

34,1%

28,8%

37,8%

Kalíklóríð 50

280

12,0%

54,7%

68,7%

PK 0-4-21

260

26,8%

65,6%

74,5%

NPK 21-3-10 m. Mg,S,B

311

10,7%

57,9%

59,9%

NPK 14-3-15 m. Mg,S, B, Cu

336

-6,9%

18,7%

24,9%

NPK 23-3-7 m. Mg, S, B, Cu

322

-0,9%

25,0%

32,2%

NP 18-20-0

430

22,9%

88,6%

88,6%

Heimild: Dansk landbrug.


 

27.11.2007 
John Deere stefnir í að vera söluhæsta dráttarvélin í Danmörku í ár. Nú liggur fyrir uppgjör á októbersölunni og sá gulgræni hefur það mikið forskot á New Holland að úrslitin þykja ráðin.

Í Danmörku seldust 53 John Deere vélar í október, New Holland seldi 46 og Massey Ferguson 20. Yfir árið er John Deere með 67 véla forskot fyrstu tíu mánuðina á New Holland. Vélarnar seljast vel í öllum stærðarflokkum þó forskotið sé hvað mest í vélum að stærðinni 40-140 hestöfl. Alls hafa selst 612 John Deere dráttarvélar á árinu en New Holland er öruggur í öðru sæti með 545 dráttarvélar. Töluverður vegur er í þriðja sætið þar sem hið fornfræga merki Massey Ferguson tyllir sér með 327 seldar vélar.
16.11.2007 
Nýja T-7000 dráttarvélalínan frá New Holland var á dögunum útnefnd dráttarvél ársins á Agritechnica landbúnaðarsýningunni í Hannover í Þýskalandi. Vélarnar frá New Holland hlutu einnig gullverðlaun fyrir hönnun en í umsögn segir að vélarnar í T-7000 línunni setji nýja staðla hvað varðar afköst og þægindi. T-7000 línan telur 4 gerðir véla í hestöflum frá 165 til 210 sem allar þykja hljóðlátar og afkastamiklar.
8.11.2007 
Einn stærsti matvælarisi Bandaríkjanna, Cargill, hefur innkallað 450 tonn af nautahakki eftir að yfirvöld fundu dæmi um E. kólí 0157 í kjötsýnum. Þetta er í annað sinn á innan við mánuði að fyrirtækið innkallar kjöt vegna gruns um saurgerlasmit. Þessi tiltekni kólígerill getur verið lífshættulegur mönnum þar sem hann veldur ofþornun og miklum usla í meltingarvegi. Að sögn formælanda Cargill, John Keating, hefur fólk ekki veikst eftir neyslu á kjötinu. "Við vinnum að því að innkalla vörurnar af markaði í nánu samstarfi við Matvælaeftirlitið í Bandaríkjunum," segir John Keating í fréttatilkynningu.
26.10.2007 
Karlmenn leggja meira til gróðurhúsaáhrifa en konur er niðurstaða sænskrar skýrslu sem unnin var á vegum sænska umhverfisráðuneytisins og hefur nú verið birt. Karlarnir eyða meira eldsneyti og borða meira kjöt en konur en hvorutveggja eykur magn gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum.
24.10.2007 
Case IH Magnum hlaut á dögunum virt hönnunarverðlaun sem veitt eru af Arkitektúr- og hönnunarsafni Chicago í Bandaríkjunum. Nýja hönnunin frá Case fékk verðlaun í flokki farartækja en í þeim flokki kepptu ekki minni spámenn en Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA), sem lagði til tunglfar, Mitsubishi, sem sýndi straumlínulagaðan sportbíl og BMW sem kynnti til sögunnar nýtt mótorhjól. 
2.8.2007 
Serbneskur bóndi, sem átti dóm yfir höfði sér, fékk leyfi hjá fangelsisyfirvöldum í heimalandi sínu til að taka naut með sér í refsivistina. Ástæðan var sú að það voru engir aðrir til að annast bola.
1.8.2007 
Vaxandi óánægja er meðal danskra og sænskra innleggjenda hjá  mjólkuriðnaðarfyrirtækinu Arla Foods, með verðið sem fyrirtækið greiðir bændum fyrir mjólkina. Hafa nokkrir stórir framleiðendur hætt sem félagsmenn hjá fyrirtækinu og stofnað samvinnufélagið Danish Dairy, sem ætlað er að flytja út mjólk til Þýskalands, þar sem afurðaverð er talsvert hærra og hefur tekið mið af hækkuðu heimsmarkaðsverði á mjólkurafurðum að undanförnu.
11.5.2007 
Verulegar hækkanir hafa orðið á mjólk og mjólkurafurðum á heimsmarkaði að undanförnu. Að sögn fréttabréfs alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins, Dairy Industry Newsletter, hefur verð á unnum mjólkurvörum og undanrennudufti hækkað um 63% á einu ári, þar af um 42% frá síðustu áramótum.
8.5.2007 
Áhrif veðráttunnar á verðlag landbúnaðarafurða verða æ meiri. Miklir þurrkar og hitar síðasta sumar hafa leitt til hækkandi verðlags á mörgum afurðum. Í Danmörku hækkaði matvöruverð að meðaltali um fimm af hundraði á fyrsta ársfjórðungi en það er mesta hækkun á einum ársfjórðungi frá árinu 2000.
7.5.2007 
Eftir einhvern versta þurrkakafla í manna minnum fór loks að rigna í Ástralíu um helgina. Þurrkarnir hafa víða staðið yfir árum saman og í fyrrahaust var hveitiuppskeran ekki nema þriðjungur af því sem hún er vön að vera. Nú rigndi hressilega en þótt rigningin hafi sums staðar verið 50-100 millimetrar er það ekki nóg, svo mikil voru áhrif þurrkanna orðin.
2.5.2007 
Enn veldur afbrigðilegt veðurfar evrópskum bændum áhyggjum. Að þessu sinni hefur vorið verið heitt og þurrt og í kjölfarið á óvenju mildum vetri leiðir það til þess að tré blómstra töluvert fyrr en vaninn er. Í Danmörku fór eikin að blómstra um miðjan apríl en það gerist yfirleitt ekki fyrr en í endaðan maí eða byrjun júní. Og í gær tilkynnti danska skógræktin að askurinn væri farinn að blómstra en það hefur hann aldrei gert svo snemma.
30.4.2007 
Danski neytendamálaráðherrann hefur ákveðið að fara þess á leit við Evrópusambandið að sett verði það skilyrði fyrir innflutningi á alifuglakjöti til Danmerkur að tíðni salmonellu í því sé ekki meiri en í Danmörku. Þetta myndi hafa veruleg áhrif á kjötsölu milli landa í Evrópu.
27.4.2007 
Lamb Í Japan hefur netverslun orðið uppvís að því að flytja inn um 2.000 lömb frá Bretlandi og Ástralíu, klippt þau og selt sem kjöltuhunda. Upp komst um svindlið þegar þekkt japönsk leikkona kom fram í sjónvarpsþætti og sýndi myndir af hundinum sínum sem var þeirrar ónáttúru að hann gelti ekki og harðneitaði að éta venjulegan hundamat.
25.4.2007 

