Gunnar dregur sverðið úr slíðri. Myndin fylgdi viðtali sem tekið var við Gunnar og birtist á baksíðu Tímans 1975.
Gunnar dregur sverðið úr slíðri. Myndin fylgdi viðtali sem tekið var við Gunnar og birtist á baksíðu Tímans 1975.
Fréttir 15. desember 2025

Vinnuaðferðum skilað til nýrrar kynslóðar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Út eru komnar þrjár bækur um verk Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara sem smíðaði m.a. merk tilgátuhús og víkingasverð sem sýnt var á Smithsoniansafninu.

Gunnar Bjarnason.
Mynd / Framtíð fyrir fortíð okkar

Gunnar Bjarnason (1949–2014) vann við smíðar allan sinn starfsferil og sérhæfði sig einkum í viðgerðum gamalla húsa, auk þess að taka þátt í byggingu Þjóðveldisbæjarins og fleiri tilgátuhúsa, til dæmis Auðunarstofu hinnar nýju á Hólum í Hjaltadal, Eiríksbæjar í Dölum, Þjóðhildarkirkju og Eiríksbæjar í Brattahlíð á Grænlandi.

Í kjölfar málþings sem haldið var í Þjóðminjasafninu í minningu Gunnars árið 2019 varð til samstarfsverkefnið Forn vinnubrögð í tré og járn. Var vilji til að þau gögn sem Gunnar hafði látið eftir sig yrðu aðgengileg fleirum og er það grundvöllur þriggja bóka:

Þrjár bækur um smíðar

Framtíð fyrir fortíð okkar, húsaviðgerðir Gunnars Bjarnasonar: Gunnar kom að viðhaldi fjölda húsa úr húsasafninu um allt land. Hann lagði gjarnan metnað sinn í að vinna með þeim aðferðum sem notaðar voru á þeim tíma sem húsin voru byggð og endurnýta það sem hægt var í hverju húsi fyrir sig.

Í bókinni er fjallað um viðgerðir Gunnars á gömlum húsum og dæmi tekið af vinnu hans, m.a. með ljósmyndum. Má sem dæmi nefna viðgerð á þaki á Smiðshúsi sem nú er í Árbæjarsafni, á þaki á Hraunskirkju í Keldudal, á klæðningu Sjávarborgarkirkju í Skagafirði, á glugga og grind á húsinu Norðurpólnum í Reykjavík, á stokki úr húsi í Bergen í Noregi og á stoð á Galtastöðum fram í Hróarstungu. Bókin er 41 bls.

Hinn taktfasti dans hamars á steðja, eldsmíði Gunnars Bjarnasonar:

Eldsmíði var stór hluti af vinnu Gunnars seinni árin og sýnir bókin hluta þeirrar vinnu, m.a. lamir, skrár, lása, lyklar, hespur, slár, hurðarhringi og kistujárn. Hann smíðaði einnig talsvert úr tré, þ.á m. kistur og verkfæri.

Fyrir landnámssýninguna í Aðalstræti í Reykjavík smíðaði hann einnig skála sem sérstaklega er ætlaður fyrir blinda og sjónskerta þar sem þau geta snert og gert sér grein fyrir lögun hússins með þeim hætti. Bókin er 41 bls.

Sverðið

Fornaldarsverð Gunnars Bjarnasonar: Miðaldasverð sem Gunnar smíðaði sem ungur maður er einstaklega fallegur gripur og sýnir vel hæfni hans þá þegar til að fást við flókin verkefni og leysa þau. Hann fékk hugmyndina að smíðinni þegar hann handlék gamalt víkingasverð sem fundist hafði í Hrafnkelsdal í Múlaþingi og er varðveitt í Þjóðminjasafni, þar sem Gunnar var í eina tíð starfsmaður. Brandurinn var tvíeggja, beinn og breiður og gekk dæld eftir honum endilöngum, svokallaður blóðrefill.

Smíðin hófst árið 1971 og henni lauk 1975. Gunnar svarf sverðið úr stáli og nýtti til þess bílfjöður úr rússajeppa. Hann smíðaði sverðið með þeirri tækni sem víkingarnir tileinkuðu sér. Smíðin fól í sér málmsteypu, slípun á stálinu í brandinum, leðursaum og spjaldvefnað við gerð fetils sem liggur yfir öxl þess sem ber sverðið. Hjöltu sverðsins eru koparog silfurslegin. Gunnar nefndi að silfursmíðin væri vandasamt verk og hafi tekið mikinn tíma. Þykja hjöltun sérlega glæsileg. Ekkert slíður fylgdi sverðinu úr Hrafnkelsdal, en hann sagðist hafa haft leifar og pjötlur úr fornum slíðrum til hliðsjónar sínu slíðri. Sverðslíður hafa yfirleitt verið úr tré og skinn dregið yfir og er slíður Gunnars þannig.

Sverðið var m.a. sýnt á landafundasýningunni Vikings: The North Atlantic Saga hjá Smithsonian-safninu í Washington árið 2000. Sverðið var svo sýnt víðar í Bandaríkjunum á vegum Smithsonian, m.a. í New York, Denver, Los Angeles og Minneapolis en endaði síðla árs 2002 í Ottawa í Kanada. Bókin er 33 bls.

Skilað til nýrrar kynslóðar

Í inngangi að bókunum segir að við skráningu gagna sem Gunnar skildi eftir sig og snúa að viðhaldi gamalla húsa og umsýslu um þann hluta menningararfsins sem byggingar og hús eru, hafi tvennt verið haft að leiðarljósi. Annars vegar að gögnin yrðu varðveitt t.d. á safni og hins vegar að þau gætu nýst þeim sem í dag eru að fást við sams konar verk. Gögnin er búið að flokka og skrá og voru þau á dögunum afhent Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu. Með bókunum er svo fróðleik um vinnuaðferðir Gunnars skilað til nýrrar kynslóðar.

Útgefandi er Forn vinnubrögð í tré og járn, 2025. Textar: Kristín Sverrisdóttir, ekkja Gunnars, og Málfríður Finnbogadóttir. Prentað í Prentmiðlun. 

Sjávarborgarkirkja endurvígð 21. ágúst 1983. Mynd / Framtíð fyrir fortíð okkar

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f