Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Fyrirtæki L'oréal framleiddi fyrsta tilbúna hárlitinn árið 1907 undir nafninu Auréole, eða geislabaugur.
Fyrirtæki L'oréal framleiddi fyrsta tilbúna hárlitinn árið 1907 undir nafninu Auréole, eða geislabaugur.
Líf og starf 5. febrúar 2024

Umhverfisvænn hárlitur

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Hárlitun hefur í aldanna rás verið fastur punktur í sögunni, haft mikil menningarleg áhrif, áhrif á tískustrauma, samfélagsleg viðmið og persónulega tjáningu. Hárlitur hefur verið notaður sem uppreisn, leið til að passa inn í eða einfaldlega sem tjáning hvers og eins.

Á meðan okkur flestum þykir eftirsóknarverðast að vera með sem náttúrulegastan hárlit erum við kannski færri sem veltum fyrir okkur hvaða skaðlegu áhrif hárlitun hefur. Einhverjir hrukku í kút fyrir nokkrum árum þegar í ljós kom að efni í slíkum litum gætu ýtt undir aukningu krabbameinsfrumna, en rannsóknir National Institute of Environmental Health Sciences sýndu að í þeim finnast fjöldi efna sem valda hormónatruflunum auk þess að geta haft áhrif á myndun krabbameins. Þar má m.a. nefna þalöt, paraben, sýklósíloxan og ýmsa málma sem eru á lista Umhverfisstofnunar vegna slæmra áhrifa þeirra á heilsuna, auk þess að vera áhætta fyrir umhverfið.

Upphaf hárlitunar

Hárlitur til forna - fyrir þúsundum ára - innihélt vissulega náttúrulegri innihaldsefni en almennt eru í dag.

Má þar nefna henna, indigó og saffran sem voru notuð til að lita bæði hár og reyndar húð. Voru Egyptar hrifnastir af að lita hár sitt svart eða rautt með henna, Grikkir og Rómverjar blönduðu blýi og brennisteinsdufti fyrir sinn hárlit á meðan Kínverjar til forna notuðust við blöndu af svörtu bleki og okkur til að lita hárið. (Okkur, úr grísku, er náttúrulegt leirlitaduft sem inniheldur járnoxíð, er gulbrúnt á lit og er með elstu litarefnum sem mannkyn hefur notað. Til eru fleiri litaafbrigði okkurs, meðal annars rautt og brúnt.)

Innfæddir Bandaríkjamenn nýttu aftur á móti margs konar plöntur og steinefni til að búa til náttúrulegan hárlit, með litum allt frá rauðu yfir í brúnt til svarts.

Þessar fyrstu aðferðir snerust sem sé ekki aðeins um fagurfræði heldur þjónaði einnig menningarlegum og trúarlegum tilgangi.

Þróun litunaraðferða gegnum aldirnar

Þróun hárlitunar á miðöldum varð nokkur með aðstoð áls, brennisteins og hunangs sem mynduðu ljósari hárliti. Ítalskar konur endurreisnartímabilsins notuðu þessa sömu blöndu, auk kalks, til að bleikja hárið og sátu marga klukkutíma í sólinni til að fá gylltan ljósan lit. Þetta ferli var ekki aðeins tímafrekt heldur einnig skaðlegt fyrir hárið og gat leitt til húðertingar og jafnvel heilsufarsvandamála. En fólk setti það ekkert sérstaklega fyrir sig.

Jæja, iðnbyltingin leiddi af sér verulegar framfarir í vísindum og tækni, sem urðu til þróunar á tilbúnum hárlitum. Efnafræðin tók völdin og árið 1907 bjó franski efnafræðingurinn Eugène Schueller til fyrsta tilbúna hárlitinn sem hann kallaði „Auréole“, eða geislabaug. Hann lét ekki þar við sitja heldur stofnaði fyrirtækið L'Oréal árið 1909, sem margir þekkja í dag.

Á 20. öld urðu aftur miklar framfarir í hárlitunartækni með þróun nýrra formúla og aðferða en að sama skapi kom í ljós hættan sem efnasamsetningar geta valdið.

Var fyrsta skjalfesta eitrun vegna hárlitunar árið 1924, þá við notkun svarts hárlitar sem innhélt efnið PPD. (Parapheny-lenediamine, sem í dag er enn algengt innihaldsefni í varanlegum dökkum hárlit.)

Slæmt fyrir umhverfið

Eins og nærri má geta innihalda flestir hárlitir efnafræðilega blöndu sem hefur slæm áhrif á lífríkið þegar þeim hefur verið skolað niður um niðurfallið.

Má þar nefna ammoníak, sem veldur skaða, jafnvel í litlum styrk. Ammoníak er stór þáttur í flestum litablöndum sem festir, auk blýs, bensens og tólúen sem öll eru skaðleg lífríki sjávar. Auk fleiri efna er þar áðurnefnt PPD einnig á lista, en það gefur hárinu m.a. náttúrulegra útlit. Það er því frekar kaldhæðnislegt að hugsa til þess hve neikvæð áhrif efnið getur haft á erfðaefni allra lífvera.

Vistvænir hárlitir eru taldir heilbrigðari kostur en þó þarf að gæta að innihaldi þeirra. Svokallað svart henna getur til dæmis einnig innihaldið PPD og sumar litablöndur, þó gerðar séu úr grænmeti, geta verið blandaðar vetnisperíoxíði svo liturinn haldist lengur.

Heimalitun með grænmeti vekur þó ef til vill forvitni einhverra og má gera tilraunir með sítrónu, gulrót eða rauðrófusafa, kaffi, kamillutei eða túrmerik. Þetta getur fólk dundað sér við með hreinni samvisku, enda er litunin þá án allra aukaefna þó ekki sé sjálfgefið hvernig útkoman verður ...

Hvar finn ég umhverfisvænar hárvörur?

Sem dæmi um hárvörur án kemískra efna er vörumerkið Aveda. Stofnað árið 1978 af austurrísk- ameríska bisnessmanninum Horst Rechelbacher sem var brautryðjandi í framleiðslu eiturefnalausra hárvara.

Eru vörur Aveda með mjög lágt hlutfall ammóníaks, eru að auki lífrænar og nær án rotvarnarefna og upplagt að leita að hárgreiðslustofum hérlendis sem nota þær.

(Taka skal fram að önnur vörumerki sem segjast ammoníaklaus innihalda ma. mikið magn af jarðolíu og ammóníumhýdroxíði, en það á ekki við um Avedavörur Horst Rechelbacher.)

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...