Fjörtíu þúsund heimili í dreifbýli í Danmörku fá aðgang að breiðbandi innan þriggja og hálfs árs og verða þá öll heimili í landi komin í samband við háhraðanet. Um það hefur náðst pólitískt samkomulag milli ríkisstjórnarinnar, Sósíaldemókrata, Radikale og Sosialistisk Folkeparti.

18.4.2007 
Þeir sem hafa áhuga á að styrkja vöðvana ættu að drekka mjólk. Það er niðurstaða kanadískrar rannsóknar sem gerð var á gildi mjólkur fyrir þá sem stunda líkams- og vaxtarrækt. Hún leiddi meðal annars í ljós að jákvæð áhrif mjólkur á vöðvastyrkingu eru tvöfalt meiri en af neyslu sojadrykkja.

9.3.2007 
Hitnun andrúmslofts veldur því að sjúkdómar sem áður voru eingöngu í vanþróuðum ríkjum berast norður og valda tjóni í iðnríkjunum. Búfjársjúkdómar sem áður voru bundnir við Afríku dreifast nú um Evrópu. Þannig hefur veirusjúkdómurinn "blátunga", sem berst með skordýrum fundist í nautgripum og sauðfé í Hollandi, Belgíu , Frakklandi og Þýskalandi.
5.2.2007 

Með breyttum viðhorfum og betri aðbúnaði búfjár er unnt að stórdraga úr notkun fúkkalyfja, segir í nýrri danskri rannsóknarskýrslu.

2.2.2007 

Á síðastliðnu ári var fjöldi sauðfjár sem rándýr drápu á afréttarbeit meiri en nokkru sinni fyrr. Alls voru greiddar bætur fyrir 37.400 fjár sem er um 13% aukning frá árinu áður. Bæturnar námu 65,2 milljónum norskra króna eða hátt í 700 milljónir íslenskar Fjöldi vetrarfóðraðs fjár í Noregi er um ein milljón sem er um tvöfalt meira en hér á landi.

15.1.2007 

Austurríki verður leyft að standa við bann sitt við ræktun á erfðabreyttum maís. Ráðherraráð ESB ógilti ákvörðun Framkvæmdastjórnar sambandsins.

25.9.2006 
Fimm rúmenskir bændur eiga yfir höfði sér þungar fjársektir eftir að lögregla fann hassjurtir á ökrum þeirra. Við yfirheyrslur játuðu þeir að hafa um alllangt skeið fóðrað kýr sínar á þessum jurtum. „Við ræktuðum þessar plöntur af því kúnum fannst.....
7.9.2006 
Útdráttur erlend frétt
1.9.2006 
Útdráttur erlend frétt.
1.9.2006 
Útdráttur erlend frétt.
1.9.2006 
Útdráttur erlend frétt.

 

Hugnast þér nýtt fyrirkomulag á búfjáreftirliti?
Nei
Hef ekki myndað mér skoðun.
 
Svara

Skoða niðurstöður