Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Svipmynd frá grasagarðinum í Tbilisi.
Svipmynd frá grasagarðinum í Tbilisi.
Mynd / VH
Á faglegum nótum 2. desember 2021

Perla Kákasusfjalla

Höfundur: Vilmundur Hansen

Landið Georgía liggur við austurmörk Evrópu eða vestur­hluta Asíu í fjalllendi milli Svarta- og Kaspíahafs sem kallast Kákasus. Landamæri Georgíu liggja að Rússlandi, Armeníu, Aserbaídsjan og Tyrklandi.

Georgía er um 63.000 ferkílómetrar og svipað á stærð og Írland. Íbúafjöldi landsins er rúmlega 3,9 milljónir og þar af býr einn fjórði þjóðarinnar, rúm ein milljón, í höfuðborginni Tbilisi. Borgin er staðsett í miðju landsins og greitt þaðan til allra landshluta. Heitið Tbilisi þýðir heitur staður og vísar til þess að í borginni og umhverfis hana er mikið um heitar brennisteinslaugar.

Narikala-virkið í Tbilisi, höfuðborg Georgíu. Virkið var upphaflega reist á 4. öld og þaðan er gott útsýni yfir gamla hluta borgarinnar.

Gott útsýni er yfir gömlu borgina frá Narikala, sem er virki sem var upphaflega reist á 4. öld. Virkið var endurbyggt á 13. öld eftir að hafa brunnið til grunna og gerðar á því miklar endurbætur árið 1997.

Eftir að hafa skoðað virkið, kirkjuna því tengdu og garðinn umhverfis var farið í skoðunarferð um gamla bæinn sem óneitanlega er mjög tilkomumikill. Í miðjum bænum er gil og við enda þess er fallegur foss og um gilið lítil á sem fellur í Mtkvari-ána sem rennur um Tbilisi.

Jósep Stalín fæddist í borginni Gori og samstarfsmaður hans, Lavrenriy Beria, er einnig Georgíumaður og tónskáldið Aram Khachaturian fæddist í Tbilisi.

Grasagarðurinn í Tbilisi

Staðarleiðsögumanni til talsverðrar mæðu ákvað ég að slíta mig frá hópnum sem ég var með og var á leið að skoða helstu menningarmiðstöðvar borgarinnar, þinghúsið, óperuna, Anchiskhati-kirkjuna og íkonana þar, og fara í grasagarðinn í Tbilisi.
Garðurinn er í gamla hluta Tbilisi og var upphaflega hluti af lendum Narikala-virkisins. Hans er fyrst getið í ferða­sögu Frakkans Jean Chardin frá 1625 en það var ekki fyrr en árið 1845 sem hann var formlega gerður að grasagarði.

Lægsti punktur garðsins er í 417 metra hæð yfir sjávarmáli en sá hæsti í 714 metra hæð. Ganga frá aðalinnganginum í gömlu borginni um garðinn er talsvert upp á við og tekur í þegar lítill tími er í boði og ætlunin er að komast yfir sem mest, en garðurinn er í heild yfir 100 hektarar að stærð.

Meira en 500 ólík vínberjayrki eru ræktuð í Georgíu og er allt georgískt vín unnið úr innlendum yrkjum.

Samkvæmt opinberum tölum er að finna um 40 þúsund plöntur í garðinum og yfir 4.500 tegundir plantna sem upprunnar eru í Kákasuslöndunum og víðar í heiminum. Á ólíkum sýningarsvæðum í garðinum er meðal annars að finna safn af sjaldgæfum plöntum í útrýmingarhættu frá Kákasus, lækninga- og nytjajurtum og safn trjáa og runna víða að úr heiminum.

Í garðinum er einnig að finna sýnishorn af japönskum garði sem tákn um vináttu Japan og Georgíu og var hannaður sem samvinnuverkefni japanska sendiráðsins í Georgíu og ráðhússins í Tbilisi.

