Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Með rétt stýrðri beit getur fengist einstakur líffræðilegur fjölbreytileiki sem hvorki kemur án beitar né við mikla beit.
Með rétt stýrðri beit getur fengist einstakur líffræðilegur fjölbreytileiki sem hvorki kemur án beitar né við mikla beit.
Á faglegum nótum 18. apríl 2023

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2023 - Annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hið árlega og einkar áhugaverða danska fagþing nautgriparæktarinnar, Kvægkongres, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarinn áratug voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hvert erindi við íslenska bændur.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 12 málstofur með 67 erindum. Í þessari grein verður gripið niður í nokkur erindi sem voru flutt í málstofunum um umhverfismál, líf kálfa og kúa og holdakúabúskap.

4. Umhverfismál

Málstofan um umhverfismál var sú næststærsta á fagþinginu en alls voru flutt 8 erindi tengd þessu efni og raunar fleiri þar sem mörg önnur erindi á fagþinginu tengdust umhverfismálum með einum eða öðrum hætti, enda málefni sem er mikið í umræðunni nú um stundir. Verður hér vikið að tveimur erindanna í þessari málstofu.

Leiðir til að draga úr sótspori

Fyrra erindið sneri meðal annars að því hvernig Arla Foods, sem er stærsta afurðafélagið í danska mjólkuriðnaðinum, vinnur að því að draga úr sótspori sínu. Félagið hefur ákveðið að verða kolefnishlutlaust á komandi áratugum og var það fyrst alþjóðlegra afurðafélaga í mjólkuriðnaði í heiminum til að marka þá stefnu.

Síðan hafa mörg fylgt í kjölfarið. Í erindinu kom fram að neytendur horfa einmitt til afurðafélaganna þegar kemur að sótsporinu og nýleg könnun í Danmörku sýnir m.a. að 80% neytenda gera ráð fyrir því að landbúnaðarafurðir séu framleiddar í sátt við umhverfið og með lágt sótspor. Einnig kom fram að neytendurnir treysta einmitt afurðafélögum betur til þess að ná tökum á þessu en hinu opinbera, þ.e. trúa því að markaðurinn sé betur til þess fallinn að koma með þær lausnir sem neytendur kalli eftir.

Í dag eru danskir kúabændur í mjólkurframleiðslu með eitt lægsta sótspor heims á hvert framleitt kíló mjólkur en þrátt fyrir það hefur Arla sett fram markmið um að lækka það enn frekar. Í dag er reiknað meðalsótspor danskrar mjólkur um 1,1 CO2/kg en árið 2030 á það að vera komið niður fyrir 0,88 CO2/kg, sem er lækkun um 30% miðað við árið 2015. Til að ná þessu markmiði fá innleggjendur hjá Arla sérstakt álag á mjólkina í takti við mat á umhverfisálagi viðkomandi bús. Sérstakt skráningarkerfi vegur og metur stöðu hvers bús og því betur sem búin standa, því meira fá þau fyrir mjólkina. Bændunum stendur svo til boða að fá sérstaka ráðgjöf svo þeir geti náð bættum árangri. Ráðgjafarnir, í samstarfi við færasta vísindafólk Danmerkur, hafa sett fram raunhæfa áætlun um hvernig megi ná þessum árangri en þar vega þyngst atriði sem kallast „5 stærstu“ en þar á meðal er fóður- og áburðarnýting og ending kúa.

Annað stórt atriði er sótspor aðkeypts fóðurs en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru fleiri atriði sem er horft til, en öll til samans skipta máli svo hægt sé að ná tilsettu markmiði árið 2030. Þá gera ráðgjafarnir ráð fyrir því að ef komi fram raunverulegar aðferðir til þess að draga úr metanlosun nautgripa, þá verði hægt að ná enn hraðari árangri en nú er stefnt að.

amkvæmt ráðgjöfum Arla þarf að taka á mörgum þáttum til þess að ná árangri í baráttunni við sótspor mjólkurframleiðslunnar og hefur verið sett upp raunhæf áætlun þar sem hver þáttur hefur fengið vægi fram til ársins 2030.

Fæðubótarefni fyrir kýr?

Hitt erindið sem hér verður fjallað um sneri að rannsókn á fæðubótarefni fyrir kýr en undanfarin ár hefur miklu púðri verið varið í rannsóknir á efnum sem mögulega draga úr metanlosun nautgripa við jórtrun.

Svo virðist sem eitt efni standi mögulega öðrum framar, en það er efni sem kallast BOVAER® og inniheldur 3NOP (3 nítróoxyprópanól) en það er efni sem hindrar lokastig metanmyndunar í jórturdýrum. Þetta kom fram í erindi sem greindi frá tilraunaniðurstöðum með þetta efni en gerð hefur verið ítarleg rannsókn á þessu, á alls um 20 þúsund mjólkurkúm.

