Sóknarrit fyrir húmanisma
Líf og starf 23. desember 2025

Sóknarrit fyrir húmanisma

Höfundur: Þröstur Helgason

Hlaðan eftir Bergsvein Birgisson er tímabært sóknarrit fyrir húmanisma (enda of seint að leggjast í vörn fyrir hann). Nú á tímum stjórnlausrar tæknihyggju sem telur sig geta leyst öll vandamál mannsins með stærðfræðilegum og verkfræðilegum lausnum og líkönum er fátt mikilvægara en að leita í árþúsunda hefð fræðafólks, heimspekinga og rithöfunda sem hafa rannsakað manninn, mennskuna, menninguna.

Bergsveinn kemur víða við í sögu húmanískra fræða og leitar jafnt til forn-grískra heimspekinga og til íslenskra miðaldabókmennta og fræðafólks samtímans sem leitast við að skilja ástæður og eðli þess ástands sem maðurinn hefur skapað sér með ofurtrú sinni á rök- og skynsemishyggju síðustu alda og virðist komin langleiðina með að reikna manneskjuna sem skyniborna tilfinningaveru út úr jöfnunni. Meginhugmynd bókarinnar um húmanismann er þó sótt til þýska hughyggjumannsins Friedrichs Schiller og þá einkum rits hans, Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins. Þar gerir Schiller greinarmun á tvenns konar hvötum eða eiginleikum í mannfólki sem togast á. Gefum Bergsveini orðið:

„Schiller kallar þetta skynhvöt (þý. Stofftrieb) og formhvöt (þý. Formtrieb), annað helgast af tilfinningu og skynjun, ímyndunarafli og hinu breytilega ástandi, innsæi; hjá formhvötinni drottnar hins vegar skynsemi og rökvísi, það varanlega og þær hliðar mannsins sem snúa að persónuleika hans og að honum sem tegund og veru í siðmenntuðu félagi manna – ekki að ástandi hverju sinni.“

Schiller taldi undir lok átjándu aldar að „við nútímafólk höfum gengið alltof langt í að þroska vitsmuni og skynsemi meðan tilfinningaþroski og næmleiki sálarinnar hafi legið í láginni.“ Og eins og Bergsveinn bendir á hefur „rökskrýmslavæðingin bara margfaldast í styrk eftir hans dag“. Leiðin út úr þessum „verundarógöngum mannsins“ taldi Schiller felast í því að fá hinar tvær ólíku hliðar mannssálarinnar, skynhvöt og formhvöt, til þess að ná saman í skapandi víxlverkun og þar komi til kasta listarinnar og fegurðarinnar. Þá verði til leikhvöt (þý. Spieltrieb) sem vísi til fagurfræðilegrar iðju mannsins.

Í magnaðri yfirferð Bergsveins um ógöngur mannsandans, ekki síst nú á seinni tímum þegar samfélagsmiðlar eru komnir langleiðina með að myrða sannleikann og gervigreind vegur að hlutverki mannlegrar vitundar og veru í mótun samfélags framtíðarinnar, þá kemur Bergsveinn aftur og aftur að hugmynd Schillers um fagurfræðilega veru mannsins.

Meðfram þessari yfirferð, sem ég efast um að margir rithöfundar aðrir hér á landi gætu leikið eftir, segir Bergsveinn frá sinni eigin glímu við að viðhalda mennskunni um leið og hann greinir frá endurbyggingu á hlöðu afa síns á afskekktri jörð norður á Ströndum. Bókin er skrifuð sem bréf til dóttur höfundar og hefur undirtitilinn Þankar til framtíðar, enda er viðgangur mannsins undir.

Þetta er tvímælalaust áhugaverðasta bók þessa hausts.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...