Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis, þar sem undanþágur afurðastöðva í landbúnaði frá samkeppnislögum um sameiningar eru felldar niður.
Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis, þar sem undanþágur afurðastöðva í landbúnaði frá samkeppnislögum um sameiningar eru felldar niður.
Mynd / smh
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þeim eru þær grundvallarbreytingar að undanþágur afurðastöðva í landbúnaði frá samkeppnislögum um sameiningar eru felldar niður.

Um endurskoðuð frumvarpsdrög er að ræða frá því sem lagt var í samráðsgátt stjórnvalda í október á síðasta ári til umsagnar.

Áfram samstarfsheimildir

Áfram verður þó gert ráð fyrir samstarfsheimildum afurðastöðva í sérstökum framleiðendafélögum bænda, sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda, um afmarkaða þætti starfseminnar. Sú breyting verður að slíkar heimildir ná einungis til kjötafurðastöðva í slátrun sauðfjár, nautgripa og hrossa, en ekki lengur til svína og alifugla. Samstarfsheimildirnar felast í undanþágu frá 10. og 12. greinum samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið mun hafa umsjón og eftirlit með stofnun og skráningu framleiðendafélaganna og framkvæmd ákvæða búvörulaganna sem heimila undanþágurnar frá samkeppnislögum.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að stefnt sé að því að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar að teknu tilliti til meginreglna samkeppnisréttar og þannig tryggja að innlendir frumframleiðendur hafi sambærilegt svigrúm til samvinnu og hagræðingar og hjá nágrannaþjóðum okkar.

Nauðsynleg hagræðing hjá mjólkurafurðastöðvum

Þegar gildandi búvörulög voru samþykkt á Alþingi í apríl 2024 voru almenn ákvæði innleidd um undanþáguheimildir kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum til að vinna sameiginlega að markaðsstarfi og til sameininga í 71. grein A í búvörulögum. Afurðastöðvar í mjólkuriðnaði hafa reyndar haft slíkar heimildir í um 20 ár, sem settar eru fram í 71. grein búvörulaga.

Í greinargerð með frumvarpi þeirra laga, númer 85/2004, segir að markmið 71. greinar sé að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni, bæta afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu og viðhalda þeim stöðugleika sem þá hafði náðst milli framleiðslu og eftirspurnar. Þannig var afurðastöðvum í mjólkuriðnaði gert kleift að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá og vísað til þess að líklegt væri að tollar myndu lækka á samkeppnisvörum í kjölfar skuldbindinga ríkisins vegna samninga stjórnvalda.

Í greinargerðinni sagði enn fremur að þar til markaðurinn geti talist þroskaður í þessum skilningi verði miðað við að starfsemi afurðastöðva í mjólkuriðnaði verði undanskilin gildissviði samkeppnislaga en á móti verði heildsöluverð helstu mjólkurafurða ákveðið af verðlagsnefnd. Með því ætti að nást fram nauðsynleg hagræðing hjá afurðastöðvum án þess að verð nauðsynjavara hækki til neytenda.

Samstarf óháð búgrein

Í greinargerðinni sem nú fylgir frumvarpsdrögum segir að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað bent á þá vankanta sem fylgt hafa beitingu 71. greinar búvörulaga og lagt til að ákvæðið verði fellt brott til að efla innlenda samkeppni í mjólkuriðnaði og tryggja að afurðastöðvar starfi í samræmi við almennar leikreglur á markaði, líkt og aðrar atvinnugreinar.

Í drögum frumvarpsins sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda í október var lagt til að fella 71. greinina brott og þess í stað yrði lögfest ein undanþáguheimild fyrir bændur til að geta átt samstarf óháð því í hvaða framleiðslu þeir væru. Í boðuðum breytingum nú eru hins vegar báðar 71. greinarnar inni í frumvarpsdrögum, en með breyttu inntaki. Þannig eru sams konar ákvæði um samstarfsheimildir, ákvæði sem varða sameiningar tekin út og ný ákvæði sett inn um að framleiðsluhluti framleiðendafélaga og afurðastöðva skuli vera fjárhagslega aðskilinn frá annarri starfsemi afurðastöðva.

