Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Lífræn ræktun – liður í íslenskri landbúnaðarstefnu
Skoðun 22. júní 2021

Lífræn ræktun – liður í íslenskri landbúnaðarstefnu

Höfundur: Dr. Ólafur R. Dýrmundsson

Í vor birti atvinnu- og nýsköp­unar­ráðuneytið tillögur verk­efnisstjórnar um land­búnaðar­stefnu fyrir Ísland í gagnlegu umræðuskjali undir heitinu Ræktum Ísland. Margvís­legar umsagnir um það, með ábendingum, hafa verið birtar í Samráðsgátt stjórnvalda, og nú er verið að kynna umræðuskjalið á fundum víða um land.

Lögð er áhersla á þrjá lykilþætti; sjálfbæra landnýtingu, nýsköpun og aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson.

Stefnumörkun fyrirlífrænan landbúnað

Í framangreindu skjali er nokkuð fjallað um lífræna ræktun og landbúnað á þeim grundvelli, án þess að ákveðnar stefnumótandi tillögur komi þar fram. Vonandi bætir verkefnisstjórnin úr því við frekari vinnslu þar sem ljóst er að lífrænir búskaparhættir falla sérlega vel að lykilþáttunum þremur. Lífrænn landbúnaður er víða að breytast úr minni háttar jaðargrein (niche) yfir í umfangsmikla og fjölþætta búvöruframleiðslu ( mainstream). Nærtækast er að vísa til Danmerkur. Ísland er því miður enn á meðal þeirra þjóða sem draga lestina, m.a. vegna þess að opinbera stefnumótun skortir. Þó er ljóst að íslenskir bændur í lífrænum búskap hafa sýnt það og sannað um áratuga skeið, að skilyrði til lífrænna búskaparhátta hér á landi eru að mörgu leyti ákjósanleg og falla vel að hinni alþjóðlegu skilgreiningu:

Lífrænn landbúnaður er framleiðslukerfi sem viðheldur heilbrigðum jarðvegi, vistkerfum og fólki. Hann byggist á vistfræðilegum aðferðum, líffræðilegri fjölbreytni og staðbundnum framleiðsluferlum, fremur en notkun aðfanga sem geta haft neikvæð áhrif. Lífrænn landbúnaður sameinar hefðir, nýsköpun og vísindi sem eru til hagsbóta fyrir sameiginlegt umhverfi, sanngjörn viðskipti og mikil lífsgæði fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Grunngildin eru þessi: Heilsa- Vistfræði- Sanngirni- Umhyggja (sjá nánar : www.lifraentisland.is).

Ný viðhorf – endurreisn landbúnaðar

Hinn efna- og lyfjavæddi land­búnað­ur sem hefur verið að þróast síðan á 19.
öld, og þó sérstaklega eftir miðja 20. öld, er víða að ganga sér til húðar, einkum vegna jarðvegseyðingar, efnamengunar, eyðingar erfðaefnis og skaðlegra áhrifa á líffræðilegan fjölbreytileika, og síðan um aldamóti 2000, innleiðingar erfðabreytinga (GMOs, CRISPR/CAS o.fl.).

Þá sætir verksmiðjubúskapur við búfjárframleiðslu sívaxandi gangrýni og hefur m.a. orðið til þess að æ fleiri hafa orðið fráhverfir neyslu kjöts, mjólkur og eggja. Þeim fjölgar sem hafa áttað sig á því að boðskapurinn um ódýran mat var ein dýrkeyptasta blekkingum 20. aldarinnar. Viðurkenndir og vottaðir lífrænir búskaparhættir geta stuðlað að mjög brýnni endurreisn landbúnaðar ( regenerative agriculture), í sátt við náttúru og neytendur, en mikið er nú fjallað um slík sjónarmið um allan heim, sérstaklega vegna loftslagsbreytinganna.

Evrópusambandið kynnir nú margvíslegar grænar áherslur og býsna róttæk umskipti (green transition) þótt aragrúi vísindamanna og fyrirtækja boði enn hið gagnstæða; áframhaldandi efna- og lyfjavæðinu í skjóli gylliboða um erfðabreytt fræ og gervikjöt, allt á einkaleyfum, hvorki bændum né neytendum til hagsbóta. Svo langt gengur CAP, landbúnaðarstefna ESB, að fyrir 2030 er stefnt að því að a.m.k. 25% landbúnaðarlands í aðildarríkjunum verði komið með lífræna vottun. Nú eru 9% landsins með vottun. Samhliða á að draga stórlega úr notkun eiturefna og tilbúins áburðar. Þessi stefna boðar því gríðarlegar breytingar á næstu árum. Farið er að líta á eflingu lífræns landbúnaðar sem eina þeirra lausna sem vænlegar séu til að takast á við hnignin líffræðilegrar fjölbreytni, svo sem í býflugnastofnum, og loftslagskreppuna sjálfa. Jafnframt verði þó stuðlað að aukinni framleiðslu matvæla og fæðuöryggi. Vonandi er landbúnaðarstefnunefndin okkar búin að kynna sér þessa þróun í Evrópu og víðar því að hana þarf að hafa til hliðsjónar við stefnumótunina, hvort sem Ísland verður innan eða utan ESB.

