Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Nokkrar tölur úr skýrsluhaldi mjólkurframleiðslunnar 2024
Á faglegum nótum 15. júlí 2025

Nokkrar tölur úr skýrsluhaldi mjólkurframleiðslunnar 2024

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML.

Fyrir nokkru var gerð grein fyrir niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar hvað afurðir varðar en ýmsa meiri tölfræði er að finna í gagnagrunni skýrsluhaldsins. Því miður hefur tafist að koma orðum um þessar tölur á blað en hér á eftir er reynt að ráða nokkra bót á trassaskapnum.

Það mun vera rétt um aldarfjórðungur frá því sjálfvirk mjaltatækni hélt innreið sína í íslensk fjós. Ekki verður annað sagt en að íslenskir bændur hafi tekið þessari tækni opnum örmum samhliða þeim miklu breytingum sem orðið hafa á framleiðsluaðstöðu. Á síðasta ári (2024) var svo komið að 59,1% búa notuðu þessa mjaltatækni og hækkaði hlutfallið úr 54,4% milli ára. Á þessum búum eru 74,6% allra mjólkurkúa sem framleiddu 76,8% allrar innveginnar mjólkur. Sambærilegar tölur frá árinu áður eru 70,9% kúnna og 73,2% innlagðrar mjólkur. Þetta er, eins og áður og eftir því sem ég kemst næst, hæsta hlutfall mjaltaþjóna í heiminum. Þarna hefur orðið mikil breyting á síðastliðnum sex árum en árið 2019 voru mjaltaþjónar á 40,6% búa og 54,6% kúnna voru mjólkaðar með þessari tækni. Fjölgun mjaltaþjóna hefur einkum rutt mjaltabásum úr notkun en á síðasta ári voru 14,5% búa með mjaltabás fyrir 11,9% kúnna. Mjaltakerfi voru í 26,4 fjósa og hlutfall kúa sem mjólkaðar voru á þann hátt var 13,5%.

Förgunarástæður kúnna á síðastliðnu ári voru um margt áþekkar fyrri árum en þó má merkja ákveðna þróun sem er að sumu leyti jákvæð og að öðru leyti ekki. Júgurbólga er tilgreind sem aðalástæða hjá flestum kúnna, eða 19%, en var 21,5% á árinu 2023. Næstalgengasta förgunarástæðan er ófrjósemi eða kýrnar hafi ekki fest fang, sem er tilgreint í 18% tilfella eða nánast sama hlutfalli og árið áður þegar það var 17,9% tilfella. Litlar afurðir er þriðja algengasta aðalástæða förgunar og er tilgreind í 9% tilvika samanborið við 10% árið á undan. Þær breytingar sem orðið hafa þarna á undanförnum árum eru að hlutfall kúa sem fargað er vegna júgurbólgu lækkar en á sama tíma hækkar hlutfall kúa sem fara vegna ófrjósemi. Þetta bendir til betra júgurheilbrigðis en lakari frjósemi eða þá að þolinmæði manna við að koma kálfi í kýrnar hefur minnkað með árunum. Alls voru greind um 195 þús. kýrsýni á árinu 2024. Samkvæmt reglugerð um stuðning í nautgriparækt þarf að skila kýrsýnum 8 sinnum á ári.

Alls voru 34.160 kýr skýrslufærðar á árinu þannig að þetta jafngildir um 5,7 sýnum á kú til jafnaðar eða nálægt 7,8 sýnum á árskú. Það sýnir okkur að þátttaka í sýnatöku er góð þó auðvitað megi gera betur. Þær mælingar sem kýrsýnin gefa eru mikilvægt tæki við bæði bústjórn og í ræktunarstarfinu. Mikilvægt er að sýnatakan sé framkvæmd með reglubundnum hætti og að vandað sé til hennar.

Kynhlutfall fæddra kálfa var eins og fyrr skekkt en áþekkt og verið hefur. Nautkálfar voru 53,3% fæddra kálfa samanborið við 53,2% árið áður. Ef horft til afdrifa fæddra kálfa þá voru 64,1% nautkálfanna settir á til lífs. Þetta hlutfall er ívið lægra en árið þegar hlutfallið var 64,8%. Hlutfall þeirra nautkálfa sem slátrað er nýfæddum hækkar eilítið milli ára, eða í 15,6% úr 14,5%. Samdráttur í ásetningi nautkálfa á sér án efa skýringu í óviðunandi afkomu nautakjötsframleiðslunnar. Af nautkálfunum fæðast 17,0% dauðir eða farast í fæðingu og 2,9% þeirra drepast innan 20 daga frá fæðingu. Á árinu 2023 voru þessi hlutföll 17,3% og 2,7%.

Ef litið er til afdrifa kvígukálfanna eru 85,3% þeirra settar á til lífs en þetta hlutfall var 85,5% árið áður. Förgun nýfæddra kvígna er svo gott sem óþekkt fyrirbæri en 0,9% er slátrað nýfæddum og er engin breyting frá fyrra ári þegar 0,7% var fargað. Hlutfall þeirra kvígna sem fæðast dauðar eða drepast í burði er 11,4% en var 11,8% árið áður. Þær kvígur sem drepast innan við 20 daga aldur telja 1,9% sem er 0,2% prósentustigum hærra en árið 2023.

