Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Hún Ólöf Kolbrún Guðbrandsdóttir hefur aldeilis ekki slegið slöku við í lífinu og leikið vel úr öllum þeim gjöfum sem henni voru færðar í vöggugjöf. Hún er hress í lund og vel ern, kona af bestu gerð.
Hún Ólöf Kolbrún Guðbrandsdóttir hefur aldeilis ekki slegið slöku við í lífinu og leikið vel úr öllum þeim gjöfum sem henni voru færðar í vöggugjöf. Hún er hress í lund og vel ern, kona af bestu gerð.
Mynd / SP
Viðtal 22. mars 2024

„Svo dansaði ég“

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Undir fallegum himni vorsólarinnar, í Bæjarsveit Borgarfjarðar, blasa við grösugar lendur þar sem stendur þyrping húsa. Meðal þeirra má finna bæði jarðirnar Bæ og Nýjabæ ll þarsem kjarnakonan Ólöf Kolbrún Guðbrandsdóttir hefur alið manninn nú á nítugasta ár.

Olla um tvítugt situr hér fyrstuverðlauna
hryssuna Áshildi, sem er þarna 6-8 vetra að aldri.

„Foreldrar mínir, þau Kristín Sveinbjarnardóttir og Guðbrandur Júlíusson, hófu búskap á Nýjabæ ári eftir að ég fæddist,“ segir Ólöf, betur þekkt sem Olla, en hún er fædd í Bæ. „Faðir minn og bróðir hans keyptu jörðina Bæ ásamt afa mínum, og henni var svo skipt í Nýjabæ, Laugabæ og Bæ. Ég var einkabarn foreldra minna og snemma farin að taka þátt í öllu sem á gekk enda sveitastelpa af lífi og sál. Við vorum með kindur, kýr, hross eins og þurfti – vinnuhross – en áhugi minn á hrossarækt sem slíkri kemur frá frumbernsku enda farin að ríða út óhrædd þriggja, fjögurra ára. Ung eignaðist ég mína fyrstu hryssu og áttaði mig fljótt á því að til þess að fá góðan hest þurfti maður að eiga góða meri sem er grunnurinn. Afi gaf mér svo, þegar ég var 11–12 ára, óskaplega góða, ótamda hryssu sem er grunnurinn að allri minni hrossarækt, enn þann dag í dag. Það var hún Draugsa.“

Olla segist ekki hafa verið gömul þegar hún áttaði sig á hversu karllægur hrossabransinn var. „Þetta er karlaveldi og mjög óréttlátt. Þetta hefur breyst auðvitað aðeins síðan ég var, við vorum bara tvær konurnar hér í Borgarfirði sem tömdum og sýndum hross – og mögulega á landsvísu. Það þótti ekki tilheyrilegt að konur stæðu í svona löguðu. Enda menn ekki sáttir þegar konurnar unnu verðlaun.“

eftirlætishrútur Ollu hlaut fyrstu verðlaun á hrútasýningu, ársgamall, lappastuttur og sterklegur.
Dansinn dunar og hjartað slær

Olla var í farskóla og svo í Reykholti og á Laugarvatni auk Húsmæðraskólans á Blönduósi einn vetur. „Ég fór svo að vinna að vetrarlagi í Reykjavík yfir nokkur ár og því ekki í hestunum yfir háveturinn. Ég vann meðal annars á hótelum, í verslunum og á saumastofum, sem var sérstaklega gott því þar var hægt að vinna í akkorði og þannig vel útborgað. Svo dansaði ég,“ segir Olla dreymin.

„Það var það skemmtilegasta sem ég gerði, að dansa, þá helst sex kvöld vikunnar, meðal annars á Hótel Borg, þar sem Raggi Bjarna var oft, svo í Þjóðdansafélaginu og bara hvar sem var enda er ég mikið dansfífl. Alveg yndislegur tími. Maður fann staði sem hægt var að komast inn á á hverjum degi ef maður smeygði sér aðeins fyrir horn. Þarna var ég rúmlega tvítug og þetta var góður tími. Ekkert nema vinna og að skemmta sér.“ Olla bætir við að þar sem hannyrðirnar hafi alltaf legið vel fyrir henni átti hún það til að sauma sér nýja flík úr efnisbút, eftir vinnu og fyrir dansskemmtanir kvöldsins!