Niðurstöðurnar sýna að þegar kúnum er gefin sérstök blanda af þessum efnum og fleirum þá minnkar metanlosun kúnna um 30-44%! Einungis þarf um 60 mg af þessu efni í hvert þurrefniskíló svo magnið er óverulegt og hefur fæðubótarefnið hvorki áhrif á nyt né mjólkurgæði. Enn er þó verið að rannsaka langtímaáhrif fóðrunar með efninu en ef að líkum lætur verður það markaðssett síðar á þessu ári eða í byrjun þess næsta.

Þess má geta að ýmis önnur efni eru í prófun nú í Danmörku og líklega það áhugaverðasta er duft sem unnið er úr rauðu þangi sem heitir Asparagopsis taxiformis. Fyrstu tilraunir Dana, sem gerðar hafa verið á kjötframleiðslugripum, lofa hreint ótrúlega góðu og nú er því beðið með eftirvæntingu tilraunar með mjólkurkýr en hún hefst í þessum mánuði. Þetta efni hefur verið prófað víða um heim með góðum árangri en langtímaáhrifin liggja ekki fyrir, s.s. hvort þangið hafi áhrif á bragðgæði mjólkurvara.

Tilraunir sýna að fæðubótarefni fyrir kýr, sem unnið er úr þangtegund sem heitir Asparagopsis taxiformis, getur snardregið úr metanlosun nautgripa í framtíðinni en tilraunir með efnið fara nú fram í Danmörku.

Óhætt er að mæla með því fyrir áhugasama að kynna sér önnur erindi þessarar málstofu.

Tilraunir sýna að fæðubótarefni fyrir kýr, sem unnið er úr þangtegund sem heitir Asparagopsis taxiformis, getur snardregið úr metanlosun nautgripa í framtíðinni en tilraunir með efnið fara nú fram í Danmörku.

5. Líf kálfa og kúa

Þessi málstofa, sem er með nokkuð óvenjulegu nafni, var sú stærsta á fagþinginu en um eins konar safnkistu erinda var að ræða. Þau voru því mjög ólík en nokkur þeirra sneru að aðbúnaðarmálum, eitt að kynbótum, annað að frjósemi o.s.frv. Verður hér gripið niður í tvö þeirra.

Lengra bil á milli burða

Nánast um allan heim er bil milli burða hjá kúm í kringum 1 ár en það þekkist þó vel að hafa lengra bil á milli burða og sneri einmitt eitt erindið að rannsókn á því sem vísindafólk á vegum háskólans í Aarhus framkvæmdu á 48 kúabúum þar sem kýr voru ekki sæddar fyrr en að lágmarki 100 dögum frá burði. Kostir þess að hafa lengra á milli burða eru að þá eru hlutfallslega færri geldstöðudagar miðað við framleiðsludaga og færri burðir sem margir leggja að jöfnu við aukna endingu kúa. Þá þýðir það um leið að þörfin fyrir kvígur minnkar vegna lægri endurnýjunarþarfar. Gallinn er aftur á móti að það dregur nokkuð úr nytinni þegar líður á mjaltaskeiðið, það verður meiri truflun í hjörðinni vegna yxnis og þá er kúnum hætt við að fitna.

Niðurstöður rannsóknarinnar, þar sem bornar voru saman upplýsingar frá búum með langt bil á milli burða og öðrum með styttra bil, sýndu að kýr sem eru sæddar lengra frá burði halda betur, sem kemur væntanlega ekki mörgum kúabændum á óvart. Þá var ekki munur á frumutölu eða 305 daga nyt kúa svo ljóst er að júgurvefurinn jafnar sig jafn vel í kúm sem eru með langt mjaltaskeið og hjá þeim sem eru með styttra mjaltaskeið.

En það sem kom á óvart var að endurnýjunarhlutfall þessara kúa var ekki lægra en samanburðarkúa. Þ.e. bændurnir á búum með lengra bil á milli burða sendu álíka margar kýr í slátrun og hinir sem ekki voru með þessa framleiðsluaðferð. Skýringin var sú að heilsufar sumra kúa var ekki nógu gott og var á það bent í niðurstöðum rannsóknarinnar að munur innan hjarðar skipti í raun meira máli en milli hjarða. Með öðrum orðum þá þyrfti að finna leið til þess að geta fundið heppilegar kýr fyrir langt mjaltaskeið og sæða þær þá síðar en aðrar sem síður eru til þess fallnar.

Munur á broddi á milli búa

Síðara erindið sem hér verður fjallað um sneri að einkar áhugaverðri rannsókn á broddmjólkurgæðum í dönskum fjósum. Gæði brodd- mjólkur, mæld sem magn mótefna með svokölluðum Brix mæli, skipta verulegu máli fyrir kálfinn, þrif hans og vöxt og því betri sem gæðin eru því betur þrífst kálfurinn. Þar að auki er mikill munur á því hve mikið þarf að gefa kálfum af broddmjólk, en séu gæðin góð má spara allt að 25% af gefnu magni miðað við broddmjólk með slakari gæðum. Vitað er að töluverður munur er á meðalgæðum brodds á milli fjósa og sneri rannsóknin að því að reyna að finna skýringu á því hvaðan þessi munur stafaði.

