Metframleiðsla mjólkur á síðasta ári
Fréttir 15. janúar 2026

Metframleiðsla mjólkur á síðasta ári

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Alls voru 156,9 milljónir lítra lagðir inn í mjólkurafurðastöðvar á síðasta ári, en það er mesta framleiðslumagn mjólkur á einu ári.

Það er rúmlega þremur milljónum lítrum meira magn en árið 2024. Greiðslumark ársins 2025 var 152 milljónir lítra sem þýðir að innvegin mjólk umfram greiðslumark, eða „umframmjólk“, er um 4,9 milljónir lítra á síðasta ári en var 2,2 milljónir lítra árið 2024.

Jóhannes H. Símonarson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, sem tekur við mjólk frá eigendum sínum um land allt, telur hagstætt veðurfar síðasta sumar vera helstu ástæðu mikillar framleiðslu. „Sumarið var alls staðar á landinu afar hagstætt veðurfarslega séð til fóðuröflunar, þar sem heyfengur og korn var með albesta móti – bæði hvað varðar magn og gæði. Mjólkurframleiðendur hafa jafnframt getað gengið að því loforði mjólkurafurðastöðvanna að fá 85 krónur á lítrann fyrir alla umframmjólk og til viðbótar þann hluta af beingreiðslum sem greiddar eru á hvern innveginn lítra. Undanfarin ár hefur útjöfnun á ónotuðu greiðslumarki jafnframt verið nokkru meiri en áður var, eða um 16%, sem þýðir að bændur sem framleiddu allt að 16% umfram greiðslumark sitt fengu þá mjólk greidda fullu verði. Þessar aðstæður hafa væntanlega allar hjálpast að við að auðvelda og hvetja bændur til aukinnar framleiðslu.“

Hann segir sölu á mjólk jafnframt hafa gengið vel á árinu og verið í ágætu jafnvægi við innvegna mjólk. „Þar sem greiðslumark undanfarinna ára hefur miðast við áætlaða innanlandsþörf fyrir mjólkurfitu hefur þurft að flytja út þann hluta mjólkurpróteins sem er umfram innanlandsþarfir. Það hefur verið gert í formi skyrs á undanförnum árum og hefur sala á skyri erlendis gengið mjög vel og nú þegar búið að flytja út umframbirgðir próteins síðasta árs og hluta af umframmjólkinni sömuleiðis. Það verð sem afurðastöðvarnar lofa að greiða bændum fyrir umframmjólk ræðst af því skilaverði sem fæst fyrir skyrið erlendis.“

Að sögn Jóhannesar er þróunin sú að mjólkurframleiðendum á Íslandi heldur áfram að fækka á meðan þeir sem eftir eru stækki sín bú. Hann segir að um síðustu áramót hafi 445 kúabú verið starfandi á Íslandi en til samanburðar voru þau um þúsund um síðustu aldamót.

„Mjólkurframleiðendum hefur því fækkað um ríflega helming á 25 árum, en á sama tíma hefur meðalkúabúið á Íslandi farið úr því að leggja inn í mjólkurafurðastöð rétt um 100.000 lítra í það að leggja inn ríflega 330.000 lítra. Meðalkúabúið á Íslandi hefur því ríflega þrefaldast að stærð á þessum aldarfjórðungi. Á þessum tíma hefur aukin sjálfvirkni breytt störfum bænda töluvert og gert þeim kleift að framleiða mun meira mjólkurmagn án þess að fjölga hafi þurft starfsfólki að sama skapi. Mest munar trúlega um mjaltaþjónana sem íslenskir mjólkurframleiðendur hafa verið mjög duglegir að taka í þjónustu sína.

Fyrsti mjaltaþjónninn var einmitt tekinn í notkun á Íslandi árið 1999 og er nú svo komið að ríflega helmingur mjólkurframleiðenda hefur slík tæki í þjónustu sinni og rétt um 80% af innveginni mjólk er mjólkuð af mjaltaþjóni.“

Uppgjörsvinna við útjöfnun á greiðslumarki ársins 2025 tekur nú við, annars vegar hjá atvinnuvegaráðuneytinu hvað varðar beingreiðslur og hins vegar hjá mjólkurafurðastöðvunum hvað varðar afurðastöðvarverð.

„Það þýðir að þeir mjólkurframleiðendur sem framleiddu umframmjólk geta átt von á því að fá einhvern hluta hennar greiddan fullu verði, bæði hvað varðar beingreiðslur og afurðastöðvarverð þar sem hluti mjólkurframleiðenda náði ekki að framleiða það magn sem þeir eiga í greiðslumarki. Væntanlega verður hægt að ljúka þessari uppgjörsvinnu nú í janúar og gera upp við mjólkurframleiðendur í febrúar líkt og undanfarin ár,“ segir Jóhannes.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...