Nálægð við guð

Í næsta áfanga ferðarinnar var haldið frá Tbilisi og í norðaustur í átt að Jvari-klaustrinu frá 6. öld. Klaustrið er eitt af mörgum slíkum og kirkjum í Georgíu sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Jvari er byggt á fjalli í 2.150 metra hæð yfir sjávarmáli og því drjúgur spölur þangað á bíl. Á leiðinni er gaman að sjá hvernig gróðurfarið breytist úr graslendi yfir í þéttar breiður af hafþyrni og svo greni og furu en aftur graslendi þar sem klaustrið stendur.

Eins og flestar kirkjur og klaustur í Georgíu er Jvari hluti af trúarhefð sem kallast rétttrúnaðarkirkjan í Georgíu og er hluti af Austurkirkjunni. Yfir 80% landsmanna tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni, tæp 11% eru múslimar, 3% tilheyra armensku postulakirkjunni, 0,5% játast kaþólsku kirkjunni og páfanum í Róm en 2,5% öðrum eða engum trúarbrögðum.

Rétttrúnaðarkirkjan í Georgíu er ein af elstu kristnu trúarhreyfingum í heimi og rakin til 4. aldar eftir Krist og trúboðs heilagrar Nino, þjóðardýrlings Georgíu. Vínviðarkrossinn, sem er tákn Nino, er með eilítið slútandi þverslá. Sagan segir að Nino hafi bundið fyrsta vínviðarkrossinn saman úr greinum vínviðar og hári sínu.

Jvari-klaustrið. Bygging þess er sögð hafa hafist á 6. öld.

Ef mark er takandi á goðsögunni um staðsetningu Jvari var klaustrið reist á grunni heiðins hofs þar sem heilög Nino reisti einn af vínviðarkrossum sínum. Vesturhlið klaustursins stendur nánast á blábrún og um tveimur kílómetrum ofan við bæinn Mtskheta.

Á Sovétárunum, þegar kristni og önnur trúarbrögð voru bönnuð í Sovétríkjunum, var Jvari breytt í safn. Til að auðvelda fólki aðgang að safninu var settur upp kláfur til að ferja fólk frá Mtskheta í safnið. Kláfurinn náði aldrei að uppfylla tilgang sinn þar sem bilanir í honum voru tíðar. Sagt er að heimafólk hafi aldrei sætt sig við að leiðin að klaustrinu væri auðveld og því reglulega unnið skemmdarverk á gangverki kláfsins. Leiðin að helgidóminum átti að vera píslarganga og erfið og að lokum var kláfurinn tekinn niður.

Of langt mál yrði að segja frá öllum þeim fallegu, bæði að utan og innan, og sögu þeirra guðshúsa sem heimsótt voru á ferðalagi mínu um Georgíu. Staðaleiðsögumaðurinn naut þess greinilega að fræða mig og samferðafólk mitt um gildi trúarinnar í sögu landsins og hvernig hún er þjóðinni haldreipi enn í dag.

Persónulega þótti guðfræðingnum í ferðinni reyndar nóg um og hugsaði stundum með sér: „Ó nei, ekki önnur kirkja,“ þegar líða tók á ferðina.

Matur í Georgíu

Georgíumenn eru stoltir af innlendri matarhefð og innlendum vínum og mega vera það því hvort tveggja er afskaplega gott. Landsmenn gefa sér góðan tíma til að borða enda iðulega margir réttir í boði og sjálfsagt þykir að hafa vín með öllum mat.

Brauð er borið fram með nánast öllum mat og yfirleitt er það nýbakað og heitt. Réttur sem kallast khachapuri adjaruli samanstendur af bátlaga brauði, bræddum osti og eggjum. Framreiðslan er ólík eftir héruðum og sums staðar er rétturinn borinn fram með baunum, grænmeti eða kjöti.

Kokgleypt churchkhela. Mynd / Michaela Krejcova

Churchkhela er búið til með því að þræða hnetur, oft valhnetur, á þráð þannig að það líkist talnabandi. Bandinu er síðan dýft í þykkan vínberja- og vínviðarlaufslög nokkrum sinnum. Smám saman storknar lögurinn utan á hnetubandinu og verður eins og pylsa í laginu. Útkoman er afskaplega góð og seld sem sælgæti.

