Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gamli Þingvallavegurinn var lagður seint á 19. öld, frá Geithálsi við Suðurlandsveg og austur til Þingvalla.
Gamli Þingvallavegurinn var lagður seint á 19. öld, frá Geithálsi við Suðurlandsveg og austur til Þingvalla.
Lesendarýni 29. júlí 2019

Gamli Þingvallavegurinn

Höfundur: Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Bjarki Bjarnason, forseti bæjarstjórnar
Mosfellsbæjar.

Þann 13. júní sl. birtist í Bændablaðinu grein eftir Hjört L. Jónsson sem heitir Friðun vega er vanhugsuð framkvæmd. Þar er einkum fjallað um fyrirhugaða friðlýsingu á Gamla Þingvallaveginum á Mosfellsheiði sem Hjörtur telur vera vanhugsaða, einkum vegna þess að akstur um veginn myndi halda frostlyftingu hans í skefjum. Í þessu greinarkorni set ég fram skoðanir mínar og rökstuðning fyrir því að friðlýsingin sé framfaraskref og hið þarfasta verk. 

Gamall fyrir aldur fram 
 
Gamli Þingvallavegurinn var lagður seint á 19. öld, frá Geit­hálsi við Suðurlandsveg og austur til Þingvalla. Hann var tímamótaframkvæmd á sinni tíð, beinn og breiður, upphlaðinn á köflum, með vatnsræsum, brúm og vörðum, fær hestvögnum og einnig bifreiðum þegar bílaöld rann upp á Íslandi.  
 
Þrátt fyrir að vegurinn væri nútímalegur á sinni tíð urðu það örlög hans að fá nafnið Gamli Þingvallavegurinn fyrir aldur fram. Ástæðan var sú að í tengslum við Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 var lagður nýr akvegur úr Mosfellsdal austur til Þingvalla, um svipaðar slóðir og Þingvallavegurinn (nr. 36) liggur nú á dögum. Um skeið var hægt að nýta báða vegina yfir heiðina, meðal annars var það ætlunin á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 17. júní 1944. Stórrigning setti svip sinn á hátíðahöldin, eldri vegurinn varð ófær vegna aurbleytu og ljóst að tímar hans sem akvegar voru liðnir.
 
Síðustu áratugina hefur viðhaldi Gamla Þingvallavegarins ekki verið sinnt en hann hefur verið notaður sem göngu-, reið- og hjólaleið og einnig af fólki á torfæruhjólum og bifreiðum. Á köflum er vegurinn ófær öllum bílum og þar hafa myndast ökuslóðar til hliðar við hann. 
 
Friðlýsing er framfaraskref 
 
Gamli Þingvallavegurinn hefur mjög mikið varðveislugildi, hann er lengsti og heillegasti hestvagnavegur landsins og stórkostlegar minjar um verklag og vegagerð á horfinni öld. Við veginn eru einnig rústir sæluhúss sem var byggt seint á 19. öld og væri afar þarft verk að endurbyggja það.
 
Vegna aldurs síns er Gamli Þingvallavegurinn friðaður sam­kvæmt lögum um menning­arminjar frá árinu 2012 en nú eru uppi hugmyndir um að stíga skrefið lengra og friðlýsa veginn. Vegurinn liggur um þrjú sveitarfélög, að stærstum hluta um Mosfellsbæ en einnig um Grímsnes- og Grafningshrepp og Bláskógabyggð. Öll þessi sveitarfélög hafa lýst yfir vilja sínum um að kanna möguleika á friðlýsingu vegarins. 
 
Minjastofnun Íslands mun annast friðlýsingarferlið, fyrst verður gerð úttekt á öllum þeim minjum sem er að finna á veginum og við hann. Einnig þarf að huga að eignarhaldi vegarins, taka ákvörðun um viðgerðir og viðhald hans og setja reglur um umferð, til dæmis hvort heimilt verði að aka þar um á vélknúnum ökutækjum. Við friðlýsingu öðlast mannvirkið hærri sess með upplýsingamiðlun og merkingum og almenningi verður gerð grein fyrir því hvað sé leyfilegt þar og hvað ekki. 
 
Reynslan hefur margoft sýnt okkur að friðlýsingar á landsvæðum og mannvirkjum hafa í för með sér bætta umgengni og aukna fræðslu og þekkingu á náttúru og sögulegum minjum. Sú verður einnig raunin með friðlýsingu Gamla Þingvallavegarins á Mosfellsheiði. 
 
 
Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...