Mynd/smh Guðbjörg Rist er framkvæmdastjóri Atmonia.
Fréttir 13. febrúar 2020

Bændur munu framleiða eigin áburð

smh

Frá 2012 hefur verið unnið að frumkvöðlaverkefni sem gengur út á að þróa lítinn tækjabúnað sem hver og einn bóndi gæti haft heima á bæ og notað til framleiðslu á ammoníaki, einungis með vatni, lofti og rafmagni, sem síðan er hægt að nota beint sem nituráburð eða blanda saman við önnur næringarefni.

Það er nýsköpunarfyrirtækið Atmonia sem vinnur að þróun tækjabúnaðarins, en framleiðslu­aðferðin verður í grundvallar­atriðum frábrugðin hefðbundinni áburðarframleiðslu.

Um algjörlega nýja leið er að ræða þar sem ammoníakið verður framleitt í rafefnafræðilegu kerfi – fullkomlega umhverfisvænu – í stað hins orkufreka og mengandi svokallaðs Haber-Bosch-ferils sem á sér stað í stórum áburðar­verksmiðjum.

Fyrsti tækjabúnaður sinnar tegundar

Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia, segir að stefnt sé á að frumgerð tækjabúnaðarins verði tilbúin á næsta ári. „Þetta verður fyrsti tækjabúnaður sinnar tegundar í heiminum og við stefnum á að setja hann á heimsmarkað; fyrst í Evrópu og Bandaríkjunum – þar sem vatnsleyst ammoníak er nú þegar vel þekktur áburður. Þá sjáum við mikil tækifæri í því að tæknin verði nýtt á svæðum þar sem lítill eða enginn aðgangur er að áburði; til dæmis sunnan Sahara og hjá fátækum eyríkjum.

Atmonia er með aðstöðu í húsakynnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þar sem fimm starfsmenn vinna í fullu starfi við þróunina, en alls koma sex starfsmenn að verkefninu.

Egill Skúlason, prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands, fékk hugmyndina að verkefninu árið 2012 þegar hann var að velja sér rannsóknarverkefni. Sú vinna skilaði góðum niðurstöðum og hófust tilraunir í kjölfarið við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Atmonia var svo stofnað árið 2016 eftir að frumkvöðlar verkefnisins höfðu tekið þátt í Startup Energy Reykjavík-hraðlinum. 

Erlent