Mynd/Bbl.
Fréttir 04. október 2019

Sauðfjárslátrun: Fallþungi sá sami og í fyrra

Ritstjórn

Landssamtök sauðfjárbænda greina frá því á vefsíðu sinni að um mánaðamótin hafi alls verið búið að slátra 246.000 dilkum á yfirstandandi sláturtíð. Það er 12.500 lömbum færra en á sama tíma í fyrra. Alls er búið að slátra 11.000 fullorðnum gripum það sem af er sláturtíð.

Fallþunginn í ár virðist vera sá sami núna og á sama tíma í fyrra. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hann 16,79 kg en var 16,80 kg í fyrra. Einkunn fyrir gerð á landinu er sömuleiðis mjög áþekk, segir á vef LS, eða 9,11 í fyrra á móti 9,12 í ár. Fitumatið er heldur lægra í ár, er 6,33 á móti 6,40 í fyrra.