Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Nýi sveppurinn í Lýðveldislundinum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Tegundin er oft laxableikari í raun.  (Kynning á Fagráðstefnu skógræktar).
Nýi sveppurinn í Lýðveldislundinum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Tegundin er oft laxableikari í raun. (Kynning á Fagráðstefnu skógræktar).
Mynd / Bjarni Diðrik Sigurðsson.
Fréttir 29. september 2025

Nýr hlaupsveppur fundinn

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nýr sveppur, laxableikur að lit, fannst í landi Tumastaða í Fljótshlíð í fyrrasumar og var það fyrsti fundur tegundarinnar hérlendis.

Á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var í vor í Hallormsstað vakti athygli kynning Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, á fundi hans og konu hans, Önnu Jónsdóttur, á sveppategund sem ekki hafði áður sést á Íslandi. Um er að ræða laxageljung (Guepinia helvelloides).

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, telur sveppinn mjög sérstakan og skrifar í nýbirt Ársrit Náttúrufræðistofnunar um hann:

„Um 55 mm hár laxableikur hlaupsveppur, tungulaga til næstum trektlaga. Efri hluti að innanverðu er með með óreglulegum fellingum. Tegundin er rotsveppur sem vex aðallega á niðurgröfnum barrviði, sagi og viðarkurli. Hún er sögð vera tiltölulega fjallsækin en er fremur fátíð í Evrópu. Eintak af sveppnum fannst í greniskógi á Tumastöðum í Fljótshlíð um miðjan ágúst 2024. Gró voru ljós og sléttveggja, sporbaugótt til digurhólklaga með nokkuð þvera en ávala enda, 12–15 × 7,0 µm að stærð. Þetta er fyrsti skráði fundur tegundarinnar hérlendis.“

Biður sveppnum griða

Í kynningu Bjarna Diðriks kom fram að þau hjónin hafi fundið „nýja sveppategund fyrir landið í ágúst 2024 í áttatíu ára gömlum mosa-grónum sitkagreniskógi í Fljótshlíð. ...

Í Evrópu allri finnst bara þessi eina tegund af þessari ættkvísl. Af einhverjum ástæðum virðist hún vera að dreifast víðar í Evrópu á seinni árum, en hún er enn talin fremur fátíð í Skandinavíu. Hún finnst til dæmis bara á nokkrum afmörkuðum svæðum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku þar sem jarðvegur er með óvenju hátt sýrustig, þ.e. ekki súr. En íslenskur eldfjallajarðvegur er einmitt með óvenju hátt sýrustig.

Þessi tegund er einbeittur niðurbrotssveppur á fúnandi trjáviði og myndar hvorki svepprætur með trjám né öðrum plöntum. Í Svíþjóð vex tegundin einmitt í skógarbotni gamalla mosaríkra greniskóga eða blandskóga, á fúnandi viði (stubbum eða dauðum rótum) eða þá á viðarkurli eða sagi, til dæmis þar sem slíkt efni er notað á skógarstíga,“ segir í kynningunni.

Bjarni Diðrik sagði tegundina teljast til matsveppa, þótt hún sé ekki mjög bragðmikil og henti því betur í sveppablöndur en ein sér. „Ég mælist þó til að fólk tíni hana ekki til átu hérlendis þar sem hún er (enn) væntanlega ákaflega sjaldgæf hér. Þetta er spennandi viðbót í matsveppafunguna sem nú þegar telur um 120 tegundir hérlendis. Við skulum samt öll gefa henni grið fyrst um sinn svo að hún breiðist sem hraðast út í íslenskum greniskógum,“ sagði hann.

Fram kom jafnframt að þetta væri í annað sinn sem þau hjónin finna nýja sveppategund fyrir landið í sama skógarlundinum, Lýðveldislundinum á Tumastöðum í Fljótshlíð. Var fyrri tegundin svokölluð gabbkantarella (Hygrophoropsis aurantiaca) sem hefur nú fundist víðar hérlendis.

Hvað á sveppurinn að heita?

Þegar nýir sveppir finnast hérlendis þurfa þeir að fá íslenskt nafn sem bæði þarf það að eiga vel við sveppinn og vera þjált þannig að hægt sé að beygja það vandræðalaust, fyrri parturinn fyrir tegundina og endingin sameiginleg fyrir tegundir ættkvíslarinnar. Stundum þarf reyndar fleiri en eina tilraun áður en gott nafn finnst. Eftir að Guðríður Gyða hafði sagt laxageljungur nokkrum sinnum upphátt þá fór henni bara að lítast vel á það nafn sem Bjarni Diðrik hafði valið sveppnum.

„Það var sænskur sveppafræðingur sem heitir Ellen Larsson sem þekkti sveppinn en hún var stödd á skrifstofu minni þegar ég tók fram pakkann frá Bjarna Diðriki,“ segir Guðríður Gyða. „Svo er misjafnt hvort sveppurinn heitir Tremiscus helvelloides (CD.) Donk eða Guepinia halvelloides (DC) Fr. en hér er fylgt þeim sem nota síðara nafnið en sama hvort nafnið er notað þá er sveppurinn af eyrasveppsbálki, Auriculariales. Erlendum vefsíðum um sveppanöfn ber þó ekki saman um það hvort sé samheiti hins,“ segir hún enn fremur.

Skylt efni: Sveppir | LbhÍ

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...