Myndflöturinn logar
Bjart er yfir sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg. Sýningin heitir Roði en þar er að finna nokkur verk úr nýrri röð mynda þar sem rauði liturinn er ráðandi. Rauði liturinn á sér langa sögu í vestrænni myndlist og er raunar sá fyrsti sem hægt var að mála með. Birtan sem fylgir honum skírskotaði til dýrðleika guðs og sömuleiðis þess dýrmætasta sem maðurinn átti af veraldlegum eigum. En í rauðum búa mótsagnir líkt og í öðrum litum.
Eggert hefur áður málað myndir þar sem rauði liturinn er ríkjandi en röð mynda í þeim lit hefur hann ekki áður gert. Hún kemur í framhaldi af seríu verka sem höfðu bláa litinn í forgrunni. Vatn flæðir um þær myndir en þar má líka sjá syndandi himin, ef maður kýs að líta svo á.
Þessi speglun himinsins í jörðinni er algeng í verkum Eggerts. Stundum er eins og í jarðargróðanum framkallist stjörnuþokur og vetrarbrautir. Þannig birtist viðfangið á sama tíma og það leysist upp í eitthvað annað. Hið áþreifanlega verður óáþreifanlegt, hið nálæga fjarlægt. Lifandi vatnið sem leikur um grös og blóm í bláu seríunni verður að flæðandi myrkri innan um ljós stjarnanna.
Í rauðu seríunni leikur ljósið um allan myndflötinn sem logar bókstaflega.
Rauður
Rauður hefur myndað litagrunn margra mynda Eggerts, eins og hann sagði frá í leiðsögn sinni um nýju sýninguna fyrir stuttu. Fyrsta lagið á striganum hefur þá verið rautt. Síðan var málað ofan á það með öðrum litum, oftast svo mörg og þykk lög að rétt glittir í rauðan grunninn á stöku stað í endanlegu verki. Í nýju verkunum er þessu snúið við, ef svo má segja. Grunnliturinn er grár en svo tekur rauði liturinn yfir strigann meira og minna þegar listamaðurinn hefur lokið verki sínu.
Lengi vel var rauður eini litur vestræns menningarheims fyrir utan svartan og hvítan sem oft eru ekki einu sinni taldir til lita. Svo einstæður var rauður að sama orðið var notað um hann og fyrirbærið liti og þess má enn sjá merki í til dæmis spænska orðinu colorado. Rauður var líka fyrsti liturinn sem hægt var að mála með og lita. Á miðöldum skírskotaði hann til blóðs Krists og elda vítis en hann var líka tákn ástar, fegurðar og dýrðleika. Rauður var ráðandi litur og fullur af merkingu. Við siðaskiptin á sextándu öld tóku mótmælendur að tengja litinn við óhófið, sem þeir töldu einkenna kaþólsku kirkjuna, hvers konar munað, klúrheit og ósiðsemi. Rauður missti sinn sess og aðrir litir fóru að taka meira pláss, ekki síst blár, sem smám saman varð vinsælasti liturinn. Á nítjándu öldinni lifnaði þó aftur yfir rauðum þegar hann varð litur byltinga og róttækrar vinstrisinnaðrar hugmyndafræði og verkalýðsbaráttu. Á sama tíma varð blár litur íhaldsstefnu og hægristjórnmála.
Andstæður og mismunur
Sagan hefur gert rauðan og bláan að andstæðulitum. Og eins og bent var á hér að framan tákna þeir líka andstæða krafta í náttúrunni, svo sem birtu og myrkur, eld og vatn. Birtingin er í víðum skilningi merkingarkjarni rauðs. Í birtingu dags litar eldur sólarinnar morgunhimininn rauðan. Það lýsir af rauðum og hann hefur í gegnum tíðina verið látin birta hluti, leiða þá í ljós, merkja þá, draga þá fram. Við notum rauðan penna til að undirstrika áherslur í texta, beina athygli lesanda að einhverju sem skiptir máli, auðkenna. Hlutir ganga eins og rauður þráður í gegnum mál okkar og sögur. Blár tengist á hinn bóginn því sem hverfur eða aldrei verður og öllu hinu sem augað ekki nemur. Tærleiki er þannig iðulega blár og oft tengist hið óræða bláum, einnig hið óljósa og ósnertanlega. Ef hægt er að snerta hið bláa leysist það stundum upp eins og ísinn.
En þessir merkingarkjarnar í rauðum og bláum eru ekki útilokandi. Í báðum þessum litum, líkt og öllum öðrum, búa andstæðir kraftar sem takast stöðugt á, þenja út merkingarsvið þeirra og skapa mismun. Rauður getur þannig einnig tengst myrkri eins og orðið rauðamyrkur leiðir í ljós. Það er samheiti orðsins svartamyrkur.
Við tölum einnig um rauða jörð sem merkir að hún sé auð. Rauð jól eru þannig snjólaus. Í orðabókinni er orðið roði sagt vísa til auðrar jarðar á milli fanna. Hér hefur rauður fengið merkingu sem er andstæð birtu hans og yfirleitt tengist bláum.
Roði
Gullnum roða slær á jarðargróðurinn sem Eggert málar í verkum sínum á þessari sýningu, hvort sem það er aftanroði eða árdagsroði, morgunroði, kvöld- eða næturroði. Orðið roði er mildara en rauður. Það hefur heldur ekki jafnsterkar pólitískar skírskotanir, þótt roðinn í austri gefi ákveðna hugmyndafræði til kynna. En þetta eru ekki pólitískar myndir. Þær miðla umfram allt birtu og yl. Blómahafið er um leið eins konar eldhaf. Logandi kvöldhiminn. Morgunbjarmi.
Þeir sterku litir sem listamaðurinn vinnur hér með kalla á sterk og mótsagnakennd viðbrögð. Einnig er spenna í formbyggingunni þar sem hið smágerða, fínlega og kyrra tekur þátt í að móta heildarmynd sem er grófgerðari og einkennist af meiri óreiðu og ókyrrð. Eggert stígur ef til vill skrefi lengra í átt að frjálsari pensilstroku í þessum verkum.
Verkin kalla fram í hugann andstæðar táknmyndir. Í þeim má finna jafnt Edensgarðinn og elda vítis. Í því samhengi er áhugavert að á sýningunni er einnig röð fimmtán nýrra grafíkverka sem Eggert hefur unnið í tengslum við væntanlega útgáfu Paradísar úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante í þýðingu Einars Thoroddsen, en þessi þriðji og síðasti hluti verksins lýsir ferðalagi sálarinnar í átt til ljóssins, friðarins og hins guðdómlega. Fyrsti hlutinn heitir Víti og annar Skírnarfjallið. Í grafíkverkunum slær jörð og himni aftur saman og skapa úr mismuni sínum samtal um efni og anda, hið höndlanlega og óhöndlanlega.
Umfram allt er það þó fegurðartilfinningin sem hrærist frammi fyrir verkum sýningarinnar. Um það verður ekki deilt að verk Eggerts búa yfir óvenjulega sterkri fagurfræðilegri orku sem lætur engan, er kemst í nálægð við þau, ósnortinn.
