Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Er eignarhaldið á Íslandi að tapast í hendur útlendinga?
Mynd / HKr.
Lesendarýni 28. nóvember 2019

Er eignarhaldið á Íslandi að tapast í hendur útlendinga?

Höfundur: Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra

Land er að verða gulli dýrmætara í veröldinni og landi fylgja auðlindir og margvísleg réttindi. Með EES-samningunum fengu 480 milljónir manna sama rétt og við til að kaupa hér land, engar undanþágur var samið um. Alþingi setti hins vegar svokölluð „girðingarlög“, sem áttu að torvelda kaup útlendinga en urðu lítil fyrirstaða og nú engin og sumu í þeirri lagasetningu hafnaði ESB.

Ég minnist þess í aðdraganda EES að Steingrímur Hermannsson, þá fyrrverandi forsætisráðherra var í sjónvarpsviðtali, hann sat við fallega lækjarsprænu í grænni lautu og tuggði strá og ræddi um að við Íslendingar yrðum að verja okkar land og eiga landið sjálfir. Svo fór hann mörgum orðum um fegurðina, laxveiðiárnar og að um land yrði barist í framtíðinni.

Nú er EES-samningurinn lofaður og gæði hans eru takmarkalaus hjá mörgum fræðimönnum og  stjórnmálamönnum. En gallar EES-samningsins eru sjaldan ræddir en eru alltaf að koma betur og betur í ljós.

Í upphafi snerist hann um fisk og viðskipti afurða inn í Evrópu, jú fjórfrelsið, frjálsa för peninga sem hér um bil gerði Ísland gjaldþrota. EES-samningurinn hefur snúist marga hringi og yfirtekið fleira og fleira, löggjöfin heimabökuð í Brussel nú komin með arma og klær; yfirtekur fleiri og fleiri svið.

Lög og reglur í pósti frá Brussel

Við fáum löggjöf og reglugerðir sendar í pósti frá Brussel í þúsunda vís og allt rennur þetta í gegnum Alþingi eins og lækjarspræna –stimplað og afgreitt.

Embættismenn  ráðuneytanna mata þingið og hræra grautinn og hann er súr. Landbúnaðurinn sem ekki átti að fjalla um í EES geldur stórra fórna þar og í tollasamningum. Lífsafkoma bændanna er að bresta í stórum héruðum, jarðir falla úr ábúð eða ríkir menn koma og bjóða gull og græna skóga, auðmenn sem sjá jarðirnar í nýju ljósi innlendir eða þá erlendir menn frá Evrópu eða Kína.  

Óðalslöggjöf Norðmanna

Norðmenn verja sínar sveitir. Norðmenn í EES búa við annað hugarfar, brenndir af styrjöldum minnugir þess að þeir eiga að byggja landið allt. Þeir gera ekki kröfu um stórbúskap en vilja hafa fólk sem lifir og starfar á bændabýlunum. Þeir eiga sér Óðalslöggjöf og vilja sína þjóð ráðandi í landinu. Þeir eiga grunnauðlindalöggjöf um auðlindir og landsbyggð sína.

Alltof frjálslind löggjöf um búsetu

Sá er þetta ritar var landbúnaðarráðherra um langa hríð á miklum uppgangstímum í sveitunum. Þá var svo komið að tvær hindranir í jarðakaupum voru ekki taldar standast lengur, annars vegar forkaupsréttur sveitarfélaga, hann var talinn stangast á við stjórnarskrá og mannréttindi. Hitt var krafa um að eigandi jarðar yrði að byggja jörð sína sjálfur eða hafa leiguliða. Hvort tveggja var fellt út úr löggjöfinni.

Það er full ástæða til að harma bæði eigið gáleysi á þessum tíma og alltof frjálslynda löggjöf um búsetu og jarðalög sem Alþingi setti þá. En fáir virtust þá hafa áhyggjur af erlendri eða innlendri auðsöfnun í jarðakaupum, sem segir að bæði greinarhöfundur, þingmenn og ráðherrar þess tíma voru bláeygir.

Liggur fiskur liggi undir steini?