Kninkala svipar til þess sem almennt kallast dumplings hér heima og er vinsælt sem smáréttur í Georgíu, bæði eitt og sér eða með öðrum mat. Inni í hveitibögglunum sem rétturinn líktist í mínum augum var súpa eða gums með fyllingu sem á að gleypa um leið og bitið er gat á pokann. Ekki skemmir fyrir að pipra bögglana fyrir neyslu.

Af öðrum vinsælum réttum er lobio, sem er að stofni til nýrnabaunir með lauk, chili og ediki og góður prumpumatur. Mtsvadi er aftur á móti kjöt sem er steikt á prjóni.

Vín í Georgíu

Almennt er viðurkennt að víngerð í Georgíu sé ein sú elsta í heimi og er hefðbundin víngerð í landinu á Heimsminjaskrá UNESCO um sameiginlegan óefnislegan menningararf alls mannkyns.

Vegna hagstæðs veðurfars þrífst vínviður vel víða í landinu og talið að hann hafi verið ræktaður og berin notuð til víngerðar allt frá því 6000 fyrir Krist. Í dag finnast meira en 500 ólík vínberjayrki í landinu og er allt georgískt vín unnið úr innlendum yrkjum.

Annað sem gerir georgísk vín, bæði hvít og rauð, góð í framleiðslu er gerjunaraðferðin. Ólík vínum frá Suður-Evrópu sem eru látin gerjast í viðartunnum eru vín í Kákasuslöndunum gerjuð í belgmiklum leirkrúsum sem grafin eru í jörð. Gerjunaraðferðin veldur því að vínið heldur áfram að gerjast þar til allur sykur er horfinn úr því. Vínin eru því öll þurr og alkóhólprósentan stundum hærri en í hefðbundnum léttvínum.

Georgísk vín eru gerjuð í stórum leirkrukkum sem grafin eru í jörðina.

Algengt er að leirkrukkur sem notaðar hafa verið til að gerja vín finnist við fornleifarannsóknir og jarðvinnslu í landinu og þykir það sýna að víngerð hefur verið almenn þar lengi.
Rósabyltingin

Landfræðileg staðsetning Georgíu hefur verið landinu bæði blessun og bölvun í gegnum aldirnar. Vegna landkosta hafa Georgíumenn mátt þola innrásir og yfirráð stórvelda bæði úr austri og vestri og landið var lengi leppríki rússneska keisaraveldisins og síðar hluti af Sovétríkjunum.

Skömmu fyrir fall Sovét-ríkjanna lýsti Georgía yfir sjálfstæði landsins. Í kjölfarið óx pólitískur órói í Georgíu og um tíma geisaði borgarastyrjöld í hluta landsins.

Spilling fór vaxandi og endaði með miklum mótmælum árið 2003 sem stóðu í tuttugu daga og því sem kallað hefur verið rósabyltingin vegna þess hversu friðsamleg mótmælin voru.

Upp á margt að bjóða

Miklar framfarir hafa átt sér stað í Georgíu undanfarin ár og áratugi. Auk innviðauppbyggingar er rík áhersla lögð á að auka vinsældir landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn enda hefur landið upp á margt að bjóða, eins og mikla náttúrufegurð, góðan mat og vín og mikla gestrisni.

Hópurinn sem ég ferðaðist með heimsótti landið í september síðastliðnum og því fremur fáir ferðamenn þar á ferð. Móttökurnar í landinu voru í alla staði góðar og þjónustan til fyrirmyndar. Georgía er eini staðurinn í heimi þar sem landamæravörðurinn við brottfararhliðið úr landinu spurði mig hvort heimsóknin hafi ekki verið ánægjuleg og bauð mig velkominn aftur sem fyrst.

Fararstjóri okkar, Michaela Krejcova, sem lærði íslensku við Háskóla Íslands en er nú búsett í Georgíu, var eins og himnasending og gerði allt sem í hennar valdi var til að gera ferðina ferðina sem ánægjulegasta.

Michaela Krejcova, fararstjóri í Georgíu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...