Nýifoss gæti horfið
Hagavatnsvirkjun ehf. áformar að reisa 9,9 megavatta vatnsaflsvirkjun við Hagavatn, sunnan Langjökuls í Bláskógabyggð.
Gert er ráð fyrir því að byggja stíflu ofan við núverandi útrás úr vatninu ofan við Nýjafoss og aðra í gömlu útrásinni, að vestan ofan við Leynifoss. Nýifoss, sem myndaðist í jökulhlaupi á síðustu öld, myndi þorna upp með þessum breytingum. Fyrir áðurnefnt jökulhlaup var Hagavatn stærra.
Hagavatn er við rætur Langjökuls í suðri. Í útfalli þess er Nýifoss sem liggur niður í Farið sem rennur milli Jarlhetta og Einfells í austri og Brekknafjalla í vestri. Ferðafélag Íslands rekur gönguskála á svæðinu og yrði stöðvarhús og frárennslisskurður í um eins kílómetra fjarlægð frá því. Leggja þyrfti sjö kílómetra aðkomuveg frá Skjaldbreiðarvegi að athafnasvæðinu.
Umhverfismatsskýrsla var kynnt fyrr á árinu en Skipulagsstofnun hefur ekki lokið sínu áliti. Þar sem afl virkjunarinnar er undir tíu megavöttum þarf hún ekki að fara í gegnum Rammaáætlun. Í umsögn Landverndar um málið er bent á að nánast sami virkjanakostur með tuttugu megavatta afli sé í biðflokki Rammaáætlunar vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Í dag er Hagavatn fjórir til fimm ferkílómetrar að stærð, en flatarmál þess að framkvæmdum loknum yrði á bilinu 17 ferkílómetrar í lægstu stöðu og 23 ferkílómetrar í hæstu stöðu. Gert er ráð fyrir breytileika á hæð vatnsborðs um fimm metra