Á þessu má sjá að úr þeim kálfadauða sem verið hefur viðvarandi hefur ekki dregið svo neinu nemur, því miður. Ekki hefur tekist að finna skýringu á miklum fjölda dauðfæddra kálfa hérlendis, sem er mun meiri við 1. burð en seinni burði, þó víða hafa verið leitað. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til áhrifa margra þátta. Nefna má erfðaþátt en fundist hefur arfgengi þó lágt sé. Nú er í gangi verkefni þar sem greina á erfðamengi dauðfæddra kálfa með það í huga að mögulega megi finna mein- og/eða banagen í stofninum. Annar þáttur er almenn bústjórn og stærð fæddra kálfa. Stærðin getur tengst bústjórn þar sem kvígurnar kunna að vera fullsterkt fóðraðar á síðari hluta meðgöngu. Þá er áreiðanlegt að almenn notkun heimanauta á kvígur hefur áhrif en það að vita ekki væntanlegan burðardag gerir eftirlit og alla umhirðu fyrir burð í besta falli ómarkvissa. Eitt þeirra tækja sem hjálpað getur í baráttunni við kálfadauðann eru einkunnir fyrir burð feðraáhrif (BFA) og burð mæðraáhrif (BMA). Naut sem eru með lága einkunn fyrir BFA ættu menn t.d. alls ekki að nota á kvígur.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hlutfallslega burðardreifingu eftir mánuðum á árinu 2024 skipt eftir mjaltaþjónabúum annars vegar og öðrum búum hins vegar. Þarna má sjá að burðir eru hlutfallslega flestir á vormánuðum á þeim búum sem ekki eru með mjaltaþjóna. Þannig hefur þetta verið um langa hríð enda sækja kýrnar í að bera á vorin. Þá eru burðir hlutfallslega fleiri á haustmánuðum en á t.d. sumrin en bændur vilja fremur að kýr og kvígur beri að loknu sumri m.t.t. bústjórnarlegra þátta. Á mjaltaþjónabúunum er burðardreifingin ívið jafnari og þar er ekki að sjá topp í burðartíðni á vorin en aftur á móti kemur toppur í desember og janúar. Eflaust mætti ná betri nýtingu á mjaltaþjónana með því að jafna burðardreifinguna enn frekar en kannski er eðlilegt að menn vilji ekki láta kýrnar/kvígurnar bera á sumrin þegar gróffóðuröflun stendur sem hæst. Úr því rætt er um burði er rétt að nefna aldur við fyrsta burð. Á árinu 2024 reyndist hann vera 27 mánuðir að meðaltali sem er 0,2 mánuðum lægri meðalaldur en árið áður. Það er jákvæð þróun en betur má ef duga skal. Allar rannsóknir sýna að hagkvæmasti burðaraldur er í kringum 24 mánuðir og að því ber að sjálfsögðu að stefna.

Síðla hausts 2022 innleiddum við erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt og í samræmi við niðurstöður doktorsverkefnis Egils Gautasonar var ákveðið að stefna að því að arfgerðargreina sem flesta gripi. Niðurstöður Egils voru þær að ekki næðist hærra öryggi kynbóta- eða erfðamat nema á arfgerðargreindum gripum. Veturinn 2022–23 var því hrundið af stað almennri sýnatöku úr fæddum kvígum og ekki verður annað sagt en að vel hafi tekist til. Íslenskir kúabændur hafa þar sýnt hvers þeir eru megnugir og tekið virkan þátt með sýnatöku úr kvígum. Þegar þetta er skrifað er búið að arfgerðargreina samtals 39.332 gripi og þar af eru 26.534 fæddir 2022 eða síðar. Sá tími að mikill meirihluti núlifandi mjólkurkúa, eða 80–90%, verði arfgerðargreindur nálgast því óðfluga. Það er, mér vitanlega, einsdæmi í heiminum og engin önnur þjóð sem nær viðlíka hlutfalli arfgerðargreindra gripa. Fyrstu nautin sem valin voru á nautastöð á grunni erfðamats fæddust haustið 2022. Synir þeirra eru farnir að skila sér á stöð og dætur þeirra munu skila sér í framleiðslu á árinu 2026. Þegar sá áfangi næst munum við fá mat á því hverju erfðamengisúrvalið skilar í auknum framförum. Stór hluti framfaranna liggur án efa í því að verulega gölluðum gripum ætti að fækka þegar ekki þarf lengur að afkvæmaprófa nautin fyrir notkun en eðlilega voru þau naut sem valin voru að mestu á grunni góðs ætternis misjöfn að gæðum. Sá hópur sem valin er á grunni erfðamats er væntanlega jafnbetri og grunnurinn að valinu traustari en áður var.

Íslensk nautgriparækt er að mörgu leyti á góðum stað í dag. Við höfum betri tól og tæki í höndunum en nokkru sinni áður og mjög góð þátttaka í skýrsluhaldi og ræktunarstarfi veitir okkur mikinn styrk þrátt fyrir smæðina. Það er mjög mikilvægt að viðhalda þessari stöðu og bæta enn frekar. Fyrir dyrum stendur að bjóða upp á kyngreint sæði sem gjörbreytir umhverfi íslenskra kúabænda um margt. Það er brýnt að nota þá tækni skynsamlega frá fyrsta degi og gera sér strax grein fyrir hver raunveruleg þörf hvers og eins bús er varðandi fjölda kvígna. Með marvissri notkun erfðamats og kyngreinds sæðis er hægt að bæta rekstrarafkomu umtalsvert en til þess þarf einbeitta og skipulagða bústjórn. Það er nefnilega svo að þegar rýnt er í tölur má sjá að víða liggja ónotuð tækifæri í bústjórnarþætti hvers og eins bús.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...