Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þrátt fyrir ágæta sölu á lambakjöti innanlands síðustu mánuði telja sláturleyfishafar lítið svigrúm til verðhækkana til bænda.
Þrátt fyrir ágæta sölu á lambakjöti innanlands síðustu mánuði telja sláturleyfishafar lítið svigrúm til verðhækkana til bænda.
Mynd / BBL
Fréttir 25. júlí 2016

Afleit afkoma sláturleyfishafa og lækkun liggur í loftinu

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Enn hafa sláturleyfishafar ekki birt það verð sem þeir ætla að bjóða bændum fyrir afurðir sínar á komandi hausti. Að sögn sláturleyfishafa er afkoma flestra afleit af margvíslegum ástæðum. Lækkandi verð er á hliðarafurðum, grimm samkeppni á innanlandsmarkaði með tilheyrandi verðstríði og lækkandi verði og þá hefur það verð sem fæst fyrir útflutning einnig lækkað. Engar upplýsingar fengust í samtölum við sláturleyfishafa um hvenær verðskrár fyrir haustið 2016 verða birtar, en lækkun liggur í loftinu.

Gríðarleg hagræðing hjá sláturleyfishöfum

Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs á Kópaskeri, segir að samþykkt hafi verið á aðalfundi félagsins nú nýverið að trúlega þurfi að lækka verð til bænda á komandi hausti. „Við höfum ekki gefið út verðskrá, en það verður gert þegar nær dregur haustinu,“ segir hann. Afkoma fyrirtækisins var ekki góð á liðnu ári og kemur þar ýmislegt til, lækkandi verð á hliðarafurðum, verðstríð á mörkuðum innanlands sem leiðir til þess að verð er of lágt, þá hafi laun hækkað og verð fyrir útflutning fari óðum lækkandi. „Þetta samanlagt er helsta ástæða neikvæðrar niðurstöðu,“ segir Björn Víkingur. „Það er svo að sláturleyfishafar hafa þurft að hagræða gríðarlega í sínum rekstri undanfarin ár og greinilegt að verð til bænda er orðið of hátt miðað við það verð sem fæst fyrir vöruna á markaði. Við höfum ekki nú þau stýritæki í rekstri sem við höfðum hér áður fyrr,“ segir Björn Víkingur. Á fundinum var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 50 milljónir króna.

Afkoman óviðunandi

Ágúst Torfi Hauksson, fram­kvæmda­stjóri Norðlenska, segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um verð í komandi sláturtíð. „Afkoma af slátrun og vinnslu sauðfjár var óviðunandi árið 2015 hjá okkur og reyndar öllum öðrum líka. Hvort sú staðreynd valdi verðlækkun í haust liggur ekki endanlega fyrir,“ segir hann.

Verðskrá fyrir sauðfjárafurðir liggur ekki fyrir hjá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga og segir Magnús Freyr Jónsson framkvæmdastjóri að engin ákvörðun hafi heldur verið tekin um hvenær slík skrá verði birt. Verið sé að skoða málið. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um hvenær ákvörðun um verðskrána verður tekin,“ segir hann.

Grimm samkeppni

„Verð hefur ekki verið ákveðið né heldur hvenær verð verður birt, svo ég get ekkert sagt um þetta,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri SS. Hann segir stöðu mála á markaði bæði góða og slæma. Ágætis söluþróun hafi verið á innanlandsmarkaði en verð sé þar lágt. Víða erlendis sé staðan hins vegar slæm og verðið hafi lækkað í kjölfar þess að íslenska krónan hefur styrkst. Fram kemur í ársskýrslu SS fyrir liðið ár að grimm samkeppni ríki milli framleiðenda á innanlandsmarkaði og í vaxandi mæli við erlenda aðila vegna aukins innflutnings. Innflutningur á kjöti hefur verið umtalsverður og gera má ráð fyrir að með fríverslunarsamningi muni hann aukast á næsta ári. Helsta vörn SS og landbúnaðarins alls sé að hagræða með öllum tiltækum ráðum.

Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum

Gera má ráð fyrir einhverjum lækkunum á verði til bænda á komandi hausti, að því er fram kemur í fréttabréfi KS frá því í vor. „Við höfum ekki tekið ákvörðun um hvenær við birtum verð, það er verið að fara yfir þetta þessa dagana,“ segir Ágúst Andrésson, framkvæmdastjóri KS. Hann nefnir að meginástæða hækkana undanfarinna ára á afurðaverði til bænda hafi verið vegna þess að gott verð hefur fengist fyrir hliðarafurðir, náðst hafi að bæta nýtingu þeirra og auka þar með verðmætasköpun. „Núna er þetta alls ekki fyrir hendi og það er mikið högg á tekjulindina sem þýðir að endurskoða þarf verð til bænda með tilliti til þessa,“ segir hann.

Ágúst segir að sala á lambakjöti innanlands hafi gengið ágætlega, en það megi m.a. þakka góðu veðri og stemningu í kringum EM, fleiri voru í grillhug og hafi sala á slíku kjöti gengið ágætlega. Þá velji æ fleiri erlendir ferðamenn lambakjöt á diska sína.

„Launakostnaður hefur hækkað gríðarlega og þessar afurðir þurfa að hækka út á markað. Tap hefur verið á sauðfjárslátrun undanfarið og það gengur ekki til lengdar. Allt útlit er fyrir að erfitt verði að koma rekstrinum í jafnvægi á þessu ári. Það er því ljóst að menn standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum þegar kemur að verðlagningu á sauðfjárafurðum í haust,“ segir Ágúst.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...