Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Náttúra, samfélag og hagrænn ávinningur
Lesendarýni 16. nóvember 2022

Náttúra, samfélag og hagrænn ávinningur

Höfundur: Sigurður Torfi Sigurðsson, ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði hjá RML.

Orðin sjálfbær og sjálfbærni hafa verið áberandi í umræðunni á síðustu árum. Þessi hugtök eru gjarnan sett í samhengi við nýtingu náttúruauðlinda eða umhverfismál, en hafa jafnframt gildi í félagslegu og hagrænu samhengi.

Sigurður Torfi Sigurðsson.

Sjálfbærni má skilgreina sem lokað kerfi þar sem verið er að mæta þörfum samtímans með breytingum og/ eða vexti í umhverfi, efnahagslífi og/eða samfélagi án þess að fara út fyrir endurnýjanleg takmörk á nýtingu auðlinda og án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða. Landbúnaður er ekki undanskilinn því að tengjast hugtökum um sjálfbærni. Algengt er að sjá orðin sjálfbær landbúnaður eða sjálfbærni í landbúnaði á prenti og í orði t.d. í skýrslum, blaðagreinum og viðtölum ýmiss konar, en einnig má þau finna í lögum og reglugerðum og pólitískum stefnumótunum. Það kemur m.a. skýrt fram í landbúnaðarstefnunni „Ræktum Ísland“, þar sem strax á fyrstu síðum er talað um „framtíð og sjálfbærni íslensks landbúnaðar“, og í landbúnaðarkafla stefnuskrár núverandi ríkisstjórnar segir að við endurskoðun búvörusamninga verði lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi með því að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þá segir í skýrslum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) að sjálfbær landbúnaður sé eitt af lykilaðgerðum til að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Jafnframt hefur almennt verið viðurkennt af helstu stofnunum heims að sjálfbær landbúnaður sé ein af lykillausnum í loftslagsmálum.

Af ofangreindu má sjá og draga þá ályktun að öll skynsemi liggur í að stunda sjálfbæran landbúnað, sérstaklega á tímum eins og í dag þegar hækkanir á aðkeyptum aðföngum, t.d. áburði og olíu, hafa verið gríðarlega miklar undanfarna mánuði. Einnig er á sama tíma verið að senda skilaboð til bænda þar sem þeir eru hvattir til að framleiða matvæli til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þá hefur líka verið lögð mikil áhersla á þátttöku bænda í aðgerðum í loftslagsmálum, en þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði eru hvattir til að auka sjálfbærni í búrekstri sínum.

Þrjár stoðir sjálfbærs landbúnaðar

Sjálfbær landbúnaður byggir á heildstæðri nálgun þar sem horft er til þriggja meginstoða hvað varðar markmið og áherslur. Þessar þrjár stoðir fléttast hver um aðra og tengjast innbyrðis þannig að þegar hriktir í einni stoð verða hinar samhliða veikari.

Þessar stoðir eru:

  • Umhverfi
  • Samfélag
  • Búrekstur

Jafnvægi á milli þessara stoða ýtir undir seiglu í náttúru, samfélagi og rekstrarumhverfi bænda.

Umhverfisstoðin: Þessi stoð er sennilega hvað best kynnt bæði á prenti og í orði og oft það eina sem menn tengja við í umræðunni um sjálfbæran landbúnað. Með sjálfbærum landbúnaði er lögð áhersla á að nýting náttúrulegra auðlinda sé í jafnvægi, vistkerfi beri ekki skaða af nýtingunni og náttúrulegir ferlar viðhaldi eðlilegri hringrás og endurnýjun. Notkun stuðli að því að líffræðilegur fjölbreytileiki í umhverfinu viðhaldist og auðlindir verði ekki ofnýttar, t.d. með ofbeit búfjár eða þaulrækt. Jafnframt er lögð áhersla á virkt hringrásarhagkerfi þar sem lífræn efni eru nýtt innan hringrásar og að spornað sé við sóun með því að flokka, endurnýta og endurvinna þann úrgang sem til fellur á búi og heimili.

