Fréttir 09. ágúst 2018

Landbúnaður og ofnýting auðlinda skaðlegri líffræðilegum fjölbreytileika en hlýnun jarðar

Vilmundur Hansen

Í niðurstöðu rannsóknar sem birt var í Nature segir að líffræðilegum fjölbreytileika í heimunum stafi mun meiri ógn af landbúnaði, of- og ólöglegri nýtingu á villtum plöntum og dýrum en hlýnun jarðar.

Í Nature segir að í umræðunni um hnignun líffræðilegs fjölbreytileika sé of mikið gert úr hlut hlýnunar jarðar og litið framhjá aðalsökudólgnum sem er landbúnaður og nytjar á villtum plöntum og dýrum eins og skógarhögg og fiskveiðar.

Í niðurstöðu rannsóknarinnar segir að í dag stafi um 75% dýra- og plöntutegunda í heiminum hætta af landbúnaði og ofnýtingu en 17% af völdum hlýnunar jarðar. Á sama tíma stafar villtum dýrum og plöntum einnig ógn af útbreiðslu borga og samgöngumannvirkja, ágangi ferðamanna, námu- og gasvinnslu.