Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Tómt byggstrá sem bar sex raðir af byggi fyrir storminn.
Tómt byggstrá sem bar sex raðir af byggi fyrir storminn.
Mynd / HSH
Á faglegum nótum 7. nóvember 2023

Stormasamt ár í korntilraunum

Höfundur: Hrannar Smári Hilmarsson, tilraunastjóri í jarðrækt hjá LbhÍ

Byggyrkjatilraun á melajörð á Hvanneyri varð fyrir miklu áfalli í austanstormi 1. september síðastliðinn. Gríðarlegt tjón varð á tilrauninni eins og byggökrum víða eftir storminn. Niðurstöður tilraunarinnar sýndu veðurþol tvíraða yrkja.

Hrannar Smári Hilmarsson.

Sáð var 1. maí í svellkalda jörð á melajarðveg á Hvanneyri. Borið var á því sem samsvarar 500 kg/ha af 15-7-12 áburði og allt fellt niður með sáðinu. Sáð var til 29 mismunandi arfgerða, 14 tvíraða og 15 sexraða. Þar af voru 14 íslenskar kynbótalínur og fjögur skráð íslensk yrki til samanburðar við 11 erlend yrki sem voru á sáðvörumarkaði í vor.

Vorið var blautt og kalt fram undir mánaðamótin júní-júlí þegar sól tók að skína með lítilli sem engri úrkomu út ágúst. Þau tíðindi urðu að stormur gekk yfir 1. september og stóð í nokkra daga en var hvassast fyrst þegar meðalvindhraði stóð í 27 m/sek og hviður í rúmum 40 m/sek. Tilraunin var svo skorin 20. september í góðum þurrki.

Niðurstöðurnar sýndu að snemmþroska bygg kom verr út en seinþroska bygg sem var enn grænt þegar veðrið gekk yfir. Grænt bygg á það til að sveigjast í vindi fremur en að brotna eins og stökkt þroskað bygg. Tvíraða bygg er oftar seinna til þroska en sexraða í tilraunum. Í umræddri tilraun var sexraða bygg að meðaltali tveimur dögum fljótara til skriðs og 10% þurrara við skurð en tvíraða. Tvíraðakorn heldur fast í kornið í axinu, en sexraða bygg er viðkvæmara fyrir því að hrynja úr axinu.

Kornið liggur allt í sverðinum eftir storminn.

Tölfræðileg greining sýndi að fylgni milli uppskeru sexraða byggs og hruns úr axi var sterk neikvæð (r = -0,84) og hámarktæk (p<0,001) en fyrir tvíraða var fylgnin og marktæknin minni (r = -0,28; p<0,1). Sem þýðir að uppskerutap í sexraða arfgerðum útskýrist að nánast öllu leyti af hruni úr axi. Í tilraunum síðustu ára hefur sexraða bygg alltaf verið uppskerumeira en tvíraða að meðaltali en í þessari tilraun var því öfugt farið og sexraða korn uppskeruminna (2,7 t/ha) samanborið við tvíraða (3,4 t/ha). Þrátt fyrir þessi meðaltöl raðgerða var uppskerumesta arfgerðin í tilrauninni sexraða með tæp 5 t/ha. Þessi sexraða arfgerð er dvergvaxin og mældist rétt rúmir 50 cm á hæð en meðalhæð sexraða yrkja var 78,5 cm. Meðalhæð tvíraða arfgerða í tilrauninni var 58,5 cm en þar vegur þungt talsverður fjöldi dvergvaxinna arfgerða sem mældust rúmir 40 cm á hæð. Samkvæmt fylgni greiningar sýndu dvergvöxnu arfgerðirnar meiri strástyrk sem leiddi til meiri uppskeru.

Um strástyrk

Uppskerumagn hefði getað orðið í meðallagi gott í tilrauninni en áhrif stormsins voru greinilega mikil eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Mestur var skaðinn vegna hruns úr axi en stráin brotnuðu einnig við hné og sumar arfgerðirnar tóku að leggjast. Þessir eiginleikar eru allir mismunandi og við þá bætist hálsbrot en það er þegar stráið brotnar rétt undir axinu sem fellur heilt ofan í svörðinn (meira um það síðar). Allir þessir eiginleikar geta flokkast undir strástyrk.

Strástyrkur kemur fram í ýmsum eiginleikum sem við vitum of lítið um. Til að mynda vitum við ekki hvort erfðafylgni sé milli eiginleikanna en við vitum að svipgerðarfylgni milli legu og strábrots er neikvæð. Þessir eiginleikar strástyrks koma ekki alltaf fram í tilraunum og getur verið vandasamt að meta.

Hæð byggs kemur alltaf fram og einföld mæling í framkvæmd og lítil samspilsáhrif milli mælingamanna. Arfgengi fyrir hæð er með því hæsta sem mælist meðal eiginleika í byggtilraunum LbhÍ. Þetta þýðir að einfaldasta, ódýrasta og skilvirkasta leiðin til þess að ná auknum strástyrk í víðri merkingu er að stytta stráið. Þess skal þá um leið getið að ekkert samband er milli hálmmagns og hæðar, tvíraða bygg skilar alltaf meiri hálmi en sexraða vegna þess að tvíraða bygg myndar fleiri hliðarsprota. Hér er þess þó ógetið hve vel tekst til við skurð dvergvaxinna yrkja í ójöfnu landi.
En eins og einn búvísindanemi sagði í kornakrinum í haust, „það þýðir ekki að kynbæta kornið fyrir ójöfnum ökrum“.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...