Samfélagsstoðin: Í sjálfbærum samfélögum er rík áhersla lögð á mannleg og félagsleg gildi sem skapa lífshamingju og möguleika til náms og starfa án aðgreiningar af nokkru tagi. Samfélagsleg verðmæti byggja fyrst og fremst á þeim mannauði sem þar er til staðar og viðheldur grunnstoðum samfélagsins gangandi og samstöðu meðal íbúa. Einn af lykilþáttum í sjálfbærum landbúnaði er að samvinna sé á milli bænda og að þeir deili skoðunum sínum og þekkingu sín á milli. Æskilegt er að landbúnaður sem er stundaður falli vel inn í samfélagið og hvert bú styðji við annað og aðra atvinnustarfsemi samfélagsins. Stækkun búa og einhæfni í landbúnaði dregur úr mannþörfum og hætta er á samdrætti í samfélögum og ósjálfbærri þróun nema annað komi í staðinn. Tækifæri þurfa að vera fyrir ungt fólk og að kynslóðaskipti séu möguleg á bújörðum. Einnig að það hafi tækifæri til náms og geti fundið sér vinnu við hæfi.

Búrekstrarstoðin: Sjálfbær landbúnaður byggir á stöðugum efnahag og jákvæðum hagrænum ábata af búrekstri. Náttúran er viðskiptafélagi bóndans og markmiðið í búrekstri ætti að vera að hámarka framleiðslu miðað við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og sjálfbærni í rekstri. Afkoman byggir þ.a.l. á gæðum náttúruauðlinda á bújörðum og því búfé sem þar er ræktað, auk þekkingar og hæfni bóndans. Rekstrarreikningar búa geta verið mælikvarðar á sjálfbærni í landbúnaði, en breytilegur kostnaður eykst eftir því sem sjálfbærni minnkar. Framlegð getur því gefið vísbendingu um hversu sjálfbær reksturinn er ef til eru gögn til viðmiðunar á meðalgildum og breytileika. Hækkun á helstu aðföngum t.d. áburði, olíu, plasti o.fl., sem reiknast allt sem breytilegur kostnaður á rekstrarreikningi og hefur áhrif á framlegð búsins og minnkar bæði heildarafkomu og sjálfbærni. Dæmi um sjálfbærni í landbúnaði sem tekur bæði á búrekstrarstoðinni og umhverfisstoðinni er góð nýting búfjáráburðar og annarra lífrænna áburðarefna sem til falla á búinu til að takmarka aðkeypt áburðarefni til að fullnægja þörfum búsins við öflun fóðurs.

Minna oft meira

Rannsóknir hafa sýnt fram á að stór bú eru oft ekki sjálfbær. Þau geta haft neikvæð áhrif á náttúruleg vistkerfi, búsvæði, heilbrigði jarðvegs, vatn o.fl., auk þess sem kostnaður við aukaframleiðslu umfram sjálfbæra getu þeirra getur haft þau áhrif að auka þurfi aðkeypt aðföng á hverja einingu til að viðhalda eða auka framleiðslumagn. Þetta orsakast af því að breytilegur kostnaður í landbúnaði er ekki alltaf í línulegu falli af framleiðslu, þröskuldur getur verið þegar framleiðslumagn hefur náð hámarki með sjálfbærri nýtingu náttúrauðlinda og lágmarks aðkeyptum aðföngum sem þýðir að til að auka framleiðslu þarf að auka útgjöld t.d. vegna aukinna fóðurþarfa, áburðar eða leigu á túnum svo eitthvað sé nefnt. Þessa stærð á framleiðslumagni má kalla „hámarksmagn í sjálfbærni“ og ætti það að vera markmið hvers bónda að stilla stærð búsins sem næst þessum punkti.

Í rekstrargreiningarverkefnum RML hefur komið fram að mikill breytileiki er á framlegðarstigi á milli búa. Hluti hefur verið útskýrður með mismun í bústjórn og aðstöðu, en hluti er óútskýrður og má e.t.v. heimfæra að einhverju leyti á mismun í sjálfbærni búrekstrar. Þarna eru e.t.v. tækifæri fyrir bændur og full ástæða til að hvetja þá til að rýna í kostnaðarreikninga til að finna „hámarksmagn í sjálfbærni“ fyrir sitt bú.

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...