Nánari útfærslur í reglugerð

Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð til að útfæra nánar ákvæði 5. greinar búvörulaga sem fjallar um hvaða félög teljist til framleiðendafélaga með nánari útfærslu varðandi skráningu framleiðendafélaga, starfshætti, lágmarksfjölda félaga, félagsaðild, skyldur frumframleiðenda gagnvart félagi og upplýsingagjöf.

Frumvarpinu er ekki ætlað að hafa áhrif á samstarf, verkaskiptingu og sameiningar sem stofnað hefur verið til samkvæmt gildandi búvörulögum og ákvæða 71. greinar og 71. greinar A. Slíkt samstarf mun þó sæta eftirliti Samkeppniseftirlitsins. Ætli afurðastöðvar að sameinast þá munu gilda um slíka samruna sömu ákvæði og skilyrði samkeppnislaga og um samruna annarra fyrirtækja á Íslandi. Ekki eru áformaðar breytingar á 13. grein búvörulaga um verðlagningu á mjólk, sem nú er í höndum verðlagsnefndar búvara.

Ávinningur bænda og neytenda metinn

Í gildandi búvörulögum er ákvæði um að fyrir lok árs 2028 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynsluna af framkvæmd undanþágureglu 71. greinar A og meta áhrif hennar með hliðsjón af markmiðsákvæðum laganna. Meta skuli sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hafi verið.

Í frumvarpsdrögum er komið nýtt ákvæði um mat á reynslunni af framkvæmd 71. greinar og 71. greinar A. Þar segir að fyrir lok árs 2030 skuli ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði hagfræði og samkeppnisrekstrar um reynsluna af þeim og meta áhrif undanþágu frá 10. og 12. greinum samkeppnislaga, meðal annars með hliðsjón af 1. grein búvörulaga um tilgang laganna. Meta skuli sérstaklega hver ávinningur bænda og neytenda hefur verið.

Styrkir ekki stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði.Mynd / ál

„Ég sé ekki að frumvarpið í þeirri mynd sem það er nú sé til þess fallið að styrkja stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, því miður,“ segir Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, þegar hún er spurð álits á frumvarpsdrögum.

„Þörfin fyrir hagræðingu í landbúnaði hefur verið augljós um langt skeið og því var afar mikilvægt fyrir greinina að fá inn þær breytingar sem gerðar voru á búvörulögum árið 2024, þar sem kjötafurðastöðvum er heimilt að hagræða með sambærilegum hætti og hefur verið heimilt í mjólkuriðnaðinum um áratugaskeið. Aðgerðir til að ná og halda niðri kostnaði í matvælaframleiðslu styrkir samkeppnishæfni greinarinnar og við leggjum þunga áherslu á að halda áfram á þeirri braut en ekki snúa af henni.“

Dregið úr heimildum úrvinnslufyrirtækja

Margrét segir að með frumvarpsdrögum sé lagt til að draga úr heimildum úrvinnslufyrirtækja bænda til samvinnu og flækja regluverk töluvert frá því sem nú er, með tilheyrandi auknum kostnaði. „Nú þarf greinin á stöðugleika að halda. Sífelldar breytingar á regluverki landbúnaðarins – rétt eins og annarra greina – eru ekki til þess fallnar að stuðla að aukinni fjárfestingu, framþróun eða nýsköpun í greininni en það er nákvæmlega það sem þarf til að styrkja samkeppnishæfni og viðnámsþrótt inn í framtíðina.“

Samkvæmt upplýsingum úr atvinnuvegaráðuneytinu hefur frumvarpið verið afgreitt í þingflokkum stjórnarflokkanna, birt á vef Alþingis og sé því tilbúið til fyrstu umræðu sem var á dagskrá í gær, miðvikudag.

Eftir að fyrsta umræða þess hefur farið fram verður því væntanlega vísað til atvinnuveganefndar sem mun í kjölfarið óska eftir umsögnum og bjóða umsagnaraðilum á sinn fund.

Skylt efni: Búvörulögin

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...