Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Pottaplöntur í gamla uppeldishúsinu.
Pottaplöntur í gamla uppeldishúsinu.
Mynd / VH
Líf og starf 5. júlí 2022

Iðjagræn fegurð og ævintýraleg tré

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ljubljana í Króatíu er falleg borg með mörgum almenningsgörðum og stórum götutrjám. Frægastir eru Tívolí almenningsgarðurinn og grasagarðurinn. Gróðurinn í borginni, ekki síst trén, eru stæðileg og iðjagræn.

Volčji Potok trjásafnið í Króatíu nær yfir 85 hektara og er um 20 kílómetra norðaustur af Ljubljana og því þarf að gefa sér góðan tíma til að heimsækja og skoða garðinn. Í garðinum er meðal annars að finna 4.800 tré, 1.200 afbrigði af rósum og um tvær milljónir túlípana.

Auk fjölda afbrigða og yrkja af lyngrósum og vatnaliljum.

Kastaníur og linditré

Tívolí er stærsti almenningsgarðurinn í Ljubljana, um fimm ferkílómetra, og í borginni miðri. Garðurinn var upphaflega margir litlir garðar sem voru sameinaðir árið 1813.Garðurinn er vinsælt útivistarsvæði borgarbúa þar sem gott er að hlaða batteríin og njóta veðurblíðunnar sem einkenndi borgina flesta dagana sem ég dvaldi þar í lok maí.

Kaktusar og aðrir þykkblöðungar framan við þjónustu- og upplýsingamiðstöð grasagarðsins.

Kastaníur eru einkennistré garðsins og reyndar helsta götutré Ljubljana, þrátt fyrir að Slóvenar líti á lind sem sitt þjóðartré. Í garðinum eru göngu- og hjólastígar og líka litrík blómabeð, gosbrunnar og styttur af frægum körlum.

Elsta vísindastofnun landsins

Grasagarðurinn í Ljubljana var formlega stofnaður 1810 og var þá 33 hektarar að stærð og kallaðist Þjóðarflórugarðurinn þegar fyrsta linditréð var gróðursett þar. Linditréð stendur enn og er garðurinn elsta samfellt starfandi vísinda- og menntastofnun í Slóveníu og einn elsti grasagarður í Suðaustur-Evrópu. Árið 1991 var garðurinn friðaður með sérstökum lögum.

Markmiðið með garðinum, er líkt og annarra grasagarða vísast í heiminum, að safna á einn stað innlendum og erlendum plöntum til rannsókna og fræðslu og á sama tíma varðveita sjaldgæfar plöntur í útrýmingarhættu og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni fyrir komandi kynslóðir.

Þrátt fyrir að garðurinn sé ekki nema tveir hektarar að stærð í dag er hann fjölbreytilegur Þar er meðal annars glæsilegt hita- beltisgróðurhús, þjónustu- og upplýsingamiðstöð, uppeldisaðstaða fyrir gróður, notalegt kaffihús og hátt í fimm þúsund tegundir af plöntum víðs vegar að úr veröldinni og af þeim eru um þriðjungur upprunnar í Króatíu.

Gróðrinum í garðinum, sem í dag kallast formlega Háskólagrasagarðurinn í Ljubljana, er raðað upp eftir skyldleika og náttúrulegri þörf hans og þar er einnig að finna safn nytjaplantna og lækningajurta.

Hitabeltishúsið var byggt og opnað árið 2010 í tilefni af 200 ára afmæli garðsins.

Notaleg óreiða

Býflugnaeldi á sér langa sögu í Króatóu og í Ljubljana er að finna
um 4.500 manngerð býflugnabú sem er ætlað að gera flugunum lífið auðveldara og safna hunangi.

Eitt það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom í grasagarðinn var hversu beðunum í honum er mátulega haldið við. Beðin eru notalega illa hirt án þess að vera vanhirt. Ástæðan fyrir þessu er að grasagarðurinn er hluti af því sem kallað er býflugnaleiðin sem liggur í gegnum garða í Ljubljana og er viðleitni í því að vernda býflugur og gefa þeim færi á að komast í villt blóm sem víðast í borginni.

Hitabeltisgróðurhúsið í grasagarðinum í Ljubljana.

Hitabeltið í Króatíu

Hitabeltisgróðurhúsið er sérhannað, 533 fermetrar að flatarmáli og fimm þúsund rúmmetrar að stærð og þar er að finna hátt í 400 tegundir plantna frá hitabelti Suður-Ameríku, Eyjaálfunni, Ástralíu, Afríku og Asíu sem þrífast við hátt hita- og rakastig. Plöntur frá Afríku eru hafðar syðst í húsinu til að tryggja að þær fái sem mest af sól.

Gengið er inn í gróðurhúsið frá lítilli fræðslu- og upplýsingamiðstöð garðsins og þrátt fyrir að hitastigið í Ljubljana hafi verið hátt á íslenskan mælikvarða var eins og að ganga á rakan vegg að stíga inn í húsið. Um húsið eru göngustígar meðfram beðunum sem eru án botns og teygja rætur sumra trjánna sig undir húsið og út í garðinn í kringum það.

Sumar tegundirnar eru þekktar potta- eða nytjaplöntur en aðrar framandi og nýstárlegar. Til dæmis bananaplöntur, sagó- og kögurpálmar og trjáburknar, brómelíur og burknar, svo og begóníur og engifer sem undirgróður.