Eru Kínverjar að koma inn um bakdyrnar? Jarðir eru nú keyptar í kippum og auð­lind­ir í leið­inni, hvort laxinn er fyrirsláttur og eða markmiðið eða þá að annar fiskur liggi undir steini? Þar er átt við kaup á landi og yfirtaka fleiri auðlinda, sem kemur von bráðar í ljós.

Hvað vakir fyrir Jim Ratcliffe hinum breska, er það bara laxinn? Spurt er hvort hann sé að þvo silfrið? Jim Ratcliffe hefur þegar keypt Grímsstaði á Fjöllum sem Núbó, kínverskur auðmaður, ætlaði sér en menn utan EES máttu ekki kaupa land hér nema með undanþágu, og Ögmundur Jónasson o.fl. stöðvuðu hann.

Hvað með Finnafjörð og Kín­verja? Hvers vegna minnir allt hjá Ratcliffe á víkingana  í útrásinni, flóknir kóngulóarvefir og hlutafélög?

Eðlilega dettur mörgum í hug að Ratcliffe sé leppur Kínverja sem sjá Ísland í hillingum. Kínverja munar ekkert um að byggja íslenskar bújarðir með kínverskum bændum sem búa með sauðfé og flytja afurðir sínar um Finnafjörð til Kína. Svo langt gengur þessi ríkasti maður heims að hann heggur í hlaðvarpann á Gunnarsstöðum þar sem vinstrimaðurinn og forseti Alþingis er fæddur. Steingrímur J. Sigfússon, það er nærri þér og þinni fjölskyldu höggvið? Nú reynir á stjórnvisku þína og sitjandi Alþingis.

Eina örugga svarið sem við eigum er að byggja landið allt og nú ber að gera það vegna nýrra ógna og ekki síst  tækifæra sem landbúnaðurinn hér í norðri á og ferðaþjónustan skapar. Nýtt landhelgisstríð er hafið, lífbeltin eru tvö sem við þurfum að verja til að vera frjáls þjóð, hafið og landið sjálft.

„Botninn er suður í Borgarfirði,“ sögðu Bakkabræður en hvar botninn er til að stöðva leka tunnuna í jarðamálum er flókið mál.

Eru til úrræði sem ESB fellst á í gegnum EES að stöðva yfirtöku peningavalds og útlendinga á bújörðum?
Er hægt að taka EES-samninginn upp og fá undanþágu?

Er ekki full ástæða til að rannsaka landkaupamálið mikla á norðausturhorninu hver er sannleikurinn og hvert er markmiðið?

„Enginn má undan líta“

Kannski verða örlögin þau að þegar við vöknum upp af þessum vonda draumi er aðeins eitt ráð; að segja EES-samningnum upp? Og að taka allt land í eigu þessara auðmanna eignartaki? Eða þá hitt að við töpum landinu og þar með dýrmætum auðlindum og frelsi þjóðarinnar.  „Enginn má undan líta“, landið er að tapast og Kveikur RÚV sýndi okkur það, en kannski var það bara ísjakinn sem sást.

Hvað vill þjóðin gera? Hvað vill Alþingi gera? Hvað er hægt að gera? Hér þarf snör handtök. Málið er dauðans alvara. Enginn þarf að ímynda sér að Íslendingar hafi sérstakan áhuga á því að enda sem landlaus þjóð í eigin landi. Engum þarf að detta í hug þegar næsta kynslóð horfir yfir farinn veg eftir fimmtíu ár að hún dáist að virðingarleysi okkar og skammsýni. Að þá sé hún Snorrabúð stekkur og auðvald heimsins með eignarhald á jörðum forfeðranna. Þyrlur og einkaþotur verði farartæki þeirra og gullkeðjur í hliðunum við bændabýlin smáu.  Og þar standi á rauðu skylti „do not entrance sign.“  Kjörnum fulltrúum þjóðarinnar leyfist ekki að líta undan og framhjá því sem nú er að gerast í sveitum þessa lands. Bújarðir og þar með auðlindir veiðiánna, vatns og orku eru komnar á alþjóðlega útsölu á Íslandi.

Guðni Ágústsson,
fyrrverandi
landbúnaðarráðherra

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...