Styrkur til útgáfu bókar um útskurðarverk Siggu á Grund
Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, eða Sigga á Grund eins og hún er alltaf kölluð, fékk nýlega 500.000 króna menningarstyrk frá Flóahreppi. Sigga er listamaður af guðs náð en hennar aðalsmerki er að skera út fallega hluti úr fjölbreyttum viðartegundum.
Styrkurinn fer í verkefnið „Sigga á Grund – saga og varðveisla handverksarfs“ en markmið verkefnisins er að skjalfesta til varðveislu yfirlit og sögu útskurðarlistaverka Siggu á Grund og að skrásetja sögu listaverkanna, safna saman myndum og umfjöllunum, hvernig þau voru búin til, úr hvaða efni og hvar þau eru staðsett í heiminum.
„Ég er mjög ánægð með þennan rausnarlega styrk og þakka kærlega fyrir hann. Ég er svo heppin að eiga myndir af flest öllum verkum mínum og hef fengið mikla hvatningu frá fólkinu í kringum mig og fólkinu sem á verk eftir mig að gefa út bók um verkin mín með myndum af þeim öllum. Textinn verður á íslensku og ensku. Ég hef skapað fjölda verka í gegnum árin en þau skipta þúsundum ef allt er talið. Flest eru þau á Íslandi en ég á þó töluvert af verkum líka erlendis,“ segir Sigga.
Uppáhaldsverk Siggu eru gangtegundir íslenska hestsins, sem hún hefur skorið út, en það verk þykir mikil listasmíði. Það verk ásamt nokkrum öðrum verkum eru meðal annars til sýnis í Tré og list í Forsæti í Flóahreppi.
Fjölmargar viðurkenningar
Sigga, sem er fædd á Villingaholti í Flóanum, segist hafa fengið tréskurðarlistina beint í æð á barnsaldri. Hún er fyrsti heiðursborgari Flóahrepps en þann heiður hlaut hún á 80 ára afmæli sínu í fyrra. Í nóvember sama ár var hún gerð að heiðurslistamanni þjóðarinnar og áður hafði hún fengið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til þjóðlegrar listar.