Bæði var skoðað til hlítar hvernig fóðrun var háttað í fjósunum, hvort lýsing í þeim hefði áhrif, sérstök fóðrun geldkúa eða einhverjir aðrir augljósir þættir. Í stuttu máli sagt þá fannst enginn teljandi munur á niðurstöðunum og virðist sem meðalgæði brodds stjórnist af öðrum þáttum og þá líklega umhverfisþáttum. Þó svo að niðurstaða rannsóknarinnar hafi ekki sýnt fram á nein bein tengsl við broddmjólkurgæði þá er niðurstaðan mikilvæg í leitinni að því hvað skýri mun á milli búa og hefur mögulega þrengt hringinn í þeirri leit.

Mæld meðal broddmjólkurgæði í 37 dönskum fjósum. Mynd. Meyer og Kristiansen

6. Holdakúabúskapur

Holdakúabúskapur er stór búgrein í Danmörku og var því nokkuð eðlilega sérstök málstofa tileinkuð þessari framleiðslugrein en í málstofunni voru flutt 5 erindi. Fram kom í einu þeirra að alls eru í Danmörku á annan tug holdakúakynja og fá bændurnir gripagreiðslur byggt á fjölda holdakúa. Þó fá þeir sem eru með færri en 20 kýr ekki styrk, enda líta Danir svo á að þá sé um áhugamennsku að ræða sem er ekki styrkhæf.

Í einu erindinu var m.a. farið yfir hina fjölbreyttu möguleika sem bændur í þessari búgrein hafa varðandi markaðssetningu, en margir með holdagripi hafa fundið leiðir til að auka framlegð búa sinna með beinni sölu. Þannig stunda sumir bændanna beina sölu til neytenda með vefverslunum, aðrir selja í gegnum Facebook og enn aðrir reka smáverslanir á búum sínum. Nýjung hjá sumum er að reka sérstaka kjötsölubíla sem keyra um þéttbýlisstaði og selja kjöt á fyrirfram ákveðnum stöðum og tímum. Afar áhugaverð lausn við sölu.

Beitarbúskapur tryggir lífræðilegan fjölbreytileika

Í Danmörku, rétt eins og víða í Evrópu, eru holdakúabú einkar mikilvæg þegar kemur að varðveislu og viðhaldi á landi og fjölluðu tvö erindi einmitt um þetta.

Nautgripir ganga ekki mjög nærri beit, sé beitarstjórn þeirra rétt, og því hefur það sýnt sig að þar sem slíkur búskapur er stundaður þá verður gróðurþekja slíks beitarlands fjölbreyttari en t.d. lands sem alls ekki er beitt!

Þetta er mikilvægt umhverfisatriði sem mikið hefur verið rannsakað í Danmörku á undanförnum árum og fá flestir holdabændur sem svona beitarbúskap stunda sérstaka styrki til þess að taka land í fóstur fyrir t.d. sveitarfélög sem eiga land.

Fram kom að bændur eru að fá þetta 50-70.000 íkr. fyrir hvern hektara sem tekinn er í fóstur með þessum hætti, en þá má ekki vera með meira beitarálag en sem nemur að hámarki 250 kg lífþunga á hvern hektara svo gróðurþekjan nái sér vel á strik. Þess má geta að íslenskir hestar eru einnig oft notaðir í Danmörku í þessum tilgangi!

Betri dýravelferð

Danska matvælastofnunin er með sérstakt gæðakerfi sem bændur geta skráð sig til þátttöku í og standist þeir kröfurnar fá afurðir búanna sérstaka merkingu sem gefur bændunum tækifæri til þess að fá meira fyrir afurðir sínar. Inn á þetta var komið í málstofunni en þetta kerfi byggir á því að matvælastofnunin gefur búum sérstaka merkingu, mismunandi mörg hjörtu, eftir því hve langt umfram reglugerðir og lög búin ganga til þess að bæta velferð dýranna.

Því lengra sem bændurnir eru tilbúnir að ganga, umfram lágmarkskröfur hins opinbera, því fleiri hjörtu geta afurðir búsins fengið. Þetta eru atriði og kröfur sem m.a. lúta að einfaldri gæðastýringu, aðbúnaði gripanna, meðhöndlun dýranna og fleiri þáttum. Neytendur geta svo valið afurðirnar út frá því hve mörg hjörtu hafa verið sett á pakkningarnar og fer verðið eðlilega hækkandi með fjölda hjarta.

Sem dæmi þá geta bændur sem eru með einfalda gæðastýringu og góðan aðbúnað gripa s.s. enga gripi bundna, engar heilrimlastíur, legusvæði með undirburði og rúmt á gripum (þumalfingurreglan er 100 kg/m2) fengið 2ja hjarta vottun. Til þess að fá þriðja hjartað í þessu kerfi þarf t.d. kálfurinn að ganga undir kúnni í mun lengri tíma en hefðbundið er svo dæmi sé tekið.

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram með umfjöllun um danska fagþingið.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...