Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Þorfinnur Júlíusson er ein helsta driffjöðrin á bak við starfsemina á Blikastöðum. Hér stendur hann fyrir framan Massey Ferguson traktorsgröfu sem fjallað var um í Bændablaðinu fyrir skemmstu.
Þorfinnur Júlíusson er ein helsta driffjöðrin á bak við starfsemina á Blikastöðum. Hér stendur hann fyrir framan Massey Ferguson traktorsgröfu sem fjallað var um í Bændablaðinu fyrir skemmstu.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 30. mars 2023

Þorfinnur fjósameistari á Blikastöðum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Í gömlu fjósi í Mosfellsbæ hafa nokkrir menn aðstöðu til að sinna uppgerð á gömlum vélum og tækjum. Þarna hafa þeir samnýtt húsnæði og aðstöðu og notið félagsskapar hver annars síðan árið 2013.

Flestir meðlimirnir eru hættir að vinna og segjast viðhalda heilsunni með því að gera upp gamlar vélar.

Þegar gengið er inn í aðstöðuna á Blikastöðum blasa við vélar af öllum gerðum. Sumar eru ekkert annað en íhlutir á víð og dreif á meðan aðrar eru greinilega langt komnar í uppgerð. Í „betri stofunni“, eins og karlarnir nefna eitt herbergið, eru dráttarvélar sem líta út fyrir að hafa yfirgefið verksmiðjuna fyrr sama dag. Þrátt fyrir að fljótt á litið sé allt í óreiðu, er hver og einn meðlimur með afmarkaðan bás í þessu gamla fjósi, sem eru merktir með línum í gólfinu. Aðspurðir segja karlarnir að þetta sé dásamlegt tómstundagaman og að Blikastaðir séu þeirra félagsmiðstöð.

Í gamla fjósinu á Blikastöðum njóta nokkrir menn góðs af sameiginlegri aðstöðu og félagsskap hver annars. Myndir: ÁL

Útbreitt áhugamál og biðlisti

Einn helsti drifkrafturinn á bak við félagsskapinn á Blikastöðum er Þorfinnur Júlíusson. Hann vann áður við sölu á landbúnaðartækjum hjá nokkrum þekktum fyrirtækjum eins og Búvélum, Vélaborg, Vélum og þjónustu og G. Skaftasyni, en er kominn á eftirlaun í dag. Af félögunum er hann oft kallaður fjósameistarinn.

„Fyrir tíu árum síðan bauðst mér og Gunnari heitnum Björnssyni að taka á leigu útihúsin á Blikastöðum,“ segir Þorfinnur. Þá var búið að breyta gamla fjósinu í iðnaðarhúsnæði og steypa í alla flóra. „Okkur datt í hug að taka þetta á leigu og sjá hvort væri hægt að leigja út pláss til að gera upp gamlar dráttarvélar.“ Hugmyndina segist hann hafa fengið af sambærilegum félagsskap sem var í Borgartúni áður. „Það smáfylltist af vélum og mönnum og varð stærra og stærra samfélag.“

Í dag eru 25 pláss leigð út og af þeim eru 15 meðlimir mjög virkir.

„Þetta er afskaplega skemmtilegt samfélag. Þarna er mikið spjallað og mikið kaffi drukkið og þarna hafa myndast vináttu- og kunningjasambönd í gegnum árin og þetta hefur gengið algjörlega árekstralaust. Þetta áhugamál er útbreitt. Það er ótrúlegur fjöldi sem á vélar í geymslum og skúrum, enda er biðlisti eftir plássi hjá
okkur,“ segir Þorfinnur.

Kaffistofan. Þorvaldur Sigurðsson, Albert Baldursson, Steindór Teódórsson, Þórarinn Garðarsson og Hróar Pálsson.

Framtíðin óljós

Nokkur óvissa er þó með framtíðina þar sem bankinn sem á húsnæðið hefur hugmyndir um að nýta plássið í eitthvað annað samhliða mikilli fyrirhugaðri uppbyggingu í Blikastaðalandinu. „Allavega verðum við þarna út þetta ár og ég held að það sé velvilji hjá bankanum að framlengja áfram,“ segir Þorfinnur, en tekur fram að allt sé mjög óljóst sem stendur.

Aðspurður um hvers vegna þessi starfsemi sé mikilvæg segir Þorfinnur þetta stuðla að því að vélar séu endurbyggðar í stað þess að vera hent. „Þetta er partur af landbúnaðarsögunni okkar og gaman að varðveita þessa hluti. Flestir sem þarna eru eiga einhverjar rætur að rekja til sveita og þetta rifjar upp gamla og góða daga þegar menn voru að byrja að vinna með tækjum.“

Blikastaðir eru neðan við Vesturlandsveginn, rétt vestan við byggðina í Mosfellsbæ. Óljóst er hvort vélakarlarnir fái áfram að nýta aðstöðuna þar.

