Jeppar í lífi þjóðar
Út er komin bókin Jeppar í lífi þjóðar eftir Örn Sigurðsson. Þar bregður hann lifandi ljósi á þennan merka kafla í íslenskri samgöngusögu í bók sem myndskreytt er með 600 ljósmyndum.
Þetta er þykk og eiguleg bók í stóru broti sem gaman er að fletta í gegnum. Henni er skipt upp í níu kafla sem eru helgaðir helstu jeppategundum síðustu aldar. Í upphafi er talað um Willys-jeppana sem komu fyrst á stríðsárunum. Þá er kafli tileinkaður Land Rover og annar sem snýr að Rússajeppunum. Sérstök umræða er um aðra jeppa eins og Gipsy, Scout, Lapplander, Bronco og loks fjölbreytt úrval japanskra jeppa. Enn fremur eru sérstakir kaflar um torfærukeppnir og fjallaferðir.
Bókin er byggð upp á þann hátt að ljósmyndir leika aðalhlutverk og er undir hverri greinargóður myndatexti. Lesendur geta því gripið niður í bókina hvar sem er og lesið sig í gegnum hana í þeirri röð sem þeir vilja. Að auki við myndir má sjá gamlar auglýsingar sem voru notaðar í markaðssetningu jeppabifreiða eða blaðagreinar þegar jeppar rötuðu í fréttir. Jeppaáhugamenn með stutta athyglisspönn geta því gert sér þessa bók að góðu.
