Neoliner Origin er stærsta vindknúna flutningaskip heims í dag. Þótt það sé lítið í samanburði við risaskip sem flytja mestan hluta vöru um heiminn, telja ýmsir að vindknúin skip geti gegnt lykilhlutverki í minni flutningum og sem viðbót við græn orkuskipti.
Neoliner Origin er stærsta vindknúna flutningaskip heims í dag. Þótt það sé lítið í samanburði við risaskip sem flytja mestan hluta vöru um heiminn, telja ýmsir að vindknúin skip geti gegnt lykilhlutverki í minni flutningum og sem viðbót við græn orkuskipti.
Mynd / Neoliner
Utan úr heimi 11. desember 2025

Vindknúið flutningaskip

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nýtt vindknúið fragtskip er nú í föstum ferðum milli Frakklands og Bandaríkjanna.

Franska fyrirtækið Neoline hefur tekið stórt skref í átt að sjálfbærni í sjóflutningum með tilkomu Neoliner Origin, fyrsta vindknúna flutningaskipsins sem fer í reglulegar ferðir yfir Atlantshafið. Skipið, sem er 136 m langt, 24,2 m breitt og ristir 5,2 m, hóf siglingar sl. sumar og er sagt losa allt að 80% minna af gróðurhúsalofttegundum en hefðbundin dísilknúin skip.

Neoliner Origin er hannað sem „ro-ro“ flutningaskip (hægt að ferma og afferma með ökutækjum) með þremur hleðslusvæðum og 12 metra breiðum rampi sem gerir kleift að flytja bæði hefðbundinn farm og stærri farm, allt að 9,8 metra háa og 200 tonna þunga hluti, án þess að nota krana. Burðargeta skipsins er um 5.000 tonn og farmrýmið er samtals 3.000 m².

Skipið notar vind sem megindrifkraft, með tveimur stífum Solidsail-seglum úr samsettum efnum (m.a. kolefni og trefjagleri) sem þola mikið álag og veita hámarks orkunýtingu. Heildarflatarmál seglanna er um 3.000 m², og auk þess er skipið búið dísilrafmagnskerfi til að tryggja stöðugan hraða og öryggi.

Flutningaskipið fer mánaðarlegar ferðir á milli Saint-Nazaire í Frakklandi og hafna í Bandaríkjunum og Kanada, þar á meðal Baltimore og Halifax. Með 11 hnúta meðalsiglingahraða tekur ferðin frá Frakklandi til Bandaríkjanna eða Kanada á bilinu 13 til 18 daga vestur og 10 til 15 daga til baka.

Samanburður á flutningaskipum.

Umhverfisvæn lausn

Markmið Neoliner er að endurvekja seglskipamenningu með nútímatækni og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í alþjóðlegum flutningum. Lausnin fellur að stefnu margra fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð og kolefnissamdrátt. Fyrirtæki á borð við Renault Group, Beneteau, Hennessy, Clarins og Manitou hafa þegar tryggt sér pláss á skipinu og styðja verkefnið sem mikilvægt skref í átt að grænni framtíð.

Á fyrsta ferðalagi skipsins í sumar sem leið voru fluttar vörur á borð við 500.000 flöskur af Hennessy-koníaki, franskar brioche-brauðvörur og lyftarar og hybrid-bílar frá Renault. Þrátt fyrir að skipið sé í tilraunafasa og hafi mætt áskorunum, eins og bilaðri seglplötu í miðri ferð, tókst því að draga úr eldsneytisnotkun um helming miðað við hefðbundin skip.

Sextíu milljónir evra

Neoliner Origin kostaði um 60 milljónir evra í smíði og er stærsta vindknúna flutningaskip heims í dag. Þótt það sé lítið í samanburði við risaskip sem flytja mestan hluta vöru um heiminn, telja ýmsir að vindknúin skip geti gegnt lykilhlutverki í minni flutningum og sem viðbót við græn orkuskipti. Með þessu framtaki vonast Neoliner til að marka upphaf nýrrar aldar í umhverfisvænum sjóflutningum. Ef vel tekst til gæti vindorkuknúin sigling orðið raunhæfur kostur fyrir fyrirtæki sem vilja minnka kolefnisspor sitt – og jafnvel fyrir farþega sem leita að lágkolefnisvalkosti í langferðum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...