Inntur eftir tímanum sem uppgerð á traktor tekur segir Þorfinnur eitt til tvö ár mjög algengt. „Menn eru að vinna þetta í sínum frítímum.“ Allir meðlimirnir eru með lykil og geta komið og farið að vild. Þeir sem eru komnir á eftirlaun eru gjarnan alla virka daga, á meðan þeir sem eru í vinnu mæta um kvöld og helgar. Aðstaðan er býsna góð, en allir meðlimir koma með helstu verkfæri og hafa aðgang að klefa með tækjum til að sandblása og sprautulakka.

Þegar vélarnar koma á Blikastaði eru þær í mjög mismunandi ástandi. „Sumar eru ótrúlega góðar og á öðrum þarf að fara í alla mögulega slitfleti í vélum og gírkassa. Svo þarf að smíða blikkhluta eftir leifum af orginal brettum og húddum.“ Því eru dráttarvélarnar á Blikastöðum allt frá því að vera sundurteknir vélahlutir í kössum yfir í nánast tilbúin tæki. Enn fremur eru tíu vélar í betri stofunni. Að aflokinni uppgerð fara vélarnar ýmist þangað eða í geymslu hjá eigendunum.

Í „Betri stofunni“ eru geymdar nokkrar dráttarvélar sem eru alveg eins og nýjar.

Margir merkisgripir

„Þarna er Centaur vél sem Þjóðminjasafnið á – módel 1934. Það er einn merkilegasti gripurinn þarna. Það komu sex svona vélar til landsins og ég held að þetta sé sú sem kom seinast.“ Enn fremur segir Þorfinnur að á Blikastöðum sé unnið að uppgerð dráttarvélar af gerðinni Austin. Hún er frá 1920 eða 1921 og telur hann að þetta sé elsta dráttarvélin sem varðveist hefur á landinu, en þær allra fyrstu komu örfáum árum áður.

Dráttarvélar eru í miklum meirihluta, en einnig eru nokkrir jeppar. Þar á meðal einn Land Rover, Rússajeppi, Bronco og Toyota jeppi. Meginstarfsemin fer fram í sjálfu fjósinu, en einnig eru nokkur pláss á þremur öðrum stöðum á víð og dreif um húsaplássið.

Þorfinnur segir uppgerð vélanna taka eitt til tvö ár. Þær eru í misjöfnu ástandi þegar þær koma.

Halda samkomur

„Við erum nýbúnir að halda 80 manna þorrablót sem tókst mjög vel,“ segir Þorfinnur, en það er það fyrsta sem er haldið eftir heimsfaraldur. Ferguson-félagið hefur verið í nokkru samstarfi við mennina á Blikastöðum og hafa staðið fyrir opnu húsi á vorin. Þann 19. maí næstkomandi verður fyrsta slíka samkoman eftir heimsfaraldur.

„Þá kemur alveg óhemja af dráttarvélum og verður farið í hópakstur. Það hafa komið hundruð manna þegar þetta var áður.“

Áframhaldandi búseta talin möguleg
Líf og starf 13. mars 2024

Áframhaldandi búseta talin möguleg

Við Langanesströnd sem liggur að botni Bakkaflóa stendur Bakkafjörður ásamt bæði...

Kirkjugarðsklúbburinn
Líf og starf 12. mars 2024

Kirkjugarðsklúbburinn

Halaleikhópurinn víðfrægi tók að sér verkið Kirkjugarðsklúbbinn eftir Ivan Mench...

Bændamótmæli á Íslandi?
Líf og starf 11. mars 2024

Bændamótmæli á Íslandi?

Mótmæli bænda í Evrópu hafa verið í fréttum undanfarin misseri þar sem þeir vald...

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars
Líf og starf 8. mars 2024

Stjörnuspá 7. mars - 21. mars

Vatnsberinn hefur alla burði til þess að koma í framkvæmd þeim hugmyndum sem eru...

Lundi
Líf og starf 6. mars 2024

Lundi

Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Ha...

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar
Líf og starf 1. mars 2024

Auðugri framtíðarsýn Dalabyggðar

Eins og áður hefur verið kynnt hafa alls 14 byggðarlög hérlendis tekið þátt í ve...

Fagleg og fræðandi afmælissýning
Líf og starf 26. febrúar 2024

Fagleg og fræðandi afmælissýning

Hálfrar aldar afmæli Félags tamningamanna var haldið hátíðlegt þann 17. febrúar ...