Frá Ólafsdalshátíð.
11. ágúst 2018

Ólafsdalshátíðin

Næstkomandi laugardag stendur Ólafsdalsfélagið fyrir sinni árlegu Ólafsdalshátíð á gamla skólastaðnum við Gilsfjörð. „Dagskrá Ólafsdalshátíðarinnar 2018 er fjölbreytt og fræðandi,“ segir í tilkynningu. „Allir eru velkomnir í dalinn 11. ágúst nk. og enginn aðgangseyrir.“

Dagskráin hefst klukkan 11 þegar farin verður gönguferð að víkingaaldarskálanum í Ólafsdal og öðrum minjum undir leiðsögn Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings. Mæting í gönguna er korteri áður. Klukkan 12.00 hefst sala á miðum í Ólafsdalshappdrættinu þar sem fjöldi veglegra vinninga verður í boði. Þá hefst einnig Ólafsdalsmarkaður með grænmeti, Erpsstaðaís og kræklingi auk þess sem sýningar verða í skólahúsinu. Fjölbreyttur matar- og handsverksmarkaður verður á staðnum. Klukkan 13.00 hefst hátíðardagskrá:

  • Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar flytur ávarp.
  • Auður Axelsdóttir, forstöðukona Hugarafls og afkomandi Torfa og Guðlaugar í Ólafsdal flytur ávarp.
  • Snorri Helgason, söngvari og lagahöfundur.
  • Bjarni Guðmundsson, prófessor og fræðimaður á Hvanneyri: Súrheysgerð Torfa í Ólafsdal – nýjung á 19. öld.
  • Frímann (Gunnar Hansson leikari) kitlar hláturtaugarnar.
  • Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur: Víkingaaldarminjar í Ólafsdal – nýjustu fréttir.
  • Trúðurinn Willy frá Sirkus Íslands skemmtir börnum á öllum aldri.

Kynnir: Bjarni Guðmundsson.

Klukkan 16.30 verður dregið í Ólafsdalshappdrættinu.

Á hátíðinni verður teymt undir börnum, kvenfélagið Assa verður með veitingar á sanngjörnu verði. Athygli er vakin á að netsamband er stopult í Ólafsdal og því er gestum ráðlagt að hafa með sér lausafé til að versla og taka þátt í happdrætti.

Á döfinni