„Maðurinn minn kom svo inn í myndina aðeins seinna, hann hét Reynir Guðmundsson en við áttum því miður ekki langan tíma saman. Hann lést úr krabbameini rétt fyrir fimmtugt, árið 1987, en við eignuðumst tvo drengi sem voru þá á unglingsárunum.

Hann var að vinna fyrir Rafveitu ríkisins þegar við féllum hugi saman, en alinn upp á Sauðárkróki og við kynntumst í Borgarfirði. Áttum það sameiginlegt að þykja gaman að dansa og gerðum það eins oft og hægt var,“ rifjar Olla upp.

Einn silfurpeninganna sem merktir eru Heiðursverðlaun fyrir besta hrút
Með verklagni og listfengi í blóðinu

Aðspurð segir Olla rosalega byltingu hafa orðið í sveitastörfunum frá því að hestar hafi einungis verið notaðir og þegar traktorarnir komu til sögunnar. Árið 1951 keypti faðir hennar svo bíl, sem hún segist þó aldrei hafa fengið að keyra nema á túnunum fyrstu árin, ekki vegunum, og hlær að minningunni. Vel hafði verið passað upp á það. Pabbi hennar var hagleiksmaður bæði á járn og tré auk þess að vera uppfinningasamur, en Olla minnist þess
er hann setti upp súgþurrkun í hlöðunni árið 1955, einna fyrstur bænda.

Faðir Ollu, Guðbrandur, kenndi dóttur sinni ungri að smíða skeifur og þær smíðaði hún og járnaði öll sín hross. Var Guðbrandi fleira til lista lagt en lagni við smíðar en hann hlaut meðal annars silfurpeninga fyrir bestu hrútana í Andakílshreppi tvisvar sinnum í röð.

Þau verðlaun voru veitt með fjögurra ára millibili og segir Olla að bú þeirra Reynis hafi einnig hlotið tvær slíkar. „Að vísu er mitt nafn á silfurpeninga hvergi skráð, enda áttu konur ekki að eiga heiður að slíku. Pabbi er þarna skráður og svo Reynir, maðurinn minn, sem eiga þennan heiður greinilega. Ég er þó afar stolt af þessu. Einnig hafa kýrnar á bænum hlotið verðlaun fyrir góð nyt og ég er ekki síður stolt af þeim.“

Heimili Ollu ber þess greinileg merki að þarna fari mikil og farsæl kona. Verðlaunapeningar, bikarar og viðurkenningar fyrir stórfenglegan feril í hrossarækt fylla stóran hluta heimilisins, allt snyrtilega framsett og vel skipulagt. Mikið stofustáss er einnig skenkur sem faðir hennar smíðaði á sínum tíma, veglegur og fallegur og í miklu uppáhaldi Ollu. Greinilegt er að þarna hefur farið reglulegur hagleiksmaður með töfra í blóðinu sem húsfreyjan á Nýjabæ ll hefur hlotið í arf. „Ég veit ekkert hvers vegna mér hefur gengið svona vel með dýrin. Það er misjafnt hvað fólk tengir mikið við skepnurnar,“ segir Olla, „en það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér.“

Hún ræktar enn hrossin en þau eru í umsjón eldri sonar hennar og tengdadóttur sem búsett eru í Mosfellsbæ. Þau sem eru á járnum eru því í Mosfellsbænum en í gegnum stóra gluggana hjá Ollu má sjá útigangshross á gresjunni enda nýtur hún þess að horfa yfir ríkidæmið sitt.

Stóðhesturinn Nói hlaut m,a. efsta sætið á Fjórðungsmótinu Faxaborg árið 1975, en hér tekur Olla við verðlaununum.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt