Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Sigríður Jónsdóttir.
Sigríður Jónsdóttir.
Lesendarýni 10. mars 2022

Njósnir, hatur og hótanir

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir

Þann 19. nóvember síðastlið­inn birtu útlend öfgasamtök mynd­band á Youtube (Iceland - Land of the 5,000 Blood Mares), en efnið í það var tekið í sveitum þessa lands. Atburðarásinni sem á eftir fylgdi þarf líklega ekki að lýsa fyrir lesendum. Það sem á undan gerðist eru hins vegar atburðir sem færri þekkja.

Njósnir og njósnarar 

Einhver hópur fólks stundaði njósnir og átroðning gagnvart dýralæknum og sveitabæjum víðs vegar um landið, sumar eftir sumar, samfellt í þrjú ár. Þetta virðist hafa byrjað sumarið 2019 en þá varð fólk á Suðurlandi fyrir miklum átroðningi heima hjá sér, einkum í tengslum við hrossarag og blóðtökur. Myndbandið sjálft er sýnilegasta dæmið um þetta. Þar sést að drónum er flogið yfir aðstöðu bænda, að óboðnir gestir troðast með faldar myndavélar heim á bæi og láta sér ekki segjast þegar þeim er vísað frá.

Allnokkur atriði eru greinilega tekin með mannlausum myndavélum, sum jafnvel inni í húsum. Þar hefur verið um innbrot að ræða þegar upptökubúnaðinum var komið fyrir. Langdrægum myndavélum var stillt upp á bæjarhlaði til að ná myndum á næsta bæ.

Fólk fann verulega fyrir þessu og víða þurfti að stöðva blóðtöku vegna átroðnings. Sumir brugðu á það ráð að rétta hrossum sínum að næturlagi, aðrir höfðu menn á vakt fyrir utan svæðið til að tryggja vinnufrið. Átroðningurinn beindist að heimilum fólks, þar sem búa börn og ungmenni, ekki bara fullorðið fólk og fullvinnandi.

Ástandið var verst sumarið 2019, áður en Covid skall á, en næstu tvö sumur á eftir var samt haldið áfram að njósna.

Frá upphafi var ljóst að markmið þeirra, sem reyndu að nálgast blóðtökubæina, var einhliða og aðeins það að koma höggi á starfsemina og sverta ímynd hennar. Það var aldrei markmiðið að kynna sér málið á faglegan hátt eða afla raunverulegra heimilda. Samstarf eða opinskátt samtal við þetta lið var því útilokað. Eins og síðar sannaðist þegar matreiðsla þeirra var sett í loftið. Myndbandið er ekki heimildamynd heldur hreinn og klár áróður.

Hverjir stóðu að þessum njósnum og upptökum? Það voru samtökin Animal Welfare Foundation & Tierschutzbund Zürich (AWF/TSB), fólk að nafni York Ditfurth, Sabrina Gurtner og fleiri ónafngreindir. Nafngreindir samstarfsmenn þeirra á Íslandi voru Árni Stefán Árnason og Hreggviður Hermannsson, samkvæmt því sem fram kemur í myndbandinu sjálfu.

Reglur sem gilda fyrir suma

Það er deginum ljósara að mynda­tökur AWF/TSB með földum myndavélum eru ólöglegar. Matreiðsla og birting efnisins er líka ólögleg. Á heimasíðu Persónuverndar er eftirfarandi tekið fram:

  • Rafræn vöktun með leynd er bönnuð, nema hún styðjist við lög eða úrskurð dómara.
  • Opinber birting á myndefni, t.d. á Netinu, er óheimil nema með samþykki þeirra sem eru á upptökunni. Það má alltaf afhenda lögreglu myndefni. 
  • Réttur einstaklings til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er verndaður í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Íslenskt samfélag, íslenskir fjölmiðlar og íslenskir stjórnmálamenn virðast gera ráð fyrir að þessar reglur gildi ekki um merabændur, fjölskyldur þeirra og samstarfsfólk. Enginn hefur, mér vitanlega, reynt að rannsaka njósnirnar eða ólöglegu upptökurnar, hvernig þær fóru fram eða hverjir gerðu þær. Myndbandið hefur verið sýnt aftur og aftur í flestum fjölmiðlum landsins og kallað heimildamynd. Þingmenn á hinu háa Alþingi stóðu upp hver af öðrum á þingfundi þann 23. febrúar og fordæmdu það sem þeir þóttust hafa séð af myndbandinu. Enginn gerði athugasemdir við lögmæti eða trúverðugleika efnisins. Enginn benti á að rannsókn á efninu hefur ekki farið fram og meint atvik þess aldrei verið staðfest. Þeir einstaklingar sem urðu fyrir þessum ólöglegu birtingum liggja beinlínis í valnum og þetta er verndin og hjálpin sem þeir fá.

Hatursorðræða  

Bæði frumvörpin, sem lögð hafa verið fram um bann við blóðmerahaldi, eru smekkfull af staðlausum og ærumeiðandi ásökunum á hendur bændum og röngum fullyrðingum um búgreinina. Æ síðan myndband AWF/TSB birtist á netinu, hefur málflutningur flutningsmanna og annarra af þeirra sauðahúsi alfarið byggst á því falska og ólöglega gagni. Ekkert annað liggur til grundvallar enda er ekkert annað að hafa málinu til stuðnings. Ég leyfi mér að nefna þennan málflutning hatursorðræðu, þar sem hann byggist á vanþekkingu og fordómum, beinist gegn fámennum og jaðarsettum hópi með fáa eða enga málsvara, er til þess fallinn að skaða hagsmuni þeirra sem hópnum tilheyra, ógna fólki og lítillækka.

Á Vísindavefnum má lesa eftir­farandi:  

„Hatursræða getur haft meira vægi og áhrif þegar hún stafar frá áhrifamönnum, svo sem stjórnmálamönnum, blaða- og fréttamönnum, kennurum og fleirum sem tjá skoðanir sínar og viðhorf á opinberum vettvangi.“ Þar segir einnig: „Internetið hefur reynst tiltölulega ódýr og áhrifaríkur vettvangur fordómafullra einstaklinga og hópa til að dreifa hatursfullum hugmyndum til þúsunda og jafnvel milljóna viðtakenda“ (Jóna Aðalheiður Pálmadóttir & Iuliana Kalenikova, 2019).

Alþingismaðurinn Jódís Skúladóttir, einn flutningsmanna tillögunnar um bann við blóðmerahaldi, hafði þetta að segja í þinginu um daginn:

„Ég er svolítið hugsi yfir því hvernig verið er að afvegaleiða umræðuna eins og með því að hér sé um árás á landbúnað að ræða. Ég hafna því einfaldlega af því að við erum að tala hér um dýravernd.“

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Inga Sæland, sagði:  

„Haldið þið virkilega að verið sé að ráðast á bændur? Haldið þið að verið sé að gera það?“

Já, ég held að það sé verið að ráðast á bændur. Fyrst er njósnað um okkur á ólöglegan hátt og við hundelt heima hjá okkur. Svo er ráðist að heiðri okkar og mannorði. Að endingu er ráðist að atvinnu okkar og lifibrauði. Hvernig geta árásir á einstaklinga orðið öllu svæsnari án þess að beita efnislegum vopnum?

