Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lauf blæaspar eru rauðbrún í byrjun og því sker tegundin sig gjarnan frá öðrum tegundum í sumarbyrjun. Fljótlega fá þau svo á sig grænan lit.
Lauf blæaspar eru rauðbrún í byrjun og því sker tegundin sig gjarnan frá öðrum tegundum í sumarbyrjun. Fljótlega fá þau svo á sig grænan lit.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 13. júlí 2022

Blæösp

Höfundur: Pétur Halldórsson

Blæösp (Populus tremula) hefur vaxið á Íslandi frá alda öðli og telst því ein hinna fáu innlendu trjátegunda hérlendis. Blæösp er sjaldgæfust innlendra trjátegunda.

Hún hefur aðeins fundist villt á sex eða sjö stöðum á landinu austanverðu, sem eru jafnframt vestustu náttúrulegu fundarstaðir tegundarinnar.

Í útlöndum er blæösp gjarnan myndarlegt tré og getur náð allt að fjörutíu metra hæð með um eins metra sverum stofni þegar best lætur. Hérlendis hefur hún náð að minnsta kosti þrettán metra hæð. Hún er í eðli sínu beinvaxið tré með fremur mjóa krónu en á flestum fundarstöðum tegundarinnar á Íslandi er hún runnkennd, bæði vegna beitar og veðurskilyrða.

Getur þrifist um allt land
Hugsanlega er blæösp sem vex í Vaðlareit gegnt Akureyri komin þangað af sjálfsdáðum en það er ekki staðfest. Sé svo er það sjöundi fundarstaður villtrar blæaspar á Íslandi.

Blæösp vex hægt en hún getur þrifist um allt land. Við góðar aðstæður hefur hún víða orðið að myndarlegum trjám í ræktun, bæði í görðum og skógarreitum. Villt vex blæösp á Höfða og í Egilsstaðaskógi á Héraði, á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði, á Strönd í Stöðvarfirði og Jórvík í Breiðdal. Einnig er hana að finna villta á a.m.k. einum stað á Norðurlandi, í landi Garðs í Fnjóskadal. Sjöundi staðurinn gæti verið í Vaðlareit við Eyjafjörð en óstaðfest er hvort öspin þar er gróðursett eða hvort náttúran sjálf bar hana þangað.

Í Egilsstaðaskógi hefur villt blæösp náð mestum þroska á Íslandi. Þar er hún á margra hektara svæði, er að jafnaði vel beinvaxin og stendur oftast upp úr birkiskóginum. Hæstu aspirnar eru á að giska um 11 m háar. Blæöspin þarf gott rými til að dafna vel og breiðast út með rótarskotum. Það hefur hún gert víða þar sem hún hefur verið gróðursett, til dæmis í Grundarreit í Eyjafirði þar sem eru yfir aldargamlar blæaspir og ná yfir nokkurt svæði. Þessi eiginleiki blæasparinnar að dreifa sér með rótarskotum gerir að verkum að hún þykir ekki henta vel í görðum. Hins vegar er afbrigðið súlublæösp nokkuð vinsælt í garðrækt, jafnvel þótt hún skjóti líka mjög rótum. Allar súlublæaspir eru karlkyns klónn af einu tré sem fannst í Svíþjóð um miðja nítjándu öld og er væntanlega stökkbreyttur einstaklingur með mjög knappt greinahorn sem orsakar sérstæðan, súlulaga vöxtinn.

Barst til landsins eftir síðasta jökulskeið

Víst er að blæösp hafi borist til Íslands eftir síðasta jökulskeið með fræi sem fokið hefur hingað yfir hafið frá meginlandi Evrópu enda á tegundin náttúruleg heimkynni í Evrópu og Asíu, allt austur til Japans og Kamsjatka. Misjöfn stærð þeirra svæða sem hún hefur breiðst út á með jarðrenglum hérlendis er sennilega til marks um aldur asparinnar á hverjum stað. Til stærstu útbreiðslusvæðanna í Stöðvarfirði og Egilsstaðaskógi hefur upphaflega fræið sennilega borist fyrir þúsundum ára en á minnstu svæðin, svo sem Höfða og Gestsstaði, gæti fræ mögulega hafa borist löngu eftir landnám manna.

Lífseig og skuggþolin

Styrkleikar blæaspar eru þeir helstir að hún er lífseig og þolir vel frost og vind. Hún er skuggþolin á unga aldri og kemst því upp úr nokkuð þéttum trjágróðri. Til veikleika mætti telja að blæösp á það til að vera skriðul í rýru landi og ef ekki eru tré fyrir á svæðinu. Hún þolir illa beit en þraukar þá sem jarðlægt kjarr.

Blæösp er einkynja tegund þannig að sum tré eru karlkyns og önnur kvenkyns. Tegundin hefur nokkrum sinnum blómstrað í görðum hérlendis svo vitað sé og í öllum tilvikum voru blómin karlblóm, enda sennilega allt sami klónninn frá Garði í Fnjóskadal. Ekki eru þekkt dæmi um blómgun hjá villtri blæösp á Íslandi. Rannsóknir fara nú fram á erfðamengi íslenskra blæaspa, meðal annars til að kanna uppruna hennar, mögulegan skyldleika á fundarstöðum hérlendis, kyn klónanna og fleira.

Hin titrandi ösp

Heiti blæaspar er lýsandi, því lauf hennar blakta mjög í vindi og mynda þægilegan klið. Þetta eðli tegundarinnar birtist líka í latneska heitinu, tremula, sem þýðir titrandi. Blæösp er hin titrandi ösp. Þó ekki sé mælt með blæösp í garðrækt mætti alveg vera meira um hana í ræktuðum skógum, í bland við megintegundir, þó ekki væri nema til þess að fólk geti notið blaktandi laufanna.

Skylt efni: Skógrækt | ösp

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...