Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Samtalið
Af vettvangi Bændasamtakana 9. febrúar 2024

Samtalið

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, frambjóðandi til formennsku í Bændasamtökunum.

Mér þykir vænt um að hafa víða fengið góðar viðtökur við framboði mínu til formennsku í Bændasamtökunum. Ég veit að þær byggjast á trausti sem til mín er borið og fyrir það er ég þakklátur.

Trausti Hjálmarsson.

Framboðsfrestur til formanns rennur út þann 22. febrúar og rafræn kosning hefst viku og einum degi síðar, þann 1. mars, enda ber febrúar „tvenna fjórtán“ þetta árið. Dagana 14. og 15. mars á Búnaðarþingi er svo kosið um aðra stjórnarmenn í samtökunum. Ég er ekki í vafa um að þar verði valinn maður í hverju rúmi.

Ég geri mér grein fyrir því að nýkjörinni stjórn Bændasamtakanna verður ekki til setunnar boðið að kosningum loknum. Hagstæðir vindar blása um þessar mundir með okkur úr ýmsum áttum og grípa þarf tækifærin á meðan þau gefast. Í fyrsta lagi hefur okkur tekist að opna augu og eyru stjórnvalda fyrir vandamálum okkar og tækifærum. Það eitt og sér er kærkomið tilefni til bjartsýni.

Við erum einnig að upplifa sterka vitundarvakningu um nauðsynlega sjálfbærni í matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Og við finnum stöðugt sterkara ákall heimsbyggðarinnar um heilnæmi matvæla og ræktun þeirra og framleiðslu með vistvænum búskaparháttum. Í þeim efnum eru íslenskir bændur án nokkurs vafa í allra fremstu röð. Til viðbótar hefur stóraukin fjölgun landsmanna og stöðugt vaxandi ferðamannastraumur stækkað innanlandsmarkaðinn svo um munar. Þjóðin er einhuga í jákvæðri afstöðu sinni til landbúnaðar í landinu. Það er líka ánægjulegt hvað sjá má mörg nýleg dæmi um góðan skilning stjórnvalda á aðstæðum okkar. Skýrsla Byggðastofnunar fyrir um tveimur árum var afdráttarlaus, spretthópur matvælaráðherra var það líka og ráðuneytisstjórahópurinn varð svo kannski endanlega til þess undir lok síðasta árs að opna augu og eyru stjórnvalda.

Engum dylst að við þurfum frekari verðleiðréttingar fyrir afurðir okkar í mörgum búgreinum. Óhugsandi er að velta slíkum hækkunum að fullu út í verðlagið til neytenda. En það eru ýmsar aðrar leiðir færar og þá ekki síst með aukinni hagræðingu. Það er t.d. galið að ausa 1–2 milljörðum króna á ári út um gluggann af því að ekki fást heimildir til sameininga og verkaskiptingar hjá afurðastöðvum í kjötiðnaði. Á þeim vettvangi blasir stærðarhagkvæmnin við og hana eigum við auðvitað að nýta út í ystu æsar. Í þessu sambandi er líka rétt að hafa það í huga að landbúnaður fær hvergi þrifist í heiminum án opinbers stuðnings til þess að greiða fólki aðgang að afurðunum á viðráðanlegu verði.

Nýlegar fréttir um fyrirhugaða fjárfestingu í tómataræktun eru dæmigerðar fyrir þau tækifæri sem fólgin eru í hinum íslensku kjöraðstæðum fyrir matvælaframleiðslu. Fjárfesting upp á ríflega 20 milljarða króna í 27 hektar stóru gróðurhúsi og áform um u.þ.b. tíföldun núverandi tómataræktunar á Íslandi, getur vart byggst á öðru en alþjóðlegum markaðstækifærum vegna hreinleika vatnsins, jarðvarma og „grænu“ rafmagni. Því víðar sem hróður íslenskra matvæla spyrst út, því betra fyrir okkur öll.

Engum vafa er undirorpið að enginn ræðst í fjárfestingu af þessu tagi án þess að hafa reiknað dæmið til fulls. Og um leið og vörn er snúið í sókn í íslenskum landbúnaði verður áreiðanlega unnt að fá jákvæða niðurstöðu úr fleiri reikningsdæmum sem lúta að þróunar- og nýsköpunarfærum í ýmsum búgreinum. Í þeim efnum eiga Bændasamtökin að vera hvetjandi alla daga ársins og blása bændum bjartsýni í brjóst.

Brýnasta verkefnið sem blasir við forystu Bændasamtakanna, og þar af leiðandi formanni þeirra, er að efla samstarf á milli ólíkra búgreina, samstarf við hin fjölmörgu fyrirtæki sem tengjast landbúnaðinum og samstarf við stjórnvöld um stöðugleika í umgjörð búreksturs og svigrúm til greiðslu mannsæmandi launa í honum. Rétt eins og trúin flytur fjöll er ég sannfærður um að gott samtal okkar við velunnara í öllum kimum samfélagsins getur orðið landbúnaðinum mikil lyftistöng.

Nái ég kjöri til formennsku er ég sannfærður um að seta mín á formannsstóli geti laðað fram allt það besta í því fólki sem bændur velja sér til forystu. Samtalið og samstarfið innan stjórnar og við starfsfólk Bændasamtakanna verður þar í öndvegi og vonandi aflvaki margra góðra verka.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...