Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Framboðin svara bændum um kolefnisbindingu
Mynd / BBL
Fréttir 18. október 2017

Framboðin svara bændum um kolefnisbindingu

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Það er mikið í húfi fyrir Ísland að minnka kolefnislosun og gera áætlanir um kolefnisbindingu. Bændur hafa lýst sig reiðubúna til þess að taka þátt í slíkum verkefnum.

Bændablaðið sendi spurningar um landbúnaðarmál til allra þeirra framboða sem bjóða fram lista í komandi alþingiskosningum. Nú er komið að loftslagsmálunum og spurt sérstaklega um aðgerðir til að auka kolefnisbindingu.

Spurt var: Hvað ætlar flokkurinn að gera til að auka kolefnisbindingu á næsta kjörtímabili?
 

Viðreisn

„Fráfarandi ríkisstjórn hóf vinnu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum síðastliðið vor. Nauðsynlegt er að að fylgja þeirri vinnu eftir af festu á næstu árum. Þegar er ljóst að miklir möguleikar eru á að ná árangri í kolefnisbindingu með endurheimt votlendis, uppgræðslu lands og skógrækt. Til þess þarf að tryggja fjármagn. Bændur, sem vörslumenn lands, geta og eiga að spila stórt hlutverk í því verkefni, enda búa þeir yfir viðeigandi þekkingu og reynslu. Rétt er að hafa þetta hlutverk að leiðarljósi við endurskoðun búvörusamninga.“

 

Dögun

„Hvetja til aukinnar skógræktar og landgræðslu.“

 

 

Samfylkingin

„Á gildistíma Parísarsamkomulagsins, frá 2021 til 2030 þurfa Íslendingar að draga úr losun í áföngum um allt að 40%. Náist það ekki verður að kaupa loftslagsheimildir fyrir milljarða króna. Einboðið er að fara allar leiðir til að ná þessu marki. Hugsanlegt er að með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis mætti ná um 10–15%, og þar horfir Samfylkingin til þátttöku bænda sem bæði hafa þekkingu og aðstöðu til slíkra verka. Málið snýst líka um samdrátt hefðbundinnar losunar, þar á meðal í landbúnaði. Tæknilegar og rekstrarlegar breytingar blasa því við í greininni.“

 

Miðflokkurinn

„Ýmislegt má gera til að auka kolefnisbindingu og þar geta vörslumenn landsins haft forystu. Þar getur landbúnaðurinn eða landbúnaðartengdar greinar skipt miklu, s.s. aukin landgræðsla og skógrækt. Þá má endurheimta votlendi þar sem það á við. Ekki má heldur gleyma því að landbúnaðurinn líkt og flestar aðrar atvinnugreinar geta gert betur í því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.“

 

Framsóknarflokkurinn

„Mikilvægt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að ná loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins til að tryggja að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5°C. Stjórnvöld skulu setja sér skýra stefnu í þessu málum þar sem markmiðið er kolefnishlutlaust Ísland.

Framsókn vill stuðla að aukinni rafvæðingu samgangna, með fjölgun hleðslustöðva um allt land og raftengingum skipa í höfnum, minni matarsóun ásamt því að leggja áherslu á aukna bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu. Bændur geta svo sannarlega átt þar mikinn hlut að máli, bæði með aukinni bindingu og minni losun.“
 

Flokkur fólksins

„Styðja skynsamar hugmyndir.“ 

 
 

Sjálfstæðisflokkurinn

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram hugmyndir og tillögur um skipulegar aðgerðir til að minnka losun og auka bindingu.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá sérstöðu að vilja flétta saman verkefni á þessu sviði við byggðamál, landbúnaðarsamninga.  Þannig að samfélagið fjárfesti í aðgerðum sem bændur geta unnið að og þannig tekist á við þetta stóra verkefni sem lofslagsmálin eru. Það er með margvíslegri nálgun, s.s. bættri bústjórn, nýtingu lands, ræktun, skógrækt og landgræðslu. Við viljum að í stað þess að senda milljarða króna úr landi vegna kaupa á losunarheimildum snúi verkefni að þeim sem vilja reka starfsemi í sveitum. Ekki síður en til fjölmargra annarra þátta sem samfélagið allt á að láta sig varða og taka þátt.“

 

