Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Aygo X, minnsti bíllinn sem Toyota býður upp á. Þetta er einfaldur og látlaus smábíll sem lítur út eins og jepplingur þrátt fyrir að vera ekki útbúinn fyrir torfærur.
Aygo X, minnsti bíllinn sem Toyota býður upp á. Þetta er einfaldur og látlaus smábíll sem lítur út eins og jepplingur þrátt fyrir að vera ekki útbúinn fyrir torfærur.
Mynd / ÁL
Á faglegum nótum 12. september 2022

Aygo hefur tekið vaxtarkipp

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni var einn af nýjustu bílunum frá Toyota tekinn í prufuakstur. Aygo hefur verið kunnugleg sjón á íslenskum vegum undanfarin 15 ár, en það var minnsti bíllinn sem Toyota bauð upp á þangað til að framleiðslunni á þeim bíl var hætt árið 2021.

Nú er Aygo kominn aftur og hefur fengið nafnbótina „X“. Hann er orðinn stærri á alla kanta, kominn í gervi borgarjepplings. Það eru ekki margir bílar á markaðnum sem eru í beinni samkeppni við þennan bíl, nema þá helst Suzuki Ignis.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar gengið er upp að Aygo X er afgerandi hönnun bílsins. Frá flestum hliðum er bíllinn nokkuð sportlegur að sjá, með stærri dekk, svart plast á brettunum og með aukna veghæð til að gera hann jeppalegan.

Hægt er að fá bílinn tvílitan þar sem þakið og aftasti hlutinn er svartur, á meðan restin er í öðrum lit. Framendinn á bílnum eru frekar íhaldssamur í útliti á meðan allt annað er ögrandi og nútímalegt.

Í Pulse útgáfunni er bíllinn tvílitur, með svörtu þaki og afturenda á móti aðallitnum.

Innrétting vel útfærð

Innréttingin er prýðilega vel útfærð af smábíl að vera. Það er allt til staðar sem ætlast er til af nýjum bílum, eins og glasahaldarar, stórt hanskahólf og stór margmiðlunarskjár. Sætin eru mjúk en veita ekki mikinn stuðning og sessan sjálf er frekar stutt þannig að hnén standa langt fram fyrir brúnina. Það er ekki hægt að stilla mjóbaksstuðninginn í sætisbakinu, en hins vegar hægt að stilla hæðina á ökumannssætinu.

Innréttingin er nytsamleg með geymsluplássi og stórum margmiðlunarskjá.

Rýmið í aftursætunum er mjög lítið og það er ekki hægt að mæla með því að flytja fullorðna farþega lengri vegalengdir í þeim sætum.

Annar ókostur við afturrýmið er hversu dimmt og drungalegt er þar út af smáum afturrúðum og dökkri innréttingu.

Afturrýmið er þröngt og hleypir inn lítilli birtu.

Bluetooth vont fyrir símtöl

Margmiðlunarskjárinn í bílnum er einfaldur og þægilegur í notkun. Það er auðvelt að finna allt þetta nauðsynlega og gengur vel að tengja símann með bluetooth. Það er hins vegar alls ekki gott að hringja símtöl með innbyggða handfrjálsa búnaðinum þar sem það heyrist mikið bergmál og bakgrunnshljóð þannig að nauðsynlegt er að hækka róminn.

Sjálfskipting snögg í borginni

Aygo X, minnsti bíllinn sem Toyota býður upp á. Þetta er einfaldur og látlaus smábíll sem lítur út eins og jepplingur þrátt fyrir að vera ekki útbúinn fyrir torfærur.

Aksturseiginleikar bílsins eru skárri en blaðamaður hafði gert væntingar til. Bíllinn í þessum prufuakstri var með stiglausa sjálfskiptingu sambærilega þeirri sem flestir fólksbílar frá Toyota eru með í dag.

Sjálfskiptingin í fyrri gerðum af Aygo er viðbragðsslöpp á meðan þessi hikar ekkert þegar tekið er af stað.

Góður á þjóðvegum líka

Þegar komið er út fyrir borgarmörkin þá, merkilegt nokk, stendur bíllinn sig vel. Vélin vinnur ágætlega og blaðamaður varð ekki var við að bílinn skorti afl í venjulegum þjóðvegaakstri.

Það heyrist nokkurt veg- og vindhljóð þegar keyrt er á 90 kílómetra hraða og þarf að hækka róminn til þess að eiga samtal við ferðafélaga sína. Þetta er þó alls ekki það versta sem blaðamaður hefur kynnst og verður þetta að teljast nokkuð gott miðað við að þetta sé ódýr smábíll.

Varadekk undir skottinu.

Ein bensínvél í boði

Vélarúrvalið er mjög einfalt: 1.0 l bensínvél sem er að miklu leyti sú sama og var í Toyota Aygo fyrir meira en 15 árum. Er það í stíl við restina af bílnum, þar sem það er ekkert verið að flækja hlutina til þess að halda verðinu niðri.
Hins vegar er það ekki í takt við kröfur nútímans þar sem hægt er að velja flesta bíla sem tvinn-, tengitvinn- eða rafmagnsbíla.

Enginn jeppi

Aygo X er markaðssettur þannig að hann höfði til þeirra sem hafa áhuga á jepplingum. Það skal þó tekið fram að þetta er alls ekki jeppi. Hann fæst bara með framhjóladrifi og á malarvegum finnst að það er stutt í að bíllinn fari að skrika.

Hins vegar kemur sér vel að hafa auka veghæð, en það er þægilegt að komast í og úr bílnum og hann fjaðrar mjög vel yfir hraðahindranir. Það er líka hægt að fara grófari malarvegi án þess að vera stöðugt með áhyggjur af því að reka hann upp undir, þó svo að hann komist ekki í neinar torfærur.

Samantekt

Toyota Aygo X er ódýr og einfaldur smábíll með örlítinn vott af jeppagenum. Með nýjustu breytingu á þessum bíl hefur hann tapað þeim kosti að vera agnarsmár borgarbíll, en hins vegar hefur hann orðið nytsamlegri bíll til almennra nota fyrir utan og innan borgarmörkin.

Þetta er bíll fyrir þá sem vilja látlausan bíl sem er með nútímalega hönnun. Ef fólk er að leita sér að tvinn- eða rafmagnsbíl þá þarf það hins vegar að leita annað. Verðið á beinskiptum Aygo X í LIVE útfærslu er frá 3.090.000, en bíllinn í þessum prufuakstri var sjálfskiptur Aygo X Pulse og kostar hann 3.790.000.

Pulse-útgáfan bætir m.a. við regnskynjara, stærri margmiðlunarskjá og er hann tvílitur.

Skylt efni: prufukeyrsla

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...