Hótanir

Inga Sæland bítur í þingræðu sinni endanlega höfuðið af skömminni með því að hóta þegnum þessa lands með eftirfarandi ummælum:  

„Þetta myndbrot sem við fengum að sjá er brotabrot af myndefni sem telur sennilega um 119 klukkustundir og maður á eftir að tína hérna fram fyrir ykkur sem látið líta svo út að þetta sé eitthvert einstakt, afmarkað dæmi.“

Hefur hún aðgang að þessu myndefni? Var hún og er í samstarfi við þá aðila sem stunduðu njósnir hér á landi sumar eftir sumar? Hvernig sem því kann að vera varið, getur þingmaður ekki leyft sér að hóta fólki úr ræðustól Alþingis með ólöglegri birtingu illa fengins myndefnis. Alvarleiki þessa máls kristallast í því að þetta virkar. Hversu margir merabændur hafa treyst sér til að stíga fram og blanda sér í þessa umræðu? Við erum ekki mörg sem höfum gert það, frekar en gerist og gengur með aðra þolendur hatursorðræðu. Okkur hefur í allan vetur verið hótað að fleiri myndir yrðu birtar af því tagi sem áður hefur verið sett í loftið. Afleiðingar þeirrar birtingar voru hræðilegar og eru enn yfirstandandi.

Ekkert okkar veit á hvaða bæjum var myndað eða hvenær. Slíkar myndir gætu til dæmis sýnt mig sjálfa fagna Guðmari dýralækni með óþarflega mikilli blíðu. Hann er giftur annarri konu og ég er gift öðrum manni. Ég get ekki vitað hvað kann að vera í pokahorni Ingu Sæland og AWF/TSB. Hér er um hreint og klárt hefndarklám að ræða og þessu verður að linna.  

  1. gr. almennra hegningarlaga, um landráð:

Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það fangelsi allt að 5 árum.

Myndefnið í áróðursmynd AWF/TSB var tekið árin 2019-2021, samkvæmt myndinni sjálfri. Árni Stefán Árnason, sem einnig kemur fram í myndinni, segir eftirfarandi í grein sem hann skrifar sjálfur í Kjarnann þann 30. nóvember 2021:

„Samstarf mitt við AWF/TSB hefur verið þétt í tvö ár, ótal fundir fyrir og eftir afhjúpun.“

Hann segir líka frá því að markmið samtakanna AWF/TSB sé að Alþingi beiti sér fyrir banni á blóðtöku. Þarna lýsir maðurinn langvarandi samstarfi sínu við samtök sem á sama tíma stunduðu njósnir á Íslandi og samkvæmt honum er markmið samtakanna að hafa áhrif á íslensk stjórnmál. Ég get ekki betur séð en að í almennum hegningarlögum sé annað eins og þetta skilgreint sem landráð. 

Í stuttu máli

Þeir sem hafa brotið gegn lögum og siðferðisreglum þjóðfélagsins í þessu blóðmeramáli eru ekki merabændur eða dýralæknar. Hins vegar hefur verið njósnað um okkur, það hefur verið brotið gegn persónuvernd okkar og friðhelgi einkalífs, við höfum orðið fyrir hatursorðræðu og nú er okkur hótað enn frekara ofbeldi úr ræðustól sjálfs Alþingis.

Áróðurskvikmyndin var fundin upp fyrir nærri hundrað árum og notuð af nasistum í Þýskalandi til að sverta ímynd minnihlutahópa á sínum tíma. Þeir stjórnmálamenn sem vöktu þannig athygli á sjálfum sér, öttu almenningi í framhaldinu til óhæfuverka gegn þessum sömu minnihlutahópum. Nú er enn og aftur stríð í Evrópu. Það sem mannkyn hefur einu sinni gert, getur alltaf gerst aftur. Þetta samhengi hef ég áður bent á en það varð óhugnanlega ljóst þegar Árni Stefán Árnason sendi mér opið bréf á Kjarnanum um daginn og sagði:

„Heimildamyndin er unnin af agaðri og kunnri þýskri fagmennsku og þekki ég mjög vel til gerðar hennar.“

Hann átti við áróðursmynd AWF/TSB um blóðmerar á Íslandi.

 

Sigríður Jónsdóttir

Skylt efni: blóðmerar

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...