Píratar

„Píratar telja að Ísland ætti að setja sér metnaðarfull markmið til að minnka skjótlega alla losun gróðurhúsalofttegunda í það minnsta í samræmi við Parísarsamkomulagið frá 2016 auk þess sem stórátak þarf að gera í að minnka losun sem ekki fellur undir Parísarsamninginn, t.d. fimm ára áætlun um endurheimt votlendis og 10 ára áætlun fyrir skógrækt og uppgræðslu. Þarna kemur til álita að setja markmið þess efnis að Ísland verði kolefnisjafnað árið 2025 og jafnvel aflögufært og geti markaðssett kolefniskvóta til annarra ríkja.“

 

Björt framtíð

„Landnýting getur haft mikil áhrif á umfang losunar frá úthaga. Íslenskar rannsóknir sýna að aðgerðir eins og þurrkun votlendis með framræslu og ósjálfbær nýting lands eru stórir losunarvaldar hérlendis. Við viljum því nýta styrkjakerfi landbúnaðarins meðal annars til að endurheimta framræst votlendi sem er ekki í landbúnaðarnotkun, draga úr losun frá landi sem er að rofna eða að hnigna um 50% (stefna að landhnignunarhlutleysi árið 2050) og auka kolefnisforða í jarðvegi og gróðri með því að fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt til 2030.“

 

Vinstri græn

„Kolefnisbinding í gróðri hlýtur að vera mikilvæg aðgerð í loftslagsmálum og þarf að vera þáttur í því meginmarkmiði Íslands að uppfylla Parísarsamkomulagið. Vinstrihreyfingin grænt framboð samþykkti á landsfundi nú í haust að stefna að því að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040. Landgræðslu, skógrækt, afgashreinsun og endurheimt votlendis eru meðal mikilvægra ráðstafana til kolefnisjöfnunar.

Nærtækt væri sem fyrstu aðgerðir að stórefla samstarfsverkefni Landgræðslunnar og bænda (Bændur græða landið), stuðla að aukinni plöntuframleiðslu og útplöntun svo umfangið kæmist í a.m.k. 5-8 milljónir plantna árlega, setja aukinn kraft í endurheimt votlendis og styrkja orkuskipti í landbúnaði.“
 

Alþýðufylkingin

„Hugmyndir um kolefnisbindingu falla illa að alþjóðlegum skuldbindingum vegna umhverfis- og loftslagsmála og eru í besta falli frestun á vandanum en í versta falli sóun á fjármunum og leið til að drepa umræðunni á dreif. Útgangspunkturinn á að vera: Það þarf ekki að binda meira ef losað er minna.“

 

 
Ný og endurbætt vorbók
Fréttir 18. mars 2024

Ný og endurbætt vorbók

Á vordögum tökum við í notkun endurbætta útgáfu að hinni góðu gulu vorbók sem er...

Fræðasamfélag í uppbyggingu
Fréttir 18. mars 2024

Fræðasamfélag í uppbyggingu

Í Mývatnssveit er verið að byggja upp svokallaða vettvangsakademíu fyrir kennslu...

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora
Fréttir 18. mars 2024

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora

Magne Kvam hefur tekið upp á sitt einsdæmi að leggja spor fyrir skíðagöngu á höf...

Íbúum utan borgarinnar fjölgar
Fréttir 15. mars 2024

Íbúum utan borgarinnar fjölgar

Yfirlit yfir þróun byggðar hérlendis er eitt verkefna Byggðastofnunar, en nýveri...

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum
Fréttir 15. mars 2024

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum

Oddný Steina Valsdóttir og Ágúst Jensson, bændur á Butru í Fljótshlíð, eru fyrst...

Fimm tegundir teknar af skrá
Fréttir 15. mars 2024

Fimm tegundir teknar af skrá

Samkvæmt niðurstöðum áburðareftirlits Matvælastofnunar fyrir innfluttan tilbúinn...

Loftslag
Fréttir 15. mars 2024

Loftslag

Gagnvirkur loftslagsatlas sýnir fortíð og spáir fyrir um framtíð.

Bændavakt á Búnaðarþingi
Fréttir 14. mars 2024

Bændavakt á Búnaðarþingi

Búnaðarþing er nú haldið á Hótel Reykjavík Natura. Á Bændavakt á vef Bændasamtak...