Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala Íslands og prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands.
Fréttaskýring 02. ágúst 2019

Landspítalinn ekki í stakk búinn til að taka á móti faraldri bráðasýkinga

Vilmundur Hansen

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala Íslands og prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands, segir að það skorti sárlega viðeigandi húsnæði fyrir einangrun sjúklinga á flestum sviðum Landspítalans.

„Spítalinn er illa undir það búinn að taka á móti sjúklingum sem sýkjast af smitandi bakteríum ef svo skyldi fara að hér brytist út faraldur. Skiptir það þá engu hvort faraldurinn sé af völdum E. coli, sýklalyfjaónæmra baktería eða hvað þá smitandi sýkinga eins og mislinga eða hættulegra sýkinga eins og Ebola.“

Í leiðara sem Karl skrifaði í Læknablaðið fyrir tveimur árum segir Karl að mikilvægt sé að þeir sem séu í einangrun séu á einbýli með sér salerni. „Landspítalinn var hins vegar byggður fyrir áratugum síðan við allt aðrar aðstæður og einangrunaraðstaðan þar er alls ófullnægjandi. Það sárvantar einmenningsherbergi og fleiri salerni, sem leiðir til þess að ekki er hægt að setja alla í einangrun sem þurfa og sjúklingar sem bera fjölónæma sýkla og þurfa að leggjast inn til læknismeðferðar eða rannsókna komast ekki alltaf að.“

Karl segir að það fyrsta sem þurfi að gera sé að minnka álagið á bráðamóttökunni, þar sem ástandið sé alvarlegast. „Í dag er það þannig að fólk liggur of lengi á bráðamóttökunni af því að það vantar pláss á legudeildum. Pláss vantar á legudeildum af því það er ekki hægt að útskrifa aldraða sem geta ekki farið heim til sín. Vandinn er því samhangandi. Það er algerlega óviðunandi að ef upp kemur bráð sýkingarhætta að sjúklingar þurfi að liggja á göngum bráðamóttökunnar hver innan um annan og geti þannig sýkt aðra.“

Hann bendir á að Læknaráð, Sóttvarnarráð og Læknafélagið hafi sent frá sér ályktanir um efnið og segir að sér vitanlega hafi ekkert markvert gerst og ástandið versni með tímanum. Mikilvægt sé svo að hraða byggingu nýs Landspítala eins og kostur er.