Mánagull

Hæstu trén og klifurplönturnar ná allt að tólf metra hæð þar sem húsið er hæst og verulega gaman að ganga eftir fimm metra hárri loftbrú hússins sem liggur eftir því miðju og horfa niður á og niður eftir plöntunum. Innan um eru svo lægri plöntur og tjörn með nílarsefi, Victoriu-vatnalilju og öðrum vatnagróðri. Eitt af því sem vakti athygli mína í húsinu er hversu hátt rifblaðka, eða monstera, getur vaxið hafi hún góð skilyrði og hve stór blöð mánagulls eru þar sem vel fer um það.

Frá hitabelti Suður-Ameríku eru í húsinu meðal annars kakótré, ananas, avakadó og margar tegundir af klifurplöntum, eins og passíublóm og vanilluorkidea sem vaxa upp eftir uppistöðum hússins eftir uppgöngu og handriði loftbrúarinnar. Af tegundum upprunnum í Asíu má nefna margs konar fíkusa eins og benjamín- og fiðlufíkus, glithala, havaí- og sólroðablóm. Afríkutegundir eru meðal annarra kaffitré, blóm paradísarfuglsins, blossatré, papírus og blóðlilja.

Gamla uppeldishúsið

Sambyggt í fræðslu- og upplýsingamiðstöðina, við hliðina á hitabeltishúsinu er gamalt uppeldisgróðurhús garðsins sem í dag geymir ýmsar pottaplöntur eins og orkideur, gyðinginn gangandi, kaktusa og annað fínerí. Sumar plönturnar, margar mjólkurjurtir, kaktusar og paradísartré, eru fluttar út snemma í maí og hafðar úti þar til um miðjan eða lok október og fara vel á stéttinni framan við upplýsingamiðstöðina.

Heilagt tré
Grein af lindartré

Króatar líta á lind sem heilagt tré frá fornu fari og þjóðartré sitt enda það sagt vera lífstréð, tré visku og réttlætis og veita fjölskyldum sem bjuggu í nálægð við það vernd og velsæld. Víða um landið eru linditré staðsett í miðju þorpa og við kirkjur sem voru byggðar nálægt gömlum trjám áberandi í króatísku landslagi enda geta evrópsk linditré orðið yfir tíu alda gömul.

Í eina tíð voru trén bæði samkomu- og helgistaður þar sem fólk safnaðist saman undir greinum þess til að hlýða á dóma, taka sameiginlegar ákvarðanir, dansa, syngja, smella kossum og gleðjast.

Í heiðni og frumkristni var til siðs að hengja fórnir á greinar linditrjáa og enn í dag er til siðs að strjúka stofni trésins þegar gengið er framhjá því til að auka á gæfu sína.

Trén eru sögð vernda hús fyrir eldingum sem eru nokkuð tíðar í landinu og greinar sem settar voru í eða við glugga sagðar bægja frá nornum og illum öndum en bjóða hið góða velkomið í húsið.

Þjóðsögur herma að víða í Slóveníu sé að finna falda fjársjóði sem féheldnir nískupúkar hafa grafið í jörð og gróðursett lindi- eða perutré ofan á gullinu til að merkja staðinn.

Samkvæmt gamalli þjóðtrú gat linditré leitt saman tilvonandi brúðhjón. Ógift heimasæta í leit að eiginmanni gat á aðfangadag jóla farið að næsta linditré, faðmað stofninn og síðan brotið af því grein sem hún brenndi, því næst drakk hún öskuna í vatni um leið og hún bað tréð að finna fyrir sig álitlegan ektamann.

Sagt er að öskulögurinn hafi gert rjóðar heimasætur enn glæsilegri en vanalega í augum karlkynsins.

Viður linditrjáa er léttur og mjúkur og því góður í minni nytja- og listmuni, greinarnar má tága í körfur og skikkjur. Blóm og blöð voru notuð í lækningaskyni.

Partinaca sativa L. var fleischmanni
Partinaca sativa L. var fleischmanni.

Í grasagarðinum og í hlíðunum við kastalann í Ljubljana finnst nípuafbrigði sem kallast Partinaca sativa L. var fleischmanni. Afbrigðið er sérstakt að því leyti að það hefur ekki fundist villt annars staðar í heiminum. Plantan er tvíær og nær um eins metra hæð, blöðin eru fjaðurlaga og sérstök að því leyti að þau eru þykkari og dekkri en almennt gerist hjá nípum.

Afbrigðið er nefnt í höfuðið á grasafræðingnum Andrej Fleischmann sem uppgötvaði tegundina í hlíðum kastalans um 1820 og flutti eintak af henni í grasagarðinn. Nokkrum áratugum eftir að Fleischmann flutti plöntuna í grasagarðinn fannst hún ekki lengur í hlíðunum umhverfis kastalann og úrskurðuð útdauð í náttúrunni. Ástæða þess er meðal annars sögð vera ásókn grasafræðinga og plöntusafnara í eintak af plöntunni, að þeir hafi hreinlega eyðilagt vaxtarsvæði hennar.

Fyrr á þessari öld var tegundinni plantað aftur í kastalahlíðinni og í Tívolí almenningsgarðinum þar sem hún dafnar ágætlega. Fyrir þann tíma hafði plantan lifað af í um 200 ár í umsjá garðyrkjumanna í grasagarðinum án þess að vekja teljandi athygli.

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...