Hvers vegna lífrænt ?

Kostir og gallar lífrænna framleiðsluhátta eru vel þekktir og margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar, eða eru í gangi víða um heimi, til að treysta undirstöðurnar, bæði í jarðrækt og búfjárrækt. Á seinni árum hafa þær rannsóknir einkum tengst aðgerðum til draga úr sótspori landbúnaðar. Inn í þessa þróun fléttast m.a. sú athygli sem beinst hefur að vistrækt (permaculture) og búskógrækt (agroforestry) en hvort tveggja fellur vel að lífrænni ræktun. Þá vinna Slow Food samtökin víða að framgangi lífræns búskapar ásamt IFOAM, hinni lífrænu hreyfingu, í sátt við umhverfi, bændur og neytendur.

Aukin eftirspurn eftir lífrænt vottuðum afurðum af ýmsu tagi hefur, einkum síðan um aldamót, kallað á rannsóknir á næringargildi og hollustu slíkra vara. Nýlega hafa verið dregnar saman helstu niðurstöður 343 matvælarannsókna er birst hafa í ýmsum vísindaritum; á hveiti, grænmeti, ávöxtum, mjólk og kjöti, sem sýna mjög afgerandi niðurstöður þeim lífrænu í hag. Í ljós kom að lífrænu matvælin voru að mestu laus við illgresiseyða, sveppaeitur, þungmálma og nítröt. Þá var í þeim mikið af heilsusamlegum andoxunarefnum og lífrænt vottað grænmeti og ávextir voru næringarríkari, hollari og bragðbetri en slík matvæli framleidd við aðra búskaparhætti. Svipað gilti um mjólk og kjöt en þar voru áberandi há hlutföll æskilegra fitusýra, svo sem omega-3. Það skiptir greinilega miklu máli að á lífrænum búum er kornfóðrun lítil en notkun grasafurða mikil, bæði við fóðrun og beit. Þannig er ljósara en áður að um er að ræða neytendavænar gæðavörur sem geta haft áhrif á lýðheilsu þegar til lengri tíma er litið (sjá nánar : www.lifraentisland.is).


Opinber stefnumótun og aðgerðaáætlun

Á meðal þess sem hefur háð þróun lífræns landbúnaðar á Íslandi er skortur á opinberri stefnumótun með markmiðum. Í ljósi þeirra aðgerða sem t.d. ESB hefur mótað, er hætt við því að samkeppnisstaða okkar versni hvað varðar lífrænt vottaðar vörur; að þær verði hreinlega fluttar inn í æ ríkari mæli, ef þær verða ekki framleiddar hér á landi. Á það sérstaklega við um bæði inni- og útiræktað grænmeti, mjólkurafurðir og sumar kjöttegundir. Að mínum dómi er það mjög brýnt að lífræna framleiðslan fái sinn sess í væntanlegri landbúnaðar – og matvælastefnu þjóðarinnar og við þá stefnumótun er eðlilegt að hafa hliðsjón af því sem er að gerast í nágrannalöndunum. Á grundvelli stefnunnar þyrfti síðan að hefja strax vinnu við aðgerðaáætlun en um það mál var reyndar ályktað á aðalfundi í VOR (félags bænda í lífrænum búskap og fullvinnslu afurða) 15. apríl s.l. svo sem greint var frá í Bændablaðinu 12. maí s.l. Þar með skapast m.a. traustari grundvöllur til að endurskoða stuðningskerfið, einkum vegna aðlögunarstyrkja, því að hér þarf bændum í lífrænum búskap að fjölga verulega. Við þá uppbyggingu er nauðsynlegt að gera stórátak í búvísindarannsóknum, kennslu og leiðbeiningum og um þau efni er einnig gott að leita fyrirmynda erlendis.

Það fer ekki á milli mála að mjög má bæta hagkvæmni ýmiss konar vinnslu lífrænna afurða með fjölgun framleiðenda í öllum búgreinum, bæði bændum og neytendum til hagsbóta. Úr því að ESB stefnir í 25% lífrænt ræktunarland eftir 10 ár ættum við að geta sett okkur markmið að a.m.k. 10% á þeim tíma. Til þess að svo verði þarf að styrkja innviðina sem fyrst svo að um muni.

GMO- frítt Ísland!

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, fulltrúi Íslands í Evrópuhópi IFOAM/IFOAM Organics Europe ( oldyrm